Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:38:40 (2236)


[15:38]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er svo að um langt árabil hafa íslensk stjórnvöld og stjórnmálaflokkar hvatt til þess að íslenskir aðilar nýttu sér alla möguleika til veiða á vannýttum tegundum og á dýpri miðum. Það er nú fyrst á þessu ári og hin síðustu ár sem orðið hefur veruleg þróun í þessa átt. Þannig munu veiðar á Reykjaneshrygg skila allt að einum milljarði kr. í útflutningsverðmæti á þessu ári, veiðar á Flæmingjahatti við Kanada um hálfum milljarði og veiðar í Barentshafi einum til einum og hálfum milljarði kr. og munar um minna.
    Það kom því á óvart svo ekki sé meira sagt að fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda og þá sérstaklega hæstv. sjútvrh. við veiðum íslenskra skipa í Barentshafi í sumar voru þau að leita leiða til að stöðva þessar veiðar. Sömuleiðis orka ýmsar yfirlýsingar ráðamanna um veiðar íslenskra skipa við Svalbarða á dögunum mjög tvímælis. Það er afar óheppilegt svo ekki sé meira sagt að nokkuð það sé sagt af hálfu íslenskra stjórnvalda á meðan staðan er jafnóljós og raun ber vitni sem orðið gæti hugsanlega til þess að veikja okkar málstað síðar og draga úr þunganum á bak við kröfuna um hlutdeild okkar í veiðum á alþjóðlegum hafsvæðum eða umhverfis einskismannsland við Svalbarða.
    Ég bind vonir við að þessi mál séu nú komin í eða a.m.k. að komast í farsælli farveg í formlegu samráði allra þingflokka. Og ég vona að í framhaldinu verði haft fullt samráð um næstu skref í málinu og það verði haldið eftirleiðis af festu og fullri einurð á málstað Íslands. Á því er mikil þörf. Losaratök af því tagi sem einkenndu málsmeðferð íslenskra stjórnvalda fyrst í stað eru ekki til hagsbóta okkar málstað í þessum efnum.