Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:12:51 (2324)


[21:12]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Kannski er það hæstv. fjmrh. sem skilur ekki hvað hér er að gerast. Ef hans túlkun er rétt, þá er hann að segja það að hinn nýi kjaradómur, sem hann kallar svo, hafi úrskurðað 30% launalækkun til hæstaréttardómara. Það hafi verið það sem hafi gerst hér fyrir nokkrum vikum síðan. 30% launalækkun til hæstaréttardómara. Auðvitað vita það allir hér að það voru hæstaréttardómararnir sjálfir sem lásu þá túlkun inn í gamla dóminn að þeir ættu að fá þetta. Það stóð hvergi. Það var þeirra eigin túlkun og það er gamalt lögmál í rétti að enginn er dómari í eigin sök en hæstaréttardómararnir tóku sér þetta vald. ( Gripið fram í: Enginn er dómari í sjálfs sín sök.) Og þá kemur síðan Kjaradómur sem segir: Þetta var ekki rétt hjá Hæstarétti. Þetta var ekki rétt, þetta var rangt og nú á að lækka þær greiðslur sem hæstaréttardómararnir hafa tekið sér.
    Það að tala um þetta eina og hálfa ár er líka út í hött. Ég hef upplýst það hér að samkvæmt fjárlagaupplýsingum fjmrn. sjálfs hefur fjmrn. 29,2 millj. til þess að greiða laun Hæstaréttar á árinu 1993 en raungreiðslurnar eru 41,4 millj. Hvað sem líður öllum deilum um Kjaradóm, þá verða raungreiðslurnar 41,4 millj. Ef þessar 13 millj. eiga að dekka eitt og hálft ár af liðnum tíma, þá er alveg ljóst að hæstv. fjmrh. þarf mun meiri fjárhæð en hann biður um í þessu frv. til þess að geta haft heimild til að borga það sem búið er að borga.
    Varðandi hins vegar launahækkanir til fangavarða, lögreglumanna og tollvarða, þá gerast þær allar á þeim tíma þar sem aðrir félagsmenn BSRB gera ekki kjarasamninga og hefði verið hægt að færa fullkomlega rök fyrir því hjá Starfsmannafélagi ríkisstofnana, hjá símamönnum og hjá öðrum hópum opinberra starfsmanna að þeir byggju við sams konar aðstæður og þessar þrjár starfsgreinar en þeim var hins vegar sagt að þeir fengju ekki neitt. Ég vona að hæstv. fjmrh. kynni sér það sem hér er að gerast vegna þess að mér fannst hann nota það orðalag að honum væri ekki nákvæmlega kunnugt um það hvaða rök lægju þar á bak við.