Skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:31:52 (1891)


[14:31]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Þessi tillaga er í raun og veru tvíþætt. Annars vegar er hún um það að setja skilyrði varðandi ríkisborgararétt og hins vegar er hún um það að ríkisvaldinu skuli gert skylt að sjá til þess að þeir sem ætla að setjast hér að geti stundað íslenskunám.
    Varðandi fyrra atriðið, um það að setja sem skilyrði við veitingu ríkisborgararéttar, þá var þetta mál fyrir um það bil 40 árum mjög rætt hér á þingi varðandi slík skilyrði og þá var því haldið fram sem er ómótmælanlegt að í 68. gr. stjórnarskrárinnar segir að enginn útlendingur geti fengið ríkisborgararétt hér

á landi nema með lögum og dómsmrn. hefur í sjálfu sér aldrei sett neinar reglur um það hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að fá hér ríkisborgararétt. Að vísu er í umsóknareyðublaðinu sem menn fylla út þegar þeir sækja um ríkisborgararétt talað um kunnáttu í íslensku en það skilyrði er ekki nefnt í starfsreglum allshn. Alþingis sem hún setti sér, ef ég man rétt, fyrst árið 1955. Hér er verið að leggja til við Alþingi að það samþykki að fela dómsmrh. að setja reglur sem í raun og veru eru marklausar á meðan því er háttað þannig eins og segir í 68. gr. stjórnarskrárinnar að það þarf að samþykkja ríkisborgararéttinn með lögum. Engar slíkar reglur hafa gildi í sjálfu sér þar sem það er Alþingi að lokum sem ákveður þetta með lögum þannig að ég vara við því að þessu sé endilega vísað til dómsmrh. Hins vegar kann það að vera að menn ræði um það í allshn. Alþingis hvort það eigi að breyta þeim starfsreglum sem þar hafa gilt um þetta. Það hafa verið uppi hugmyndir m.a. um að stytta árafjölda og annað slíkt þannig að það mál kann að koma til álita í nefndinni en hitt að gera það að kröfu að menn hafi kunnáttu í íslensku til þess að öðlast hér ríkisborgararétt tel ég efnislega nokkuð varasamt. Það tíðkast í nokkrum löndum, ég held að það tíðkist í Danmörku og einhverjum fleiri ríkjum og það hafa orðið deilur um þetta í Eystrasaltsríkjunum. Ákvæði í eistneskum lögum um skyldu manna þar sem öðlast ríkisborgararétt til þess að kunna a.m.k. 1.500 orð í eistnesku til þess að fá réttinn. Hefur af sumum verið talið skerðing á mannréttindum að setja slíkt ákvæði þannig að mér finnst að það þurfi að velta þessu mjög gaumgæfilega fyrir sér. Hitt er annað mál og hef ég jafnvel haft í huga að flytja um það tillögu á Alþingi en þó ekki gert það vegna þess að það er lítið hægt að breyta hér nokkru nema hrófla þá við stjórnarskránni sjálfri en það er hvort sá háttur sem við höfum á varðandi veitingu ríkisborgararéttar sé endilega í samræmi við það sem menn telja e.t.v. skynsamlegast núna. Okkur alþingismönnum ýmsum hefur borist bréf frá Amnesty International varðandi það hvernig reglum hér er háttað um móttöku á flóttamönnum og ýmsir kynnu að telja að reglurnar sem við höfum varðandi veitingu ríkisborgararéttar séu líka það strangar að líti menn á þær í smásjá mannréttindakrafna þá sé hægt að finna að þeim frá þeim sjónarhóli.
    Þetta mál allt er mjög viðkvæmt og stórt og viðamikið í heild sinni, skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttarins, þannig að mér finnst að það fari ekki vel á því að blanda þessu tvennu saman í þessari ályktun og allshn. hljóti að horfa á þetta tvennt sem aðskiljanleg mál og e.t.v. væri á rétt að b-liður í þessari ályktun ætti heima hjá menntmn. í meðferð hennar á þeirri tillögu sem er á þskj. 273 og síðan verði atriði varðandi ríkisborgararéttinn og skilyrði vegna hans þá skoðað sérstaklega í allshn. Sú nefnd setti þessar reglur upphaflega 1955 og þær hafa verið óbreyttar að stofni til síðan þá. Þá voru miklar umræður um það eins og ég sagði í upphaf máls míns hvort það væri hægt að fela dómsmrn. að setja slíkar reglur en menn hurfu frá því með vísan til 68. gr. stjórnarskrárinnar.