Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:44:17 (1818)


[14:44]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta var athyglisvert svar hjá hv. 8. þm. Reykn. Áður hafði hann gagnrýnt mig fyrir að skipa Garðar Gíslason af pólitískum sjónarmiðum. Eftir stendur að hann telur að ég hefði átt að skipa mágkonu hans í þetta starf. Ég held að öllum hv. þm. megi vera það ljóst að hér er ekki um málefnalega gagnrýni að ræða af hálfu hv. þm. (Gripið fram í.) Það eru mörg önnur sjónarmið sem koma til álita við málefnalegt mat á hæfi umsækjenda til þess að skipa sæti í Hæstarétti en það að hafa verið dómari. Enda eru þangað stundum skipaðir menn sem aldrei hafa verið dómarar og það er nauðsynlegt að tryggja ákveðna fjölbreytni í réttinum þannig að menn komi ekki allir úr sama farvegi, þó að ákveðnar kröfur séu gerðar til manna sem þar sitja. En það má öllum vera ljóst að sú gagnrýni sem hv. þm. hefur sett hér fram á skipan Péturs Hafsteins er ekki á málefnalegum rökum reist.