Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:10:38 (2824)


[16:10]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru þrjú atriði sem mér þykir rétt að svara. Fyrst er það varðandi búvörusamninginn. Það er rétt að ég hef lýst því yfir að ég tel að forsendur búvörusamningsins séu brostnar eins og þær voru hugsaðar af þeim sem undirskrifuðu samninginn á vordögum 1991. Þetta hefur oft komið fram. Raunar held ég að flestir séu mér sammála um það. Þó ekki væri nema vegna þess er óhjákvæmilegt að taka búvörusamninginn upp en auk þess er endurskoðunarákvæði í honum sem gera það óhjákvæmilegt nú á þessum vetri.
    Um GATT vil ég segja að strax og þau mál komu upp lét ég Þjóðhagsstofnun gera athugun á því

hvaða áhrif GATT-samningar í líkingu við það sem nú hefur gengið fram mundi hafa á landbúnaðinn. Þá skýrslu kynnti ég á öndverðu ári 1992 en taldi ekki rétt að þeirri vinnu yrði haldið áfram fyrr en myndin skýrðist frekar. En um leið og við fáum fullar upplýsingar um það hvernig staðan er mun slíkt starf hefjast í upphafi næsta árs. Ég geri ráð fyrir að ekki standi á bændum að koma að því verki með landbrn. Enda hef ég kappkostað að hafa gott samstarf við forustumenn bænda um þau efni sem önnur.
    Í þriðja lagi varð niðurstaðan sú að biðja nefndina að flytja þetta frv. þar sem ég leit svo á að hér væri um frv. tæknilegs eðlis að ræða en ekki um pólitískan ágreining. Það er rétt að ég hefði átt að flytja frv. fyrr en á hinn bóginn hafði verið talið að reglugerðarbreyting dygði til að ná því fram sem hér er sóst eftir. Þegar það var dregið í efa taldi ég óhjákvæmilegt að flytja frv. og bað formann landbn. að flytja það til þess að það kæmi fyrr til nefndarinnar en ella til að nefndarmenn gætu kynnt sér það.