Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 01:39:36 (2482)


[01:39]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það voru alls ekki mín orð hér á undan að ræðutími væri vandamál við umræðuna. Ég hafði hins vegar orð á því og hef sagt það margoft hér áður að ég tel mikla ástæðu og brýna ástæðu til þess að taka upp athugun á því hvort skynsamlegt væri að gera breytingar á meðferð fjárlagafrv. og gerð fjárlaga. Það hafa orðið sammæli um milli formanna nefnda að ganga til þessa verks í janúar nk. og ég hef til þess fullan vilja og hef marglýst því yfir, þannig að það þarf ekkert að þrátta um það. Hitt er svo annað að ef við göngum til þessa verks, þá verðum við auðvitað að semja okkur að reglum og við verðum að hlíta þeim reglum sem við munum sammælast um. Og ég vil einungis ítreka það að í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um þessi efni þá hefur það iðulega komið fram að menn hafa bent á ýmislegt sem kann að henta þeim við vissar aðstæður, en ekki viljað taka á öðrum atriðum sem e.t.v. gætu orðið gegn þeim á öðrum sviðum. Við verðum að ganga til samkomulags og ná samkomulagi í bróðerni og við munum gera það og hefja þessi störf í janúar nk.