Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:25:28 (2831)

[16:25]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði álitið að hæstv. umhvrh. hefði einkarétt á því í þingsölum að tala um ómagaorð. En e.t.v. er orðið svo kært með hæstv. landbrh. og Alþfl. að hann er farinn að taka upp sömu ,,frasana`` úr ræðustólnum.
    Ég hlýt að endurtaka það sem ég hef sagt áður og hæstv. ráðherra virðist ekki skilja að við erum hér með á borðum okkar dæmi um það að slóðaskapur ráðuneytisins hefur orðið þess valdandi að ekki er

hægt að breyta um kerfi. Ég vil einnig benda hæstv. ráðherra á að það að sett sé reglugerð um úreldingu mjólkurbúa og það að menn viti hvar þar er í boði er forsenda þess að menn fari að ræða úreldinguna af fullri alvöru. Það er sú forsenda að menn hafi hinn fjárhagslega grunn sem er fyrir úreldingunni. Á meðan þessi reglugerð kemur ekki frá ráðuneytinu er ekki von á því að það verði úr nokkrum framkvæmdum hvað þetta snertir. Ég tók því þann kostinn að lýsa skoðun minni hvað þetta snertir úr ræðustól en ekki í einrúmi við ráðherrann.