Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:03:43 (2642)

[16:03]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á stjórnskipulegri stöðu þeirra málaflokka sem lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit taka til og Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með. Lagt er til að staðfest verði sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að færa yfirstjórn þeirra í heild til umhvrn. Í ljósi þess að lögin mæla sérstaklega fyrir um að málaflokkur þessi heyri undir ákveðna ráðherra þykir rétt að flytja sérstakt lagafrv. til breytinga þar á þó að öllu jöfnu beri samkvæmt lögum um Stjórnarráð og stjórnarskrá að skipa stjórnarmálefni undir ráðuneyti með reglugerð sem forseti Íslands staðfestir.
    Lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit var breytt með stofnun umhvrn. árið 1990 á þann veg að yfirstjórn mengunarvarnamála var færð til hins nýstofnaða ráðuneytis enda óhugsandi annað en mengunarvarnir heyrðu þar undir. Þáverandi stjórnarflokkar báru hins vegar ekki gæfu til að fylgja eftir tillögum þáv. forsrh. um að flytja málasviðið í heild sinni þar undir heldur klufu yfirstjórn stofnunarinnar í meðferð Alþingis og var skipt á milli tveggja ráðuneyta þannig að yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og eiturefnaeftirliti stofnunarinnr, svo og rannsóknastofa hennar sem enn sem komið er annast einkum matarrannsóknir urðu eftir sem áður undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn.
    Hollustuvernd ríkisins er að því leyti til óvenjuleg stofnun að viðfangsefni hennar eru faglega ólík innbyrðis þrátt fyrir að öll sú starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins annast geti ekki að öllu leyti talist til umhverfismála. Í strangasta skilningi þess orðs getur það ekki verið álitamál að sameinuð yfirstjórn hennar hjá einu ráðuneyti muni auka vægi umhverfismála í stjórnkerfinu og koma þeim fyrir með skipulegri og öruggari hætti en verið hefur. Þannig getur yfirstjórn orðið markvissari, ábyrgðin víðtækari og ef til vill hagkvæmari.
    Jafnframt hefur stjórn stofnunarinnar bæði þá og nú mótmælt þessu fyrirkomulagi og er einhuga um að yfirstjórn hennar verði best skipað með þeim hætti sem hér er lagt til og ítrekar þá afstöðu sína í áliti til ríkisstjórnarinnar að fenginni tveggja ára reynslu hinn 21. maí 1992. Þetta eru þau sjónarmið sem ríkisstjórnin hefur lagt ákvörðun sinni til grundvallar og lagt er til að fest verði í lög.
    Í ljósi þess að hér er um stjórnskipulegt atriði að ræða leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.