Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 19:02:45 (2172)


[19:02]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég og hv. þm. hljótum þá að vera sammála um það að þegar önnur lota þessarar mælingar á meintum óhóflegum kostnaði í heilbrigðiskerfinu fer fram um næstu áramót eða upp úr næstu áramótum þá sé þó fólk tilbúið og skili þá kvittunum í stærri stíl ef ástæða er til. Við skulum sjá hvað setur.
    Ég vil hins vegar geta þess líka af því að hér færði hv. þm. talið að lyfjamálunum að ég vænti þess að ég eigi þar hauk í horni þegar ég legg fram mitt lyfjafrumvarp sem miðar að því að lækka verð lyfja stórkostlega og álagningu á lyf til þess einmitt að koma til móts við allan almenning, koma til móts við útgjöld ríkisins og útgjöld fólksins í landinu því það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra að ná niður lyfjaverði þannig að ég vænti þess að ég eigi þar hauk í horni.
    Ég hygg hins vegar að við séum einnig sammála um það að áhyggjur hennar af heilbrigðiskerfinu áðan lutu fyrst og síðast að því hvernig gengi að sinna fólki, hvernig gengi að lækna það fólk sem þangað sækir. Það er auðvitað grundvallaratriði og grundvallaratriði í heilbrigðiskerfinu öllu. Um það snýst heila málið, ekki með fullri virðingu um það hvort 10 eða 20 manns sé kennt meira eða minna á ári hverju.