Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:51:51 (2312)


[18:51]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki orða þetta svo að það sé verið að falla frá öllum hæfisskilyrðum því eins og ég tók fram eru í 50. gr. gildandi laga mjög ströng hæfisskilyrði. Enn fremur eru mjög ströng hæfisskilyrði í stjórnsýslulögunum nýju og það er ekki verið að falla frá þeim. En ég bið menn að hugleiða það hvort menn ætla sér að hafa hæfisskilyrðin svo ströng að t.d. þeir sem starfa í þágu almannasamtaka, ráðgjafarstörf eða eitthvað slíkt, þeir sem eru starfsmenn hjá atvinnufyrirtækjum, látum nú eignaraðildina liggja á milli hluta, þeir sem starfa t.d. sem sjálfstæðir endurskoðendur, rekstrarráðgjafar, lögfræðingar o.s.frv. eigi allir að vera óhæfir til setu í samkeppnisráði þannig að þó svo að menn sleppi eignaraðildinni og geri lítið úr henni, þá eru hinar almennu hæfiskröfur um önnur atriði sem gerð eru í gildandi lögum sem gera það að verkum að þeir menn og konur sem starfa í einhverjum tengslum við atvinnulífið, við fjöldasamtök, í ráðgjafarþjónustu, í endurskoðun o.s.frv. verði allir vanhæfir til setu í samkeppnisráði. Það getur ekki verið ætlun Alþingis að þannig sé málum skipað. Það hlýtur að vera ætlun Alþingis að sá úrskurði ekki í máli í samkeppnisráði sem er af einhverjum orsökum vanhæfur til þess að úrskurða í því máli sem lagt er fyrir hverju sinni. En að ætla að útiloka alla þá sem eru í trúnaðarstörfum eins og ég nefndi hér áðan, ekki bara fyrir opinbera aðila heldur fyrir atvinnulíf, fyrir hagsmunasamtök, fyrir stéttasamtök, bændasamtökin, neytendasamtök eða einhverja slíka aðila, það gengur ekki.