Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:40:25 (2237)



[15:40]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur foreti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál vegna þess að ég vil að það komi fram eins og hefur komið fram beint eða óbeint í máli margra sem hér hafa talað að kannski sé þessi umræða dálítið ótímabær vegna þess að það fer fram mikil umræða um þetta inni í nefndum þingsins núna þar sem er verið að reyna að móta einhverja stefnu til framtíðar í þessum málum.
    Ég vil hins vegar að það komi fram að ég tel að í þessum málum verði Íslendingar að hafa tvö sjónarmið að leiðarljósi. Það er fyrst og fremst verndunarsjónarmiðið vegna þess að við vitum það að flestar veiðanlegar eða nýttar tegundir núna eru ýmist fullnýttar eða ofnýttar og það er mikilvægt fyrir Íslendinga, sem treysta á sjávarauðlindir, að ganga varlega um þessar auðlindir og hafa verndunarsjónarmiðin ævinlega að leiðarljósi.
    Í öðru lagi held ég að við verðum að reyna, og það tengist auðvitað fyrri hugmyndinni, að fara samningaleiðina ef þess er nokkur kostur og ég held að það skipti verulegu máli fyrir okkur vegna þeirra tegunda sem hér eru fyrir utan íslenskar 200 mílur. Við þurfum þar á samningum að halda síðar meir og þess vegna er æskilegt að reyna að fara ævinlega samningaleiðina.
    Hér var talað um það að menn þyrftu að halda þannig á málunum að það veikti ekki samningsstöðu okkar síðar eða málstað Íslendinga síðar og það held ég að sé nú kannski mergurinn málsins, en það getur verið nokkuð flókið mat að meta það hvernig hagsmunir Íslendinga og málstaður Íslendinga verður best tryggður síðar meir. Þar getur vel verið að skammtíma- og langtímasjónarmið fari ekki ævinlega saman og það getur verið þjóðhagslega hagkvæmt að grípa til tiltekinna aðgerða í dag eins og um er að litast í íslenskum efnahagsmálum, eins og hér var sagt, en við verðum ævinlega að gæta þess að það komi heim og saman við þá hagsmuni sem við metum til lengri tíma litið mikilvæga.