Greiðsluaðlögun

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:20:40 (1717)

[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Spurningu minni er beint til hæstv. félmrh. og hún hljóðar svo:
    ,,Hvað líður athugun ráðuneytisins á setningu laga um greiðsluaðlögun?``
    Á 116. löggjafarþingi lögðu sá er hér mælir og hæstv. núv. umhvrh. fram till. til þál. um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Tillagan var svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. að skipa nefnd er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Nefndin skal m.a. kanna svipuð lög annars staðar á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af þeim.``
    Ástæður þær er lágu til grundvallar þáltill. voru sívaxandi skuldir heimila sem ætla má að séu um þessar mundir 240--250 milljarðar kr. Það er áhyggjuefni hversu slæm skuldastaða heimilanna er um þessar mundir, ekki síst í ljósi versnandi atvinnuástands síðustu missira. Það hefur hins vegar gerst frá því að þáltill. var lögð fram í vor að hæstv. félmrh. hefur beitt sér fyrir skuldbreytingum húsnæðislána og einnig hafa stjórnvöld beitt sér myndarlega og haft þau áhrif á vaxtamarkað að raunvextir hafa lækkað verulega á síðustu vikum og nálgast raunvaxtastig í helstu viðskiptalöndum okkar. Það er sannarlega ljós í myrkri skuldastöðu heimilanna í landinu.
    Hugmyndirnar sem búa að baki tillögunni og lögum um greiðsluaðlögun eru þær hvort ekki sé heppilegra og kostnaðarminna fyrir ríkisvald, banka, stofnanir og einstaklinga í landinu að komast hjá og fækka gjaldþrotum einstaklinga, sem iðulega hafa í för með sér að einn helsti hornsteinn samfélagsins, fjölskyldan, leysist upp með þeim alvarlegu samfélagslegu afleiðingum sem slíkt hefur oft í för með sér.
    Því miður komst þáltill. ekki á dagskrá í vor og kom því ekki til umræðu. Hins vegar lýsti hæstv. félmrh. því yfir við umræður um atvinnuleysistryggingar hinn 7. maí sl. að nefnd þriggja ráðherra væri að hefja vinnu að athugun á greiðsluerfiðleikum og þar með talinni greiðsluaðlögun. Því spyr ég hæstv. félmrh. hvað þeirri vinnu líði.