Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:06:49 (2194)


[22:06]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. kom víða við í ræðu sinni og fjallaði m.a. um skýrslu landlæknis en í henni kom fram að það hafi orðið slys á sjúkrahúsum vegna of mikils álags á heilbrigðisstéttum almennt. Í þessari könnun landlæknis kemur í ljós að fyrir fáum árum síðan voru það 30% starfsmanna, lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem kvörtuðu um streitu vegna of mikils álags. Núna eru það 45% lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem kvarta um óbærilegt álag vegna aukinna hagræðinga á sjúkrahúsum. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að bregðast við þessu. Nú er það greinilegt að mörg sjúkrahús úti á landi eiga að vera öldrunarsjúkrahús ef marka má þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Vill ekki hæstv. ráðherra heldur markaðssetja þessi sjúkrahús vítt og breitt um landið þannig að þau verði betur nýtt, þannig að það minnki álagið á Reykjavíkursvæðinu? (Forseti hringir.)
    Mig langar að spyrja líka varðandi biðlistana sem koma fram í þessari sömu skýrslu frá landlækni, þá kemur í ljós að biðlistar hafa aukist, sérstaklega hvað varðar beinaaðgerðir þrátt fyrir aukna tækni. Hverju svarar hæstv. ráðherra því?