Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:31:24 (2098)


[20:31]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er kannski ekki undrandi á þeirri miklu áherslu sem hv. 1. þm. Austurl. leggur á það að ekki megi skírskota til fortíðar í sambandi við samgöngumál eða fjármál og má vera að hann sé með því að draga athyglina frá þeirri staðreynd að við sitjum auðvitað í samgöngumálunum uppi með feykilega þungar byrðar frá fortíðinni. Það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að vera að tala hér eins og það skipti ekki máli. Alveg þýðingarlaust. Ég hef gert mjög glögga grein fyrir því hvað eftir annað hvernig þau mál standa. Ég hef einnig gert alveg glögga grein fyrir því hvernig málefni flugsins standa. Auðvitað er það rétt. --- Þetta er í fyrsta lagi ekki nýtt ástand. Í öðru lagi hefur það komið fram, bæði í þessum ræðustól og annars staðar að ég hef af því þungar áhyggjur að hluthafar í Flugleiðum muni endurskoða hug sinn gagnvart því að láta utanlandsflugið bera uppi þann mikla halla sem er á innanlandsfluginu. Það hefur af þessum sökum komið upp sú rödd innan félagsins hvort rétt kunni að vera að skipta félaginu í tvennt. Við getum líka velt því fyrir okkur hvort vera megi að unnt sé að ná fram meiri hagræðingu í innanlandsfluginu því að vitanlega skipta vegirnir verulegu máli um þann fjölda sem með því fer. Ég get tekið dæmi af flugvöllum eins og á Sauðarkróki í því samhengi en eins og nú horfir eru verulegar líkur á því að jarðgöng kunna að koma undir Hvalfjörð og gefur þá auga leið að mjög muni fækka þeim sem með slíku flugi fara.