Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:58:22 (2170)


[18:58]

     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. síðasti ræðumaður hafði af því áhyggjur að íslenska heilbrigðiskerfið væri komið að fótum fram og væri ekki til þess hæft að sinna þeim stóra hópi fólks sem þangað vill sækja. ( GHelg: Sem þangað verður að sækja.) Í fyrsta lagi af þeim orsökum að þjónustan væri ekki eins góð og þyrfti að vera og hv. þm. hafði af því áhyggjur að með tilkomu EES yrði samjöfnuðurinn slíkur að það þyrfti að grípa til sérstakra neyðarráðstafana, ef ég skildi hana rétt, til þess að jafna þá stöðu sem við þyrftum að hafa gagnvart Vestur-Evrópu. Ég hygg að flestir þeir sem gengið hafa um ganga og stofur á erlendum sjúkrahúsum geti borið saman um það að við Íslendingar getum borið höfuðið hátt í þeim efnum. Við getum líka borið höfuðið hátt þegar það lýtur að þjónustunni og hæfni þeirra þúsunda heilbrigðisstarfsmanna, hinna vel menntuðu og ötulu og vel meinandi heilbrigðisstarfsmanna sem vilja og veita góða þjónustu. Þannig að þennan samjöfnuð óttast ég ekki, hv. þm.
    Í annan stað og það er auðvitað ástæða til þess að hafa á því gát frá einum tíma til annars að íslenska heilbrigðiskerfið sé með þeim hætti að hver einasti einstaklingur sem þangað þarf að sækja geti gert það vegna félagslegrar og efnahagslegrar stöðu. Í því sambandi hef ég ekki fyrir margt löngu gefið út reglur þar sem auglýst var eftir fólki sem hefði sótt og þyrfti að sækja til heilbrigðiskerfisins og hefði talið sig verða fyrir óhóflegum útgjöldum vegna þess arna og það komu 450 umsóknir. Það voru gefnar út reglur sem kunna að vera umdeilanlegar en þar sem var mætt einmitt þessum sjónarmiðum og 130 manns fengu þarna endurgreiðslu. Þannig að með aðferðum á borð við þessar er reynt að gæta þess að hver einn og einasti einstaklingur njóti þessarar grundvallarþjónustu sem ég hygg að ég og hv. þm. séum sammála um að allir geti sótt í okkar ágæta heilbrigðiskerfi og átt þangað greiðan aðgang burt séð frá efnahag og félagslegum aðstæðum.