Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:14:19 (2111)


[21:14]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir alltaf gott þegar hv. þm. Jón Kristjánson kemur í ræðustól. Á hinn bóginn get ég ekki skilið hvers vegna hann hneykslast svo mjög á því að lán skuli tekin til samgöngumála. Var ekki komið svo þegar ríkisstjórnin fór frá hin síðasta með þeim skuldbindingum sem hún hafði lagt á ríkissjóð að lán vegna flóabáta voru komin verulega á þriðja milljarð? Var ekki gert ráð fyrir því í vegalögum hjá síðustu ríkisstjórn að jarðgöngin fyrir vestan yrðu fjármögnuð að verulegu leyti með lántökum? Og er ekki svo að hv. þm. skuli vera þakklátur fyrir það þegar farið er í atvinnuaukandi aðgerðir þá skuli

þær beinast að því að styrkja vegasambandið, m.a. til Austurlands, milli Norður- og Austurlands og líka til Reykjavíkur til þess að gera Austurland samkeppnishæfara til þess að draga úr kostnaði hjá atvinnufyrirtækjum fyrir austan og til þess að gera það byggilegra og búlegra? Eru það ekki skynsamlegar lántökur, þær arðbærustu sem margir telja? Er verið að finna að því að slíkt skuli vera gert? Mér þykir það satt að segja undarlegt af manni sem er svo gagnkunnugur atvinnumálum austur þar.
    Ég vil í annan stað láta í ljósi undrun mína yfir því að hv. þm. skuli gera lítið úr þeirri bragarbót og kjarabóta sem felst í því að Apex-fargjöld skuli líka vera fáanleg innan lands en ekki einungis til annarra þjóða sem er auðvitað mikil bót fyrir launþega. Ég skil raunar ekki hvers vegna ekki má tala um skattafrumvörpin eins og þau eru. Við erum að tala um virðisaukaskatt og hann er frádráttarbær í öllum rekstri eins og þingmenn vita og ég get þess vegna ekki skilið af hverju honum kom svo á óvart að svo skuli einnig vera um ferðakostnað með flugvélum eins og um margvíslegan kostnað annan sem fellur á atvinnureksturinn.