Sjálfbær atvinnuþróun í Mývatnssveit

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:11:35 (2612)


[14:11]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég biðst afsökunar hve óljós ég var og sérstaklega hv. þm. vil ég biðja afsökunar á að ég gleymdi að geta þess að þessar tillögur höfðu verið fyrst og fremst til meðferðar eða svipaðar tillögur meðan þessi ágæti maður var sveitarstjóri, þess vegna var hann kallaður fyrir fund nefndarinnar. Að sjálfsögðu var einnig leitað eftir umsögn sveitarstjórnar og skilaði hún áliti sínu til umhvn. í fyrra 25. mars 1993. Á þskj. 199 frá 116. löggjafarþingi koma fram álit ýmissa aðila á þessari tillögu.
    Varðandi það sem hv. þm. talaði um hvert álit mitt væri á því hversu lengi ætti að bíða eftir að taka ákvarðanir um kísilvinnslu í Mývatni, þar vil ég ekki vera dómari. Ég hef ekki nægilega mikla þekkingu og vit til þess að geta sagt það á grunni þeirra upplýsinga sem ég hef, en ég gæti kannski gert það ef ég hefði nánari og betri upplýsingar, en ég tel mig ekki vera þess umkomna að meta nákvæmlega hvenær ákvarðanir ætti að taka í þessum efnum, því miður.