Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 13:30:06 (2791)

[13:30]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 396 og brtt. á þskj. 397 og vil geta þess strax í upphafi að að nál. og brtt. standa allir hv. fulltrúar í heilbr.- og trn. og hafa þeir orðið sammála um eftirfarandi álit til hv. Alþingis:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk við yfirferð þess á sinn fund Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Þá studdist nefndin við umsagnir um hliðstætt frumvarp sem hún hafði til meðferðar á 116. þingi, en í frumvarpi því sem nú er til meðferðar hefur verið tekið tillit til þeirra flestra. Frumvarpinu er ætlað að samræma ákvæði ýmissa laga á sviði heilbrigðis- og tryggingamála reglum EES-samningsins. Nefndin fellst á þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir og gerir ekki athugasemdir við einstök ákvæði þess.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram ósk frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu um að felld yrðu inn í frumvarpið ákvæði um breytingu á lögum um bátaábyrgðarfélög, lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, lögum um Brunabótafélag Íslands og lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur til að fullnægja ákvæðum EES-samningsins varðandi þau svið. Nefndin féllst á að flytja breytingartillögur varðandi lög um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, og lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, með síðari breytingu, og samræma lögin þannig samkeppnisreglum EES-samningsins, enda eru jafnt hagsmunaaðilar sem tryggingayfirvöld sammála um að þær breytingar eigi fullan rétt á sér. Nefndin ákvað hins vegar að fresta afgreiðslu þess þáttar sem varðar Brunabótafélag Íslands og brunatryggingar utan Reykjavíkur, ekki síst þar sem réttarstaða þeirra virðist ekki nægilega ljós með tilliti til EES-samningsins.
    Við meðferð þessa þáttar fékk nefndin á sinn fund Svein Hjört Hjartarson og Pál Sigurðsson frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Kristján Ragnarsson og Jónas Haraldsson frá LÍÚ, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Ólaf B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Þá studdist nefndin við gögn sem hún aflaði við meðferð málsins og upplýsingar frá Tryggingaeftirliti ríkisins.
    Nefndin mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Þær meginbreytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, lúta að því að fella niður einkarétt bátaábyrgðarfélaga á því að tryggja vélskip með þilfari 100,49 brúttórúmlestir að stærð eða minni, sbr. 2. gr. laga nr. 18/1976, og skattaívilnanir sem bátaábyrgðarfélögin hafa notið. Þá er á sama hátt lagt til að niður verði felldur einkaréttur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum á því að endurtryggja fyrir bátaábyrgðarfélögin. Að auki er lagt til að felldar verði niður skattaívilnanir sem Samábyrgðin hefur notið en hún hefur verið undanþegin eignar- og tekjuskatti til ríkissjóðs og gjöldum til borgarsjóðs Reykjavíkur nema fasteignaskatti og aðstöðugjaldi, sbr. 17. gr. laga nr. 37/1978. Bátaábyrgðarfélögin hafa líkt og Samábyrgðin verið undanþegin eignar- og tekjuskatti til ríkissjóðs og gjöldum til sveitarfélaga nema fasteignaskatti og aðstöðugjaldi, sbr. 21. gr. laga nr. 18/1976, og lagt er til að þau verði með sama hætti felld brott. Framangreind ákvæði í núgildandi lögum brjóta eins og fyrr segir í bága við samkeppnisreglur EES-samningsins.
    Samkvæmt upplýsingum, sem fram komu við meðferð málsins hjá nefndinni, mun Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hafa notið skattfríðinda án sérstakrar lagaheimildar. Nefndin leggur því áherslu á að þau skattfríðindi verði afnumin á sama hátt og skattfríðindi annarra bátaábyrgðarfélaga.
    Nefndin ákvað að leggja til, auk framangreindra breytinga til samræmis við samkeppnisreglur EES-samningsins, að felld verði niður 19. gr. laga nr. 18/1976, um bátaábyrgðarfélög, og 16. gr. laga nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, en þau ákvæði fjalla um að ágreiningsmál á grundvelli laganna beri að leysa fyrir gerðardómi. Í máli hagsmunaaðila kom fram að þessi ákvæði væru óþörf og jafnvel til trafala. Því er lagt til að ákvæðin verði felld niður en af því leiðir að ágreiningsmál sem leiða kunna af lögunum munu lúta almennum réttarfarsreglum.
    Þá vill nefndin vekja athygli á því að lagt er til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem veita bátaábyrgðarfélögum og Samábyrgð Íslands á fiskiskipum svigrúm til að aðlaga sig þeim grundvallarbreytingum sem hér eru lagðar til. Fyrir liggur að þessir aðilar hafa þegar gert samninga um tryggingar fyrir næsta ár. Þó er lagt til að ef um eigendaskipti verður að ræða á bátum sem tryggðir eru á grundvelli laganna verði hinum nýju eigendum frjálst að velja sér tryggingafélag.
    Að lokum vekur nefndin athygli á því að skv. 2. gr. laga nr. 18/1976, um bátaábyrgðafélög, eru opnir bátar undanþegnir ákvæðum um skyldutryggingu. Nefndin leggur á þessu stigi ekki til breytingu varðandi það atriði, en telur mikilvægt að það verði tekið til sérstakrar athugunar hið fyrsta þannig að koma megi í veg fyrir að ótryggðir bátar séu á sjó hér við land.``
    Undir þetta nál. rita Gunnlaugur Stefánsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Margrét Frímannsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Finnur Ingólfsson, Sigríður A. Þórðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka hv. nefndarmönnum í heilbr.- og trn. fyrir góð störf að þessu máli. Þar lögðu allir sitt af mörkum til þess að afgreiðslu þess mætti ljúka og við leituðumst við eins og allar aðstæður leyfðu til að leggja þá vinnu í málið sem við máttum. Ég legg til að málinu verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari.