Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 19:09:39 (2597)


[19:09]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurning mín varðandi Tækniskólann snerist um það hvers vegna hann er skorinn svona mikið niður meðan slíkt gerist ekki hjá öðrum skólum á háskólastigi. Ef við flettum upp í frv. til fjárlaga fyrir árið 1944 á bls. 294, þar sem er að finna yfirlit, töflu yfir fjárveitingar til skóla á háskólastigi, þá er fjárveiting til Háskóla Íslands skorin niður um 1%. Háskólinn á Akureyri fær 4% aukningu. Kennaraháskólinn fær líka 4% aukningu en Tækniskólinn er skorinn niður um 6%. Mér þykir þetta bara ósköp einfaldlega mjög undarleg útkoma og spyr um skýringar á þessu. Síðan bætist þar inn í að það er verið að afla Tækniskólanum lagaheimildar til þess að innheimta skólagjöld.
    Að lokum varðandi þessar skólamáltíðir þá verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef aldrei skilið það hvers vegna menntmrh. hefur svona mikla samúð með sveitarfélögunum að vilja ekki skylda þau til þess að hafa skólamáltíðir á meðan ríkisstjórnin sem hann situr í hefur með hinni hendinni verið að leggja lögregluskatt og ýmiss konar skatta á sveitarfélögin og er nú í þessu frv. hér að ætla sveitarfélögunum að leggja til 600 millj. til atvinnusköpunar. Þetta er auðvitað allt spurningin um það hvað er mikilvægt og ég spyr: Hvað er mikilvægara en það að vel sé búið að börnum þessa lands? Það er að sjálfsögu mjög mikilvægt að fólk hafi vinnu. En börnin eru ekki síður mikilvæg og ríkið á ekki að vera að grípa inn í þetta með þessum hætti.