Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:42:09 (2780)


[10:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram hér í máli hv. þm. áðan að þau boð hefðu borist frá fjmrh. í nótt til hv. formanns efh.- og viðskn. að tekjuáætlun fyrir næsta ár yrði ekki tilbúin í morgun. Ég vil staðfesta að það er rétt. Það er ekki við hv. formann fjárln. að sakast í þeim efnum. Eins og allir hv. þm. vita, þá byggist tekjuáætlun á þjóðhagsspá fyrir næsta ár og sú vinna er í gangi. Ég á von á því, það voru mínar fréttir í nótt, að því starfi mundi ljúka um hádegið. Ég vonast því til að sú töf verði ekki til þess að tefja starf hv. nefndar. Þetta vil ég staðfesta hér.
    Vegna þeirra orða að það sé risinn einhver ágreiningur á milli ríkisstjórnar og meiri hluta fjárln. þá held ég að það sé ekki rétt. Það er hins vegar alveg ljóst að báðir þessir aðilar hafa keppst við að reyna að koma í veg fyrir að hallinn verði meiri en að er stefnt í fjárlögum fyrir næsta ár. Ég veit ekki betur en okkur takist það og þarf ekki að tefja störf hvorki ríkisstjórnarinnar né fjárln. vegna þeirra viðræðna sem fara fram á milli þessara aðila. Vona ég að þetta skýri málið.