Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:00:00 (2540)

[14:00]
     Svavar Gestsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Þegar við ræddum þetta mál síðast hafði ég farið yfir tvær til þrjár fyrstu greinar frv., þ.e. þær sem lúta að grunnskólanum sérstaklega og hafði bent á að það eru í raun og veru ekki nema 160 millj. sem menn eru að spara með því að fækka kennslustundum og fjölga í bekkjum. Tillaga um að taka þær 160 millj. inn í fjárlögin 1994 var felld hér áðan af stjórnarliðinu. Þannig að það er út af fyrir sig ljóst að það eru ekki til peningar fyrir . . .
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill aðeins upplýsa hv. þm. um það að hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki kominn í hús en honum verður gert viðvart að hans nærveru sé óskað hér.)
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. var ásamt mér núna í hádeginu á fundi með tóbaksvarnaráði. Það var ákaflega fróðlegur fundur og ég mun koma að þeim fundi á eftir í umræðum um heilbrigðismál.
    Í annan stað er í frv. gert ráð fyrir því að taka upp skólagjöld í Tækniskólanum. Því hafnaði Alþfl. á síðasta þingi. Umræðunni lauk þannig á dögunum, í fyrradag held ég að það hafi verið, að ég spurði hæstv. umhvrh. --- og hvar er nú hann? Ætli hann sé á Kornhlöðuloftinu að hæla einhverjum öðrum ráðherrum Alþfl., í þessum nýju flóttamannabúðum Alþfl., Kornhlöðuloftinu? Ég spurði hann: Hefur hann skipt um skoðun? Er hann núna til í að leggja skólagjöld á í Tækniskólanum af því að hann er orðinn umhvrh., getur það verið? Ég trúi því ekki á þann mæta mann Össur Skarphéðinsson, hæstv. ráðherra. Hefur, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir bendir á, verið lagt umhverfisgjald á umhvrh. sem birtist nemendum Tækniskólans í skólagjöldum? Það er spurningin og ég held að það væri fróðlegt að fara yfir það og ég mun ganga eftir því síðar í umræðunum og mundi vilja inna hæstv. forseta eftir því hvort það væri ekki líka hægt að kalla í hæstv. umhvrh. Mér er kunnungt um að hann var ekki á fundi tóbaksvarnaráðs áðan.
    ( Forseti (KE) : Forseti mun gera ráðstafanir til að hæstv. umhvrh. verði látinn vita af því að hans er óskað í salinn.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir skjót viðbrögð.

    Að öðru leyti snýst þetta frv., eins og ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar, fyrst og fremst um stórkostlegar breytingar á velferðarkerfinu. Í raun og veru eru öll velferðarlög tekin og höggvin í spað, má segja, meira og minna í þessu frv. Hér eru skólalög af ýmsu tagi, tækniskólalögin, lög um búnaðarfræðslu, grunnskólalögin, Garðyrkjuskóli ríkisins, rannsóknir í þágu atvinnuveganna, lög um orlof, lög um málefni fatlaðra, lög um almannatryggingar, lög um atvinnuleysistryggingar, með öðrum orðum öll stofnlög velferðarkerfisins eins og þau leggja sig eru í þessu frv. og þess vegna ætti þetta frv. auðvitað ekki að heita frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum heldur frumvarp til laga um að ráðast á velferðarkerfið.
    Fyrir utan skólaþættina sem ég hef aðeins vikið að mun ég hér síðar þegar hæstv. heilbrrh. kemur víkja að því sem lýtur að almannatryggingunum og atvinnuleysistryggingunum. Ég ætla að benda á greinina sem snertir rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Það er 7. gr. þessa frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Til að standa straum af kostnaði við vinnu- og verktæknirannsóknir og tilraunir með búvélar og prófanir á þeim hjá bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er landbrh. heimilt að láta innheimta sérstakt gjald af öllum seldum búvélum og má gjaldið vera tiltekin krónutala á hverja þyngdareiningu, hlutfall af tollverði vélanna eða söluverði innan lands, þó að hámarki 2% að teknu tilliti til álagningargrunns.``
    Þessi munkalatína þýðir að það á að leggja skatt á traktora. Og hvað ætli það sé nú mikið sem menn ætla að fá inn af þessum traktorsskatti sem hér er verið að tala um? Hvað er það mikið? Mér sýnist að það séu bara heilar 8 millj. kr. þannig að það er alveg ótrúlegt að menn skuli vera að hjóla í heilu lagabálkana fyrir ekki stærri tölur en hér eru á ferðinni. Hugsum um allt innheimtukerfið sem verður að koma upp á hvern einasta innfluttan traktor og á allar innfluttar búvélar eins og þær leggja sig. ( Gripið fram í: Það er atvinnuskapandi.) Það er að vísu atvinuskapandi, það er rétt hjá hv. þm. en það hefur ekki verið fært fram sem rök í þessu máli og það er eini ljósi punkturinn í málinu, að það sé atvinnuskapandi. Það er kannski rétt að fara fram á það við ríkisstjórnina framvegis að hún geri þá grein fyrir því hvað það kostar mörg mannár að vinna öll eyðublöðin og kontórvinnuna og stimipilgerðina sem þarf í kringum þessa skatta alla sem þar er verið að leggja á út og suður.
    Ríkisstjórnin hefur reyndar sett í gang sérstaka athugun á þessum málum eins og kunnugt er. Hún hefur skipað nefnd til þess að rannsaka eftirlitsiðnaðinn á Íslandi. Það er iðnaður sem hefur með að gera eftirlit með fiski og eftirlit með ýmsum öðrum þáttum. Ég held að lögreglan sé t.d. ekki talin vera inni í eftirlitsiðnaðinum, þó veit ég það ekki. En ríkisstjórnin hefur sem sagt sett í gang sérstaka athugun á þessum eftirlitsiðnaði og hér á að auka við eftirlitsiðnaðinn. Það má segja að þetta séu einu framlög ríkisstjórnarinnar til atvinnuskapandi aðgerða á þessum hroðalegu atvinnuleysistímum, þ.e. að spýta dálítið í eftirlitsiðnaðinn. Nú á að hafa menn við að tékka hvern einasta traktor og hverja einustu búvél sem flutt er inn til landsins. Hér er að vísu ekki tekið á því vandamáli, hvenær vél byrjar að vera búvél, þ.e. hvenær vél telst vera búvél, hversu stóran garð eða lóð menn mega hafa til þess að vélin sem þeir eru með sé ekki búvél. Er t.d. garðsláttuvél búvél? Það er ekki fjallað um það í þessari athyglisverðu lagagrein og væri fróðlegt að fara yfir það við tækifæri hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér það og ég tel alveg víst að hæstv. landbrh., stórvinur minn, hafi svar á reiðum höndum í þeim efnum.
    Í annan stað er hér breytt lögum um orlof og síðan lögum um málefni fatlaðra og loks lögum um almannatryggingar. Ég ætla þá að víkja aðeins að þeim og mér er nokkur vandi á höndum satt að segja, hæstv. forseti. Ég væri alveg til í að fresta ræðu minni núna og hleypa einhverjum öðrum að ef það gæti orðið til samkomulags hér til að greiða fyrir þessu mikilvæga máli svo að ég geti fengið að tala við heilbrrh. Ég kann því satt að segja ekki almennilega að fá ekki að tala pínulítið við hæstv. heilbrrh. Hvernig vill forseti leysa úr þessum vanda mínum?
    ( Forseti (KE) : Ef hv. þm. ætlar ekki að tala við aðra í ræðu sinni en hæstv. heilbrrh. og hæstv. umhvrh., þá er kannski ekki um neitt annað en velja en hv. þm. fresti ræðu sinni þangað til þeir hæstv. ráðherrar geta komið til fundar --- ef þingmaðurinn getur hugsað sér að fresta ræðu sinni og hann er búinn með aðra þætti hennar.)
    Já, ég er það. Ég vek athygli forsetans á því að ég á eftir 20 mínútur og er tilbúinn til þess að fallast á að það verði ekkert meira sem mér verður ætlað í næstu lotu heldur en þessar 20 sem nú eru eftir þó það sé kannski óvenjulegt samkvæmt þingsköpum að fyrna á milli ræðna. Ég veit ekki hvernig það er. En ég er til í að beita mér fyrir þeim nýmælum í tilefni af þessum skorti á heilbrrh. sem hér er allt í einu vandamál, aldrei þessu vant.
    ( Forseti (KE) : Forseti vill benda hv. þm. á að hann á rétt á að tala í 20 mínútur í annarri ræðu sinni þannig að hann getur bæði fengið að fyrna að hluta til eða fresta þessari ræðu sinni, en jafnframt vill forseti benda á að þingmaðurinn á rétt á að tala tvisvar og í seinna skiptið í 20 mínútur.)
    Þannig að þetta er auðleysanlegt, hæstv. forseti. En ég mundi vilja spyrja að því hvort ég kæmist þá fljótlega á mælendaskrá eftir að ráðherrann væri kominn hingað inn aftur eða færist ég aftur fyrir alla gusuna, sem eru tíu menn?
    ( Forseti (KE) : Forseti skal, ef þingmaðurinn er tilbúinn til að ljúka þessari ræðu sinni og hefja síðan aðra ræðu, setja hann á mælendaskrá þá þegar er ráðherrar birtast hér í salnum.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessi liðlegheit í minn garð.