Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:37:19 (2854)


[17:37]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til að upphefja neinar illdeilur við hv. frsm. nefndarinnar því að ég vil þakka honum fyrir að hafa tekið þetta mál fyrir, sem ég vakti máls á í gær við umræðu um fundarstjórn forseta og varðaði 66. gr. frv.
    Ég átti þess kost í gærkvöldi að ræða við lögfræðinga sem fjallað höfðu um undirbúning og gerð þessa frv. og hafði frumkvæði að þeirri orðalagsbreytingu sem hér er verið að gera á 66. gr. Ég er sáttur við þessa niðurstöðu og það er rétt skilið hjá hv. frsm. nefndarinnar að ég er fyrst og fremst sáttur við það að gerð hefur verið þessi formlega breyting á 66. gr. og tel að þannig geti hún staðist. En ég hygg að ef ég hefði sjálfur átt að rita þessa grein þá hefði ég orðað hana á annan veg, ef ég hefði mátt ráða innihaldi hennar sjálfur að öðru leyti, en það er önnur saga.
    Ég stend hér upp fyrst og fremst til þess að vekja athygli á því að hér er um stefnumarkandi mál að ræða og ég held að það sé nauðsynlegt að það sé skráð í þingtíðindi hvert var eðli þessa máls, bæði hvað varðar frv. og orðalag þess og einnig hvað varðar lagfæringuna. Ég geri mér vonir um að sú lagfæring sem hér hefur orðið á greininni geti verið fordæmi á síðara stigi, þegar fjallað verður um önnur hliðstæð mál, því að það getur auðvitað oft átt eftir að koma upp að fjallað sé um hliðstæð tilvik.
    Ég vil taka það fram að það var ekki kjarni þess máls sem hér um ræðir að menn óttuðust það að nýjar reglugerðir Evrópubandalagsins um almannatryggingar brytu í bága við íslensk lög. Það var ekki kjarni málsins, vegna þess að ef það hefði gert það, þá hefðu auðvitað reglugerðirnar ekki verið gildar og ég tel ekki að í slíkum tilvikum hefði í sjálfu sér verið neitt að óttast.
    Það sem hér var fyrst og fremst að óttast, efnislega séð, var auðvitað það að í mörgum tilvikum getur verið um að ræða að sett sé reglugerð á ákveðnu sviði og hún hafi í för með sér ákveðin nýmæli sem felli skyldur eða réttindi á þegnana, en það sé ekkert kveðið á um slíkt í íslenskum lögum fyrir. Hér sé því um nýmæli að ræða, nýtt svið, ný efnisatriði. Þessi nýju svið þurfa ekki að stangast á við neitt sem í fyrri lögum stendur eða í þeim lögum sem verið er að samþykkja. Við værum sem sagt á því gráa svæði þar sem kannski væri hvorki um að ræða að þau lög sem fyrir væru eða þau lög sem íslensk teljast í þessu samhengi séu á móti eða með viðkomandi efnisatriði. Þarna væri sem sagt um að ræða nýtt efnisatriði sem væri að koma inn í íslenska löggjöf og ef ekki væri gerður þessi fyrirvari sem hér er verið að koma inn í 66. gr., þá yrðu slík ákvæði að lögum án þess að þau ættu beina stoð í íslenskum lögum. Með þessu ákvæði er hins vegar tryggt að í hvert skipti sem ráðherra setur reglugerð sem byggð er á reglum Evrópubandalagsins, þá verða starfsmenn ráðuneytisins að fara yfir ákvæði reglugerðarinnar lið fyrir lið og vega það og meta hvort viðkomandi efnisgrein á stoð í þessum lögum sem við erum hér að samþykkja. Sé það ekki, þá verður að sjálfsögðu að setja sérstök lög um það efnisatriði með viðeigandi hætti hér í Alþingi áður en reglugerðin er samþykkt. Í slíku tilviki býst ég við að það mundi verða talið einfaldast að leggja viðkomandi reglugerð Evrópubandalagsins fram til umfjöllunar á Alþingi og til endanlegrar afgreiðslu þar, til lögfestingar.
    En það var önnur hlið á þessu máli sem skipti líka máli. Hún var sú að með því ákvæði sem þarna var um að ræða var verið að veita opið ótímabundið valdaafsal af hálfu Alþingis til ráðherra, valdaafsal sem var ekki á nokkurn hátt takmarkað og ég tel að það sé alveg ótvírætt, samkvæmt íslenskum rétti, að slíkt er ekki löglegt. Ég vakti athygli á því í þeim umræðum sem fóru fram um þetta mál milli funda að um þetta hefur Ólafur heitinn Jóhannesson fjallað í bók sinni um Stjórnskipun Íslands, þar sem hann fjallar um útgáfu reglugerða. Ég vil leyfa mér að skrá hér í þingtíðindi mikilvæga setningu eða reyndar tvær setningar sem hann hefur hér uppi á bls. 365 í bókinni Stjórnskipun Íslands, en Ólafur var eins og flestir þekkja allra manna fróðastur um stjórnskipunarmál og prófessor í stjórnskipunarrétti um langt árabil við Háskóla Íslands. En hann komst svo að orði á bls. 365 í bók sinni:
    ,,Almenna löggjafanum myndi óheimilt að veita handhöfum framkvæmdarvalds ótímabundið umboð til að setja hvers konar réttarreglur. Það málefni, sem heimilað er að skipa með fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa, verður að vera nokkurn veginn afmarkað.``

    Síðan fer hann frekari orðum um það.
    Kjarni málsins er sem sagt sá að í hvert skipti sem ráðherra setur reglugerð, þá verður sú reglugerð að eiga stoð, ekki aðeins formlega heldur líka efnislega stoð, í íslenskum lögum og þegar Alþingi veitir ráðherra heimild til þess að gefa út slíka reglugerð, þá er sú heimild ekki eins og opin ávísun sem ráðherrann getur bara fyllt út að sinni vild, heldur verður valdaframsalið að vera afmarkað og nánar skilgreint. Og það liggur þá í eðli máls að afmörkunin felst þá í því sem í sjálfum lagatextanum stendur. Ráðherrann getur þar af leiðandi ekki gefið út reglugerð sem fellir skyldur