Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 18:41:54 (2065)


[18:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er örstutt hérna um sameiginlegan kunningja okkar hv. þm., það er skatturinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hann á að sjálfsögðu að ganga til félmn. Þetta er orðinn skattstofn eða verður væntanlega skattstofn fyrir sveitarfélögin. Ég tel að þar sé fyrsta skref stigið í átt til samræmingar á fasteignagjöldum. Ég held að það sé mikilvægt að sveitarfélögin fái skatta af fyrirtækjum. Ég minni á að aðstöðugjaldið var lagt af. Það skilaði bæjarsjóðunum og sveitarsjóðunum 4000 millj. en skrifstofu- og verslunarskatturinn aðeins 460--470 millj. þannig að þar er um að ræða 1 / 8 eða 1 / 9 af aðstöðugjaldinu þannig að það er verið að létta álögum af fyrirtækjum í landinu en ekki að þyngja eins og mátti skilja ræðu hv. þm. að þessu leyti.