Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 19:13:07 (2451)


[19:13]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni umhvn. falleg og uppörvandi orð í garð okkar hv. fjárlaganefndarmanna. Ég sé mig hins vegar knúinn til þess að gera örstutta athugasemd við umfjöllun hv. formanns um álit hv. umhvn. á fjárlagafrv., en af orðum hv. formanns mátti skilja að nefndin hefði eiginlega alveg verið sammála um fjárlagafrv. nema hvað meiri hlutinn hefði verið með smávegis nöldur í restina. Þetta er auðvitað ekki svo. Umhvn. hefur lagt fram mjög skilmerkilegt plagg þar sem koma fram sjónarmið bæði meiri hluta og minni hluta, en það skrifa allir sameiginlega undir plaggið. En það breytir því ekki að það koma fram mjög greinilega ólík sjónarmið meiri hlutans og minni hlutans. Ég tel að það séu vinnubrögð til fyrirmyndar að nefndirnar reyni að koma fram áliti sínu í einu og sama plagginu, jafnvel þó að mismunandi sjónarmið séu uppi. En ég vil undirstrika að það er ekki réttur skilningur að allir hafi verið sammála og það hafi aðeins verið meiri hlutinn sem var með smávegis nöldur í restina, það eru mjög ólík sjónarmið meiri hluta og minni hluta sem koma fram í þessu sameiginlega áliti.
    Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. formanni umhvn. þar sem hún sagði að við gætum bara ekki framkvæmt allt sem við vildum af því að við hefðum ekki nógu mikla peninga til þess.