Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 18:20:16 (1936)


[18:20]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það má ljóst vera að sú tillaga tvíhöfða nefndarinnar sem hér er vitnað til lýtur að

breytingum á skattalögum en ekki lögum um stjórn fiskveiða. Það kom auðvitað aldrei til álita að þessi tillaga kæmi til umfjöllunar með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. En þegar af þeirri ástæðu að þessi tillaga liggur fyrir frá nefnd stjórnarflokkanna, þá get ég lýst því yfir hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að það stendur ekki til að flytja breytingar á skattalögum að þessu leyti nú fyrir jólaleyfi þingmanna og þess vegna ástæðulaust að tefja umræðuna frekar með því að kalla hér til hæstv. fjmrh. Endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til þeirrar tillögu sem tvíhöfða nefndin setti fram, en ég minni líka á að hún gerir heldur ekki ráð fyrir því að hún komi til framkvæmda fyrr en á árinu 1996 og því með öllu óþarfi að tefja þessa umræðu með því að kalla fjmrh. til hennar á þessu stigi fyrst hv. málshefjanda gerði það ekki í upphafi sem auðvitað hefði verið hið rétta í málinu. Hv. 5. þm. Vestf. getur þess vegna gagnrýnt hv. málshefjanda fyrir að hafa ekki staðið að umræðunni með þeim hætti, en á ekki að tefja umræðuna á þennan veg nú þegar komið er að lokum hennar.