Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:06:52 (2321)


[21:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það skal tekið fram að hæstaréttardómarar hafa tekið laun fram til skamms tíma samkvæmt gömlum dómi sem byggðist á gömlum lögum og auknu vinnuálagi. Sú upphæð sem verið er að sækja um í því lagafrv. sem hér er til umræðu er fyrir eitt og hálft ár vegna þess að þetta eru tvisvar sinnum fjórir mánuðir sem teknar eru yfirvinnugreiðslur þannig að í raun og veru er verið að sækja um eitt og hálft ár sem skýrir auðvitað þann misskilning sem hér er á ferðum. Nýr dómur Kjaradóms tekur gildi frá tilteknum tíma og mér sýnist að laun hæstaréttardómara lækki nokkuð frá þeim tíma. (Gripið fram í.) Frá þeim tíma sem nýi dómurinn tekur gildi. Munurinn eru 8 mánuðir annars vegar og 12 mánuðir hins vegar. Upphæðirnar hef ég ekki hér en hv. þm. las þær. Ég minni á að það tóku ekki allir yfirvinnu samkvæmt gamla kerfinu. Til dæmis tók Þór Vilhjálmsson ekki yfirvinnuna.
    Vegna prestanna sem minnst var á, þá kemur auðvitað réttlætingin fyrir því í úrskurði þar sem beinlínis er skýrt mjög ítarlega að þetta fari ekki í bága við lögin sem gera ráð fyrir því að kjaranefnd gangi ekki á svig við almenna kjarasamninga. Fangaverðir er mér sagt, án þess að ég hafi kynnt mér það sérstaklega, eru að vinna upp gamalt mál sem hafi orðið til vegna þess að þeir misstu verkfallsrétt. Samningar við tollverði og lögregluþjóna voru undirritaðir áður en BSRB-félögin gengu til samninga. Stefna ríkisins er að fylgja ASÍ-samningunum sem fóru fram á almennum vinnumarkaði en einnig hefur fjmrh. gefið yfirlýsingu um samráðsvettvang þar sem hægt er að ræða ýmis mál sem upp hafa komið.