Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:42:24 (2533)


[13:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessum málum þó augljóslega þurfi lengri tíma til að ræða þau til hlítar heldur en hér gefst. Það er ekki vafi á því að fjölmörg heimili í landinu og fjölskyldur eiga við gífurlega greiðsluerfiðleika að etja, um það liggja fyrir óhrekjandi vísbendingar. Ég vil í því sambandi nefna athyglisverða hugmynd sem kom frá forsvarsmönnum Íslandsbanka á sl. sumri um samræmdar aðgerðir allra lánastofnana í landinu til skuldbreytinga og ráðstafana vegna greiðsluerfiðleika fólks. Bankastofnun væri væntanlega ekki að hreyfa slíkum hugmyndum nema vegna þess að þar er mönnum mætavel kunnugt um þá miklu erfiðleika sem að fjölskyldunum steðja.
    Það er einnig athyglisvert að það virðist oft og tíðum ekki standa á ráðstöfunum þegar sambærilegan vanda ber að garði hjá fyrirtækjunum en það er eins og það sé erfiðara að fá skilning á því að vandi fjölskyldnanna er í eðli sínu ekkert öðruvísi en vandi fyrirtækjanna.
    Ríkisstjórnin sjálf hefur ekkert gert í þessum efnum og hafa þó ýmsir talsmenn hennar á þingi hreyft við þessum vanda. Ég vil í því sambandi minna á tillöguflutning hæstv. núv. umhvrh. sem lagði það til í fyrra að skipuð yrði sérstök nefnd vegna greiðsluvanda fólks sem ætti í verulegum erfiðleikum. Þar var fjallað um það að fela félmrh. að skipa nefnd sem mundi undirbúa setningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum erfiðleikum. Af þessu hefur lítið heyrst og hefur þó viðkomandi þingmaður tekið sæti í ríkisstjórn.
    Það liggur sömuleiðis fyrir, hæstv. forseti, þegar skoðaðar eru tölur um fall kaupmáttar á undanförnum árum en kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur fallið úr u.þ.b. 120 miðað við 100 árið 1980 á árunum 1989 til 1992 í 112 á yfirstandandi ári og spá er um 108 á hinu næsta, þ.e. meira en 10% fall kaupmáttar ráðstöfunartekna á síðustu tveimur árum. Það þarf ekki frekari vitna við en það hvílíka gífurlega erfiðleika slíkt hlýtur að skapa fólki sem þegar var með bogann spenntan fyrir.
    Ég tek svo undir þá tillögu hv. málshefjanda að samstarfshópur þingflokka, ríkisstjórnar, sveitarfélaga með aðild verkalýðshreyfingarinnar og e.t.v. fleiri aðila væri góð hugmynd til að vinna að þessum málum.