Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:39:56 (2260)



[14:39]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um frv. til laga um prestssetur. Það er virkilega þörf á því að ræða um stöðu kirkjunnar gagnvart ríki og söfnuðum eins og fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni og við hefðum sjálfsagt gott af því og ekki síður kirkjan sjálf að við skiptumst á skoðunum um það málefni.
    Hér er sem sé komið fram frv. til laga um prestssetur og það virðist eiga að fá býsna greiðan aðgang í gegnum þingið vegna þess að gildistaka frv. er ætluð 1. janúar, það er tæpur mánuður til stefnu og ekki nema aðeins örfáir dagar eftir af störfum þingsins. Mér finnst það því verða of mikil bjartsýni hjá hæstv. ráðherra að ætlast til þess að þingið, þó það væri allt af vilja gert til þess að afgreiða þetta mál, geti gert það á svo skömmum tíma. Reyndar er ekki sanngjarnt af hæstv. ráðherra að ætlast til þess að þingmenn afgreiði málið á þann hátt því hér þurfa vissulega fleiri að kallast til heldur en þeir sem búa næst Austurvelli, til þess að fá að segja álit sitt. Ég trúi ekki öðru hvort sem það verður allshn. eða landbn., eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. vék að að það ættu jafnvel báðar nefndirnar að fjalla um málið. Ég vil bæta því við að ég ætlast líka til þess að fólk af landsbyggðinni úr hinum ýmsu söfnuðum eða prófastsdæmum fái, og það á allan rétt á því, að segja álit sitt á þessu máli. Þess vegna sé ég ekki að það sé möguleiki á því að þetta mál geti fengið svo skjóta afgreiðslu eins og hæstv. ráðherra ætlast til. Ég efast um að málinu sé gerður greiði með því að renna því svo skjótt í gegnum þingið að mönnum veitist ekki svigrúm til þess að huga að þessum málum og reyna að vinna kirkju og kirkjumálefnum sem best gagn, sem við þingmenn örugglega viljum.
    En ég vil aðeins vegna þess sem kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Vestf., vini mínum ágætum Ólafi

Þ. Þórðarsyni, taka fram að mér féll ekki alls kostar talsmáti þingmannsins þar sem talað var oftar en einu sinni --- hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, ef þingmaðurinn vill hlusta, en við getum endurtekið það aftur betur niðri í þingflokksherbergi --- en ég vil taka það fram hér að ég sætti mig ekki við það þar sem þú vékst að prestum sem undirmálsmönnum. Sú málnotkun hefur fengið allt aðra merkingu en ég held að hv. þm. meini með orðum sínum. (Gripið fram í.) Nei, það er rangt, Ólafur Þ. Þórðarson. Yfirleitt eru þeir sem valist hafa til prestsstarfa sem betur fer hinir mætustu menn.
    Ég vil víkja örfáum orðum að frv. sjálfu og koma aðeins að 4. gr. frv., sem reyndar fleiri hafa komið inn á og flestir sem hafa talað í þessu máli þar sem segir svo:
    ,,Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim, en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila, nema kirkjuþing og dóms- og kirkjumálaráðherra hafi heimilað þá ráðstöfun.``
    Hér er náttúrlega verið að tala um að gefa heimild til þess að selja ekki aðeins húsnæði eða jörð. Það er einnig, ef ég skil málið rétt, verið að gefa heimild til þess að taka undan viðkomandi jörðum t.d. stórkostleg hlunnindi sem víða eru og færa ráðherra og þá þessum aðilum heimild til þess að gera slíkt.
    Það er meiningin, eins og hér stendur, að þetta þurfi að fara fyrir kirkjuþing og dómsmrn. Ég treysti því að sú nefnd sem fær þetta frv. fjalli um það af mikilli kostgæfni. Ég vil trúa því að það finnist þeir menn í þeim nefndum sem um þetta koma til með að fjalla að þeir hafi skilning á því að það séu einhverjir fleiri sem þurfi að spyrja í þessu máli heldur en hér eru tilteknir. Ég trúi því ekki að mönnum finnist það óeðlilegt að viðkomandi prófastsdæmi fái að fjalla um slíkt eða jafnvel söfnuðirnir sjálfir, þeir verði spurðir og fái að segja álit sitt á slíkum hlutum áður en gerðir verða. Ég held að það sé engum gerður greiði með því og síst af öllu kirkjunni að ganga fram í þessum málum á slíkan hátt. Ég held að við þurfum að reyna að tryggja friðinn í þessu máli og það verður svo best gert að þeir sem við þetta eiga að búa, sem eru fyrst og fremst söfnuðirnir sjálfir, verði sáttir við það sem hér er verið að gera.
