Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:33:36 (2553)

[15:33]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér er frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 til umræðu. Þetta frv. var flutt og fyrir því mælt af hæstv. forsrh. Það hlýtur því að vekja nokkra athygli að hæstv. forsrh. skuli ekki vera við þessa umræðu. Að vísu falla atriði þessa frv., hygg ég vera, undir flesta aðra ráðherra líka og þar sem ég ætla sérstaklega að ræða um 5., 6. og 7. gr. frv. þá er það landbrh. sem ætti að vera þar til svara. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort annar hvor þeirra ráðherra gæti ekki verið við þar sem ég ætla að leggja hér fram spurningu sem ég óska eftir að fá svar við.
    ( Forseti (PJ) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að leita eftir því hvort hæstv. landbrh. getur ekki komið og verið við umræðuna.)
    Í sambandi við þær greinar, 5., 6. og 7. gr., þá vekur það athygli að þær eru um nákvæmlega sama efni og frv. sem flutt var snemma á síðasta þingi fyrir meira en ári síðan. Þá var það frv. lagt fram af hæstv. landbrh. Og af hverju endurflutti hæstv. landbrh. ekki þetta frv. sitt nú í upphafi þings úr því að það átti að leita eftir því að fá það samþykkt? Á síðasta þingi urðu örlög þess þau að því var vísað til 2. umr.

og hv. landbn. en kom ekki þaðan aftur inn í þingið. Er ástæða þess að hæstv. landbrh. flytur frv. ekki sú að hann bresti orðið þrótt til þess að leggja þetta frv. fram með þessum nýju sköttum ofan á alla þá nýju skatta sem nú er ætlunin að komi á landbúnað og þá sem í sveitum búa? Eða er e.t.v. ástæðan sú að ekki eigi að láta málið falla í sömu gryfju og það lenti í á síðasta þingi þegar það stöðvaðist í landbn.?
    Með þessari tilhögun mun frv. fara til efh.- og viðskn. og hún mun bera ábyrgð á því að skila um það áliti, enda þótt eðlilegt hljóti að vera að málið fari til landbn. til umsagnar eða þessir liðir og reyndar fleiri sem snerta landbúnaðinn í frv. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort þarna sé verið að reyna að beygja og sniðganga hv. formann landbn. sem afgreiddi málið ekki á síðasta þingi, en nú veltur það ekki lengur á afgreiðslu landbn. hvort þessir liðir koma inn í þingið aftur. Það væri náttúrlega býsna fróðlegt að heyra það frá hv. formanni landbn., hv. 3. þm. Austurl., hvernig hann muni halda á þessu máli. Ætlar hann nú að láta það fara gegnum þingið þegar hann hefur ekki sömu tök á því með þessum vinnubrögðum sem hæstv. landbrh. hefur á málinu á þessu þingi? Að sjálfsögðu getur oltið á vinnubrögðum landbn. hvort sú skattlagning, sem þarna er gert ráð fyrir að leggja á landbúnaðinn, nær fram að ganga eða ekki. En aðalatriði málsins er að sjálfsögðu það hvort landbúnaðurinn sé núna þannig í stakk búinn að hann sé fær um að taka á sig sérstaka skattlagningu.
    Hæstv. forsrh. sagði í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. m.a. að tilgangur þess væri að milda áhrif af samdrætti í atvinnulífinu. Hvernig getur hæstv. landbrh. skýrt það að þessar nýju álögur mildi áhrif samdráttar í landbúnaði á landbúnaðinn? Enn fremur talaði hæstv. forsrh. um það að þessum markmiðum ætti að ná án skattahækkana. En hér hefur verið bent á það að samkvæmt athugasemdum með frv. er t.d. 7. gr. ætlað að ná 8 millj. kr. af landbúnaðinum. Síðan er í 5. og 6. gr. skattlagning á væntanlega nemendur við búnaðar- og garðyrkjuskóla.
    Samdráttur í sauðfjárrækt hefur t.d. orðið gífurlega mikill, algengast 20--40% nú á síðustu tveimur árum og þar með skerðast heildartekjur sauðfjárbúanna sem því nemur og launatekjur bóndans og þeirra sem við búið vinna að sjálfsögðu enn þá meira þar sem úr ýmsum föstum kostnaði er ekki hægt að draga. Það er því augljóst að um áratuga skeið hafa unglingar frá þessum heimilum ekki haft verri aðstöðu til þess að standa undir auknum kostnaði við nám sitt og erfitt er að sjá hvernig þessi vinnubrögð geta fallið undir orð hæstv. forsrh. í framsöguræðu hans, um að þetta frv. eigi að búa í haginn fyrir framtíðina ef það verður til þess að leggja steina í götu unga fólksins að afla sér menntunar.
    En það sem bætist svo enn ofan á þennan gífurlega samdrátt sem ég var að ræða um í framleiðslu margra búgreina er sú óvissa um það við hvaða aðstæður landbúnaðurinn muni búa nú alveg á næstu mánuðum má segja og árum. Þar koma til með að hafa áhrif þeir alþjóðasamningar sem nú er verið að ganga frá. EES-samningur er sagður munu ganga í gildi um áramótin og GATT-samningur er á lokaspretti. Við heyrðum það í fréttum í dag að verið er að leita til ríkisstjórna um það hvort þær ætli að standa við sín tilboð eða standa á þeim tilboðum sem þær hafa sent. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. að því hvort ríkisstjórnin standi við það tilboð sem hún sendi til GATT-viðræðnanna eða hvort þar verður eitthvað gefið eftir samkvæmt þeirri kröfu sem nú er verið að gera til ýmissa ríkja á þessum lokaspretti.