Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:34:59 (2299)


[17:34]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er nú hart þegar menn verða kaþólskari en páfinn. Þegar við afgreiddum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og hann var lögtekinn á Alþingi þá stóð eftir einn einasti fyrirvari af þeim fimm fyrirvörum sem ríkisstjórn sú, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sat í og hefur margoft verið vitnað til á undanförnum mínútum, setti fram við upphaf samningana. Einn einasti fyrirvari af þeim fimm sem settir voru fram upphaflega fyrir Íslands hönd stóð eftir. Hann var sá að Íslendingar mættu halda áfram eignarhaldi einir í íslenskri útgerð og frumfiskvinnslu. Þetta var sá eini af fimm og þýðir ekkert fyrir hæstv. sjútvrh. að láta svo sem endanleg niðurstaða EES-samningsins sé sú sem lagt var upp með af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
    Alþingi samþykkti þennan samning, þ.e. meiri hluti á Alþingi samþykkti þennan samning í góðri trú vegna þess að þarna væri þó pínulítið komið til móts við okkur Íslendinga að lofa okkur náðarsamlegast að hafa ofurlítið vald á meginauðlind þjóðarinnar. Alþingi gekk út frá því þegar þetta frv. var samþykkt illu heilli á Alþingi að Íslendingar gætu áfram átt fiskinn við strendur landsins og hann bærist hér að landi. Við hefðum vald á útgerðinni og frumfiskvinnslunni. En svo er flutt hér frv. sem gerir þennan fyrirvara marklausan, þ.e. gengur þvert á fyrirvarann. Það hefur verið upplýst hér með skýrum rökum að útlendingar geta eignast fiskinn áður en hann berst að landi og gert við hann það sem þeim sýnist. Þar með er hann ekki Íslendinga lengur. Með tilliti til EES-samningsins og þess fyrirvara sem í honum var um útgerð og frumfiskvinnslu á Íslandi þá er gjörsamlega óþarfi að flytja þetta frv. Það væri glapræði að samþykkja þetta frv. og ég er bjartsýnn eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. og ég trúi því ekki að skynsamir sjálfstæðismenn hér í salnum, sem enn þá eru til, glannist til að fara að samþykkja þetta ákvæði. Fyrir utan það að hæstv. sjútvrh. hafi verið þráspurður um af hverju þetta frv. sé flutt þá koma engin haldbær rök fyrir því. Það er ekki vegna þess að ákvæði EES-samningsins krefjist þess. Það er ekki vegna þess, það eru einhver önnur sjónarmið sem liggja þarna að baki að opna þessa gátt. Einhver önnur óheillasjónarmið. Þetta frv. er óþarft og það er meira að segja munaðarlaust vegna þess að það þarf ekki að samþykkja það og ef maður hlustar á hæstv. sjútvrh. þá skilur maður það nú strax að þetta er eitt af óhreinu börnunum sem hann fyrirverður sig fyrir og vill ekki gangast við annars mundi hann ekki svara svona eins og hann hefur gert í dag.