    Aðeins vildi ég víkja að því sem segir í 7. gr., 2. tölul.: ,,Leigutekjur af prestssetrum.`` Ég velti því fyrir mér hvort ekki mætti taka þarna inn viðbót: og öðru húsnæði, sem fellur undir prestssetur og kirkjumálasjóð. Það gætu verið fleiri atriði sem einmitt ættu að falla undir þennan lið heldur en hér er tekið fram. En það er aðeins sagt: Leigutekjur af prestssetrum. Ég vil koma því á framfæri við nefndina.
    Ég vík að því sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi um 10. gr. Ég tek undir það, það er sem sé mjög stórt spurningarmerki sem má setja við það, en ég tel víst að samráð verði haft við Samband ísl. sveitarfélaga þar um. En svo segir einnig hér í athugasemdum við lagafrv. og það segir okkur nokkuð mikið og kannski það sem ég finn að við hæstv. ráðherra hvað hann ætlar okkur skamma stund til þess að fjalla um þetta mál. En þar segir, með leyfi hæstv. forseti:
    ,,Frv. felur jafnframt í sér að stjórnsýsla prestssetra og tilsjón með þeim færist frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til þjóðkirkjunnar.`` Hér er um mikla stefnumörkun að ræða og þetta þarf vissulega skoðunar við og ég trúi því, eins og með frv. allt, að menn gefi sér nægan tíma til þess að gaumgæfa það og kryfja til mergjar hvað er hér verið að fara.
    Það segir einnig í 7. gr, þar sem er vikið að leigugreiðslu fyrir prestssetur. Ég geri mér grein fyrir því að þar sitja menn sjálfsagt við mjög misjafnan kost í sambandi við leigukjör. En ég vil þó einnig að það verði metið og skoðað þegar um þau mál er fjallað að prestar eru misjafnlega settir eins og aðrir menn hvað fjölskyldustærð viðkemur og oft þurfa menn kannski þess vegna að taka við og setjast að í mjög óhentugu, kannski stóru og dýru húsnæði, þannig að mér finnst að það þurfi að meta hlutina betur heldur en þarna er raunverulega kveðið á um.
    Að endingu vildi ég aðeins fá að segja það sem stendur í umsögn fjmrn. um frv. Þar segir svo m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Svo sem getið er í umsögn um frv. til laga um kirkjumálasjóð eru áhrif þessa frv., verði það að lögum, að færa ákveðin verkefni frá ríkissjóði til kirkjuyfirvalda, þannig að þau falli brott af fjárlögum. Þau verkefni, sem sjóðurinn á að kosta, eru talin upp í 6. gr. frv. til laga um prestssetur.``
    Svo segir hér á öðrum stað: ,,Vakin skal athygli á, eins og gert er í athugasemdum við lagafrv. þetta, að kirkjunni eru ekki afhentar prestssetursjarðir og prestsbústaðir til eignar. Þær eignir verða áfram eign ríkissjóðs.``
    Hér er stungið á því sem ég minntist aðeins á og einnig að ég tók rétt eftir, hv. þm. Svavar Gestsson veltir fyrir sér. En alla vega er þessi umræða þörf og ég undirstrika það við hæstv. dómsmrh., ég veit ekki hver ætti að hafa frumkvæði í því, en ég held að við bættum okkur í því að taka hér umræðu um stöðu kirkjunnar og safnaða í landinu.
    Að lokum vil ég vara menn við því að ætla að afgreiða þetta mál í einhverju hendingskasti, þannig að það gefist ekki ráðrúm til að leita umsagna hjá þeim sem eðlilegt er að fái að fjalla um málið, en tíminn er það skammur að ég sé ekki á hvern hátt væri hægt að verða við því.