Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:51:24 (2591)


[18:51]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Vegna ummæla hv. 2. þm. Suðurl. vil ég taka eftirfarandi fram:
    Í fyrsta lagi liggur fyrir nýr texti varðandi landbúnaðarkaflann í Úrúgvæ-viðræðunum og eftir þeim upplýsingum sem ég hef og samkvæmt upplýsingum samninganefndarmanna verður að líta á þann texta sem nánast endanlega gerð samningsins því að hann er niðurstaða úr samningaumleitunum formanns hóps sem fjallar um markaðsaðgang, G. Denis, á seinustu vikum. Textinn er byggður á drögum að lokaskjali Úrúgvæ-viðræðnanna frá desember 1991 að teknu tilliti til samkomulags Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins frá því í nóvember og samkomulags þeirra í Brussel í þessari viku.
    Samkvæmt þessum texta er enn staðfest það sem fyrr hefur oft komið fram að ekki verða veittar varanlegar undanþágur frá tollígildum heldur er einungis veittur möguleiki á frestun frá því að taka hana upp, en þá er það gert með mjög ströngum skilyrðum. Frestunarvalkosturinn sem gjarnan er kenndur við Japan felur í sér eins og fastanefnd Íslands hefur áður skýrt frá að beita megi magntakmörkunum í sex ár, en þá gegn því að heimila aukinn lágmarksaðgang að lágum tollum fyrir viðkomandi vörur sem væru 4% í upphafi í 8% við lok aðlögunartímans í stað 3% og 5% eins og áður hefur verið talað um. Hvaðeina sem gerist þar á eftir miðast við að viðhalda þeim lágmarksaðgangi, 8% sem þannig hefur verið veittur. Það hefur verið talið að Suður-Kórea muni telja þessa leið henta sér, sömuleiðis jafnvel Japan og kannski Sviss. Á hinn bóginn er talið ljóst og ég hef fyrir því upplýsingar að Noregur telji þessa leið ekki færa. Ástæðan er sú að við höfum talið, og ég hygg að um það séum við í landbrn. sammála bændasamtökunum, að höfuðhættan sem við stöndum frammi fyrir nú sé lágmarksaðgangurinn og af þeim sökum höfum við látið í ljósi þá skoðun og látið tilkynna það að við munum ekki nýta okkur það að halda lágmarksaðgangi í sex ár, þ.e. að fá heimild til magntakmarkana í sex ár, ef það hefur í för með sér varanlega hækkun eða aukinn lágmarksaðgang og ég hygg að hv. þm. sé mér sammála um það.
    Ég vil einnig taka fram af því að hv. þm. taldi að íslenska ríkisstjórnin hefði hopað eða gefið eftir í sambandi við fyrri kröfur, þá hefur það verið misskilningur. Ég veit ekki hvort ég hef mismælt mig í fyrri ræðu minni en málið er ekki þannig vaxið. Um þessar mundir er staðan þannig að nokkur þeirra landa sem óskað hafa eftir undanþágu frá allsherjartollígildun munu velja frestunarleið eins og ég sagði, en Noregur --- hér er ég raunar að tala um 8% leiðina og greip á vitlausum stað niður. --- Eins og sakir standa

núna höfum við tilkynnt að Íslendingar vilji halda við kröfuna um undanþágu ásamt Norðmönnum. Það er sú krafa sem við höfum sett fram. Við höfum ekki fallið frá henni enn sem komið er og teljum að okkur sé enn þá stætt á því að halda við kröfuna. Við höfum á hinn bóginn hafnað því að lágmarksaðgangur verði hér 4--8%. Þannig standa málin. Það er stöðugur þrýstingur og vaxandi úr öllum áttum að ljúka þessari samningagerð og við hljótum að verða að taka afstöðu til hennar. Það hefur verið gerð athugun á því hvað það mundi þýða ef ekki yrði fallist á magntakmarkanir. Þjóðhagsstofnun vann þá skýrslu og ég gerði mjög rækilega grein fyrir henni við setningu búnaðarþings 1992 og var skýrslan þá lögð fram og ég fer áreiðanlega rétt með það að talið var að á samningstímanum mundu íslenskar landbúnaðarvörur, og þá vorum við að tala um mjólk og kjötvörur, halda markaðshlutdeild sem væri yfir 90% og ég sé enga ástæðu til þess að ætla að forsendur þeirrar úttektar hafi breyst og veit raunar ekki til þess að þær hafi verið vefengdar.
    Þetta eru málin eins og þau standa núna. Það er enginn að gefa eitt eða neitt eftir. Þróunin í umræðunum hefur haldið áfram í samræmi við það sem talið hefur verið og í samræmi við það sem bændasamtökin og allir sem að málinu hafa komið hafa sagt.