Friðunaraðgerðir á karfa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:19:51 (1741)


[18:19]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fyrirspurnarinnar er þetta að segja: Á þessu hausti hafa orðið nokkrar umræður um ástand karfastofnsins og aðgerðir til verndar honum. Hafa þegar verið gefnar út tvær reglugerðir sem miða að verndun karfaseiða og ungkarfa. Samkvæmt reglugerð sem gefin var út 1. nóv. voru rækjuveiðar bannaðar á þremur svæðum fyrir Norðurlandi. Var það gert til að komast hjá drápi á karfaseiðum en verulega hefur orðið vart slíkra seiða á tilteknum svæðum fyrir Norðurlandi. Eftir útgáfu reglugerðarinnar kom fram nokkur gagnrýni frá sjómönnum um mörkun þessara svæða. Í framhaldi af þeim umræðum var ákveðið að stækka eitt svæðið en jafnframt að kanna hin betur. Þá var í síðustu viku gefin út reglugerð þar sem sett voru þrjú ný friðunarsvæði fyrir Suðvesturlandi þar sem allar togveiðar voru bannaðar. Jafnframt var breytt nokkuð friðunarsvæði fyrir Breiðafirði sem verið hefur í gildi í allmörg ár. Þessi friðunarsvæði voru sett til verndar ungkarfa og voru þau ákveðin að höfðu samráði við aðila sem vel þekktu til togveiða á þessu missiri. Auk ofangreindra aðgerða hefur verið skylda við rækjuveiðar að nota leggmöskva á ákveðnum svæðum en talið er að slíkur möskvi hleypi betur í gegn seiðum en síðumöskvi. Þá hefur og verið til athugunar hvort taka ætti upp seiðaskilju við rækjuveiðar en á því hafa reynst ýmsir annmarkar enn sem komið er en það mál er nú til frekari athugunar.
    Að því er varðar annan lið fyrirspurnarinnar er þetta að segja: Haldinn hefur verið í ráðuneytinu fundur um það hvort banna ætti notkun flotvörpu við karfaveiðar á tilteknum svæðum. Var það niðurstaða þess fundar að gera það ekki að svo stöddu. Helstu ástæður þeirrar niðurstöðu eru þessar:
    1. Karfi sem veiddur væri í flotvörpu væri bæði stór og góður.
    2. Karfi er í kvóta og því óráðlegt að banna þá veiðiaðferð sem væri árangursríkust þar sem það hefði ekki áhrif á það magn sem veitt væri.
    3. Væri gripið til slíks banns mundi það leiða til þess að reyndar yrðu aðrar aðferðir við að ná þessum karfa, t.d. með nýjum gerðum botntrolla sem ná hærra upp í sjó eða tveggja báta trolli. Þótti óráðlegt að auka kostnað útgerða með þeim hætti.
    Varðandi karfastofnana er ljóst að vitneskju um þá er í ýmsu ábótavant. Er þörf á að auka rannsóknir á þessum stofnum og eru uppi hugmyndir um að lögð verði aukin áhersla á þær, til að mynda í togararalli.