Svar við fyrirspurn um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 13:34:04 (2244)


[13:34]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Þann 4. nóv. var dreift hér á Alþingi fsp. frá þeim sem hér stendur til hæstv. dómsmrh. um kaup á björgunarþyrlu. Fsp. hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað veldur því að ekki hefur enn verið gerður samningur um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna?``
    Í greinargerð með fsp. er óskað eftir skýrum svörum hvað valdi því að samningurinn hafi ekki verið gerður og vitnað til yfirlýsingar hæstv. forsrh. frá 25. febr. 1993, þar sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir að innan fárra vikna mundi ríkisstjórnin ganga til þessara samninga.
    Virðulegi forseti. Það tók hæstv. ráðuneyti tæpan mánuð að svara þessari einföldu fsp. og það er vegna þess svars sem ég kveð mér hér hljóðs. Ég tel að svarið sé alls ekki fullnægjandi og svari í engu þeirri einföldu fyrirspurn sem lögð var fram. Svarið rekur einfaldlega slóða hinna ýmsu nefnda og ráðgjafarhópa sem hafa verið skipaðir og endar síðan á því að tala um minnisblað sem var lagt fyrir dómsmrh. og fjmrh. þann 4. maí sl. frá einni viðræðunefndinni í viðbót sem skilaði af sér drögum að kaupsamningi um notaða Super Puma þyrlu og var tillaga nefndarinnar að sú tegund yrði keypt. Sem sagt, svar ráðuneytisins endar 4. maí og gerir í engu tilraun til þess að svara þeirri fyrirspurn sem lögð var fram. Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta að hann sjái til þess að ráðuneytið svari þeim fyrirspurnum sem fyrir þau eru lögð, en svari ekki, eins og hér er gert, nánast út í hött. Ég tel að það hafi ekki verið gerð tilraun til svara. Ég tel að það svar sem var dreift sé nánast móðgun við þingið og það sé ráðuneytinu til vansa.
    Að endingu vil ég segja það að allt þetta mál eins og það stendur er sjálfri ríkisstjórninni til skammar og ég vona að ríkisstjórnin fari að manna sig upp og klára málið.