Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 01:23:40 (2772)


[01:23]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst örfá orð varðandi meintan strákskap hæstv. ráðherra. Ég vil benda hæstv. ráðherra á varðandi þann strákskap sem hann hefur vissulega sýnt í umræðum hér í kvöld --- og kvartar þó sú sem hér stendur ekki sérstaklega undan þeim svörum sem hún fékk --- þá væri nú kannski hægt að taka upp eitthvað svipað sem heitir drengskapur. Ég treysti því að hæstv. ráðherra sýni nú okkur sem komum nálægt störfum sjútvn. þann drengskap að una því að þetta mál verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar vegna þess að það er verðugt, ekki hefur öllum spurningum verið svarað um þetta mál og ég heyrði raunar á máli hæstv. ráðherra hér áðan að hann taldi að það væri ástæða til að vinna þetta mál sómasamlega. Ég er svo sem ekki að þakka neitt sérstaklega fyrir það en gleðst þó yfir að mitt í ákveðnum strákskap skuli hann hafa tekið undir þetta atriði.
    En það sem mér finnst í rauninni hafa komið nýtt fram og er ástæðan fyrir að ég blanda mér hér á nýjan leik í þessa umræðu er sú umræða sem er um ráðstöfun þeirra 190 eða 215 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að verði eftir í Verðjöfnunarsjóði verði hann lagður niður. Ég hef ekki enn fengið svör við mínum spurningum varðandi það hvaða sjóð eigi að leggja niður á næsta ári ef það á að fara að taka upp þann háttinn núna að leggja niður sjóði í hvert sinn sem þarf að finna fé fyrir Hafrannsóknastofnun. En mér heyrðist jafnframt að menn væru að benda hæstv. ráðherra á að það væri þegar búið að finna aðrar leiðir á þessu ári þannig að þarna væri tvíbókað fjármagn til Hafrannsóknastofnunar alla vega að hluta.
    Ég hafði raunar ekki frekar en aðrir hér haft ráðrúm til að kynna mér öll þau fylgiskjöl sem fylgdu með þessu frv. þegar ég tók til máls þar sem hér hefur verið afskaplega annríkt. En ég sé að það er þegar á þessu ári sem á að nýta þessar 190 millj. sem eiga að fara til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Ég er nú ekki alveg sannfærð um hvernig á að skilja þetta vegna þess að hér er í rauninni orðinn slíkur vandræðagangur og kraðak varðandi allar þær skyndilausnir sem fundnar eru á því að fjármagna Hafrannsóknastofnun að þetta er bara ein vitleysan enn. Og þetta er eitt af því t.d. sem við þurfum að fá skýr svör við í nefndinni. Það er annað líka sem ég held að væri kannski ástæða fyrir ráðherra að íhuga hvort ekki væri vert að svara en það er að ég sé ekki betur en að samkvæmt þessu frv. þá reikni a.m.k. sjálfstæðismenn með því að hér séu engin björt ár fram undan heldur einungis slæm ár. Mér þykir þetta með eindæmum mikil bölsýni því ég trúi því og treysti að menn reyni að takast á við vandann en gefist ekki bara upp fyrir honum. Aftur á móti virðist sú uppgjöf sem felst í að leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins benda til þess að sjálfstæðismenn séu ekki reiðubúnir til þess. Hlýt ég þá að spyrja hvort það sé kannski vegna lélegrar stjórnar þessa lands sem flokkur hæstv. ráðherra hefur þessa skoðun. Sé svo þá hefur ráðherra áreiðanlega möguleika á að hafa áhrif á að þeim ósköpum linni innan tíðar.
    Ef núv. ríkisstjórn sér þetta ekki eða kærir sig ekki um að létta því af sem slæm stjórn landsmála hefur lagt á þjóðina þá geri ég ráð fyrir að þjóðin muni gera það áður en langt um líður því það er í hæsta lagi hálft annað ári í næstu reglubundnar kosningar. Ég hef ekki nokkra trú á því að þjóðin veiti núv. stjórn aftur umboð í ljósi reynslunnar. Þannig að mér finnst það dálítill ábyrgðarhluti ef stjórnvöld núna ætla að fara að leggja niður Verðjöfnunarsjóð til þess eins að vera búin að því þannig að það þurfi að fara að vinna verkið upp á nýtt og setja á laggirnar nýtt sveiflujöfnunarkerfi sem allir eru meira og minna sammála um að við þurfum á að halda. Ég endurtek enn og aftur að þær hugmyndir sem hafa verið um sveiflujöfnun innan fyrirtækja hafa ekki verið raktar hér. Það kerfi hefur ekki verið formað, það hefur ekki verið mótað. Þarna var um hugmyndir að ræða um ákveðinn formlegan hátt á því. Þær hafa hins vegar ekki verið mótaðar, þessar tillögur hafa ekki verið lagðar fram og þar af leiðandi erum við ekki með neitt annað sem á að koma í staðinn. Þetta finnst mér í rauninni vera kjarni málsins. Hér er verið að rjúka til í einhverju pati eins og oft gerist á þessum árstíma, grípa til einhverra ráðstafana til þess að rétta af einhvern hluta af halla ríkissjóðs og það er því miður oftar en ekki gert með afskaplega heimskulegum hætti.
    Ég trúi því og treysti að hv. sjútvn. muni leggja þá vinnu sem vert er í þetta mál og ekki afgreiða það frá sér í neinu flaustri. Ég vona að ég eigi ekki eftir að sjá þetta mál í 2. umr. þar sem ég held að hér hafi verið um ákveðið fljótræði að ræða og að í þeirri skýrslu sem fylgir með og því sem hefur komið fram í þessu máli séu ábendingar sem geti leitt til allt annarrar niðurstöðu vegna þess að það er verið að taka afstöðu til ákveðins vanda og það eru til fleiri lausnir heldur en að gefast bara upp.