Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 21:18:40 (2459)


[21:18]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ræða hæstv. menntmrh. er einmitt dæmi um þá veruleikafirrð og þá fjarlægð frá fólkinu í þessu landi sem kom fram í máli hans. Hvað varðar okkur um meðaltöl barna í bekk? ( Menntmrh.: Við hvað á að miða?) Ég veit að það eru ekki 28 börn í bekk í Hrísey, en þau eru það í Sandgerði. ( Menntmrh.: Ég var að tala um Reykjavík.) Var þingmaðurinn að tala um Reykjavík? Þá bið ég afsökunar, en mér er líka alveg nákvæmlega sama hvort þingmaðurinn var að tala um Reykjavík. Það eru nefnilega 28 börn í bekk líka í Reykjavík og ég gæti tekið um það mörg dæmi. En það er einmitt þannig sem öll mál eru afgreidd, meðaltekjur, meðaltal barna í bekkjum, meðaltal barna á deildum í leikskólum. Á sumum stöðum á Íslandi eru ekki nógu mörg börn til þess að það séu of mörg börn í bekk. En á hinum fjölmennari stöðum er það því miður svo að það eru of mörg börn í bekk, sérkennsla hefur dregist saman á sama tíma og þörfin fyrir hana fer sívaxandi, a.m.k. í Reykjavík.
    Ég verð nú að segja að það er fádæma hroki að segja að það rit sem hæstv. ráðherra nefndi Til nýrrar aldar, sem unnið var tíð síðustu ríkisstjórnar, sé ágætt uppsláttarrit. Mér þykja þetta kaldar kveðjur til þess fólks sem lagði mikla vinnu, ómælda vinnu í að ræða hvaða stefnu eigi að taka í menntamálum í landinu. Það eru kaldar kveðjur verð ég að segja.
    En ef hæstv. ráðherra hefur gaman af meðaltölunum sínum þá er það svo sem mér að meinalausu en það hefur enga merkingu inn í þessa umræðu.