Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:18:28 (2139)


[15:18]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að á þessu stigi málsins sé nauðsynlegt að koma til skila nokkrum staðreyndum. Í fyrsta lagi hafa hv. stjórnarandstæðingar og þar á meðal hv. síðasti ræðumaður sagt að hallinn á fjárlögum yfirstandandi árs stefni í 13,8 milljarða. Ég vil af þessu tilefni rifja það upp að fyrir sl. ár var reiknað með því þegar fjárheimildir voru skoðaðar í fyrrahaust að hallinn yrði yfir 10 milljarðar en í raun varð hallinn 7,2 milljarðar vegna þess að heimildir voru ekki allar nýttar í útgjöldum og tekjuhliðin kom heldur skár út en gert var ráð fyrir um haustið. Þetta vil ég að komi hér fram því að þetta sýnir að það er ekki hægt að leggja saman tölurnar í fjáraukalagafrv. og tölurnar í fjárlagafrv. til þess að segja að útkoman verði halli. Það kemur í ljós þegar seinni fjáraukalög verða flutt eftir áramótin. Þá kemur endanlega í ljós hvort allar heimildir hafa verið nýttar.
    Í öðru lagi kom það fram í máli hv. þm. að hann efaðist um og tók nú ekki djúpt í árinni reyndar að staðið hefði verið við loforð ríkisstjórnarinnar gagnvart ASÍ. Af því tilefni vil ég taka fram að viðtöl við forustulið ASÍ hafa átt sér stað frá því að þetta bréf var skrifað og ég tel að það sé full samstaða á milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og ASÍ-forustunnar hins vegar um það hvernig standa eigi að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjárfestingar og viðhald og vegna milljarðarins er ljóst að ef heimildir verða ekki nýttar á þessu ári, þá hefur fjmrh. lýst því yfir að þær verði fluttar yfir á næsta ár. Og það má vera að kannski þriðjungur, jafnvel allt að helmingur þeirra heimilda hafi ekki nýst á yfirstandandi ári, þá munu þær verða fluttar yfir á næsta ár og um það ríkir gott samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og forustu Alþýðusambandsins.