Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:24:35 (1775)


[16:24]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ástæðan fyrir því að í greinargerðinni með 6. gr. er ekki tekið fram nákvæmlega hvað staðgreiðsluskatturinn, tekjuskatturinn, lækkar er einfaldlega sú að þegar gengið var frá texta frv. í sumar og þegar nefndin starfaði í sumar þá vildi ríkisvaldið ekki afsala sér þeim rétti að geta gripið til skattahækkunar ef á þyrfti að halda. Það var einasta ástæðan. Nú hins vegar standa málin þannig að lækkunin verður 1,5 prósentustig, en viðbótin sem kemur af öðrum ástæðum og mun skýrast á næstu dögum og hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum er hækkun upp á 0,35 prósentustig vegna þess að fallið var frá skattheimtunni á allan launastokkinn, en tekjuskattur tekinn í staðinn.
    Þegar spurt er síðan um það hvort einhver græði á þessu þá er þetta alveg reiknað út. Það tóku þátt í nefndarstarfinu fulltrúar atvinnulífsins, fulltrúar sveitarfélaganna og fulltrúar ríkisins. Keppikeflið, markmiðið var að ná jöfnuðu á milli þessara aðila þannig að menn stæðu svo að segja eftir eins og áður og það verði ekki um tekjulækkanir eða tekjuhækkun að ræða.
    Hitt er svo alveg rétt að það verða auðvitað tilfærslur á milli fyrirtækja. Það getur ekki farið hjá því og það verða í sumum tilvikum verulegar tilfærslur á milli sveitarfélaga. Ég nefni t.d. í því sambandi að Reykjavík mun tapa nokkrum tekjum af þessum ástæðum vegna þess að Reykjavík hafði talsvert meira en önnur sveitarfélög upp úr aðstöðugjaldinu en fær minna upp úr útsvarinu en ýmis önnur sveitarfélög. Þannig að slíkar tilfærslur á milli sveitarfélaga munu vissulega eiga sér stað í vissum tilvikum.
    Að lokum þetta: Á fyrsta árinu mun ríkið hagnast um nokkur hundruð milljónir kr. vegna greiðsluflæðisins en það er bara í fyrsta skiptið sem það gerist af eðlilegum ástæðum.