Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:45:17 (2341)


[22:45]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það síðasta sem hæstv. ræðumaður sagði er rangt. Niðurstaðan kemur út á núlli nema í fyrsta skipti, þ.e. vegna greiðsluflæðisins, þá mun ríkissjóður ná einhverjum 600 millj. kr. út úr þessu, vegna greiðsluflæðisins í kerfinu. Það er það eina sem gerist. Þessi reikningur er sýndur í greinargerð með svokölluðum skattaormi og hv. þm. getur skoðað það svart á hvítu hver niðurstaða nefndarinnar var.
    Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um það hvort sé eðlilegra að sveitarfélögin sjái um atvinnuleysismálin heima eða sameiginlega í Atvinnuleysistryggingasjóði. Það má vel vera að það sé ágætis aðferð þótt þessi hafi verið valin. Loks vil ég segja að það er auðvitað hlutverk sveitarfélaganna að innheimta meðlög. Ástæðan er sú að framfærslumálin eru málefni sveitarfélaganna en ekki ríkisins. Þess vegna hefur það gerst í tímans rás að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur verið notaður til að greiða þann mun sem verður þegar út af stendur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Það var aðeins í þetta eina skipti vegna þess að meðlögin voru hækkuð sem ríkið tók að sér að hjálpa til við að greiða muninn. Munurinn varð 550 millj. kr. en sveitarfélögin sjálf höfðu gert ráð fyrir 300 millj. Ég tel raunsætt að áætla að á næstu árum verði þessi munur ekki meiri en 300 millj. kr.