Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:32:51 (2119)


[21:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að tölur á blaði hafi talsverða þýðingu. Það eru áætlanir í fjárlögunum. En ég vil benda hv. þm. á að það er eitthvað sem hefur skolast til hjá honum. Ég veit ekki hvort það er honum eða landlækni að kenna. En það eru ekki teknar greiðslur inni á sjúkrahúsunum fyrir inniliggjandi sjúklinga. Það eru hins vegar teknar greiðslur hjá utanspítalasjúklingum, þ.e. svokölluðum ,,ambúlant``-sjúklingum eða göngudeildarsjúklingum, sem fá sérfræðiþjónustu á spítölum, rétt eins og hjá sérfræðingum úti í bæ. Af hverju er það gert? Það er að sjálfsögðu vegna þess að það væri fyllilega óeðlilegt að fólk utan sjúkrahúsa fengi betri kjör þó það gangi til læknis sem hefur aðsetur á sjúkrahúsi og veitir nákvæmlega sömu þjónustu og veitt er af sérfræðilæknum úti í bæ.
    Þetta vildi ég taka fram vegna þess að --- ég segi því miður --- ekki hefur enn þá tekist að koma því upp hér á landi að sjúklingar sem eru lagðir inn á spítala, þeir sem eru jafnvel á fullum launum eða tryggingum, greiði eitthvert lágmark fyrir það að vera lagðir inn á sjúkrahús, til að mynda sérfræðiþjónustu, lyfjakostnað og annað það sem fólk verður að greiða fyrir nákvæmlega sams konar þjónustu úti í bæ hjá sérfræðingum þar eða sem sjúklingar á göngudeildum sjúkrahúsanna. Þetta vildi ég að kæmi fram með fullri virðingu fyrir bæði hv. þm. og landlækni.