Svar við fyrirspurn um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 13:44:56 (2251)


[13:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem við erum hér að ræða snertir ekki aðeins þyrlukaup heldur samskipti þingsins við framkvæmdarvaldið. Eins og hér hefur verið rakið þá ber forseta Alþingis að ákveða hvort fsp. er rétt fram borin og senda hana áfram til viðkomandi ráðherra. Síðan er svarið frá ráðuneytinu sent til forseta þingsins. Svarið er ekki sent til viðkomandi þingmanns heldur til forseta þingsins. Og ég trúi því ekki að forseti þingsins ætli virkilega að halda við þá túlkun að það komi forseta þingsins ekkert við hvort ráðherrar gegna skyldu sinni við þingið og svari þeirri spurningu sem fram er borin eða ekki.

Það mátti túlka yfirlýsingu forseta hér áðan á þann veg að það yrðu þingmenn bara að eiga við viðkomandi ráðherra, forseti þingsins væri bara póstur ( Gripið fram í: Póstkassi.) eða póstkassi eins og hér er leiðrétt frammi í sal. Það er ekki þannig. Forseti þingsins er gæslumaður Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, gæslumaður löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og ég vil nú biðja virðulegan forseta að endurskoða afstöðu sína af því að hún gildir ekki bara fyrir þetta mál sem hér er rætt heldur fyrir þingstörfin almennt. Það er alveg rétt að hv. þm. Ingi Björn Albertsson á rétt á því að forseti þingsins liðsinni honum og aðstoði hann við að fá fram svar við þeirri spurningu sem forseti samþykkti að væri borin fram. Forseti samþykkti að fyrirspurnin væri rétt og forseti getur ekki fríað sig ábyrgð á því að henni sé ekki svarað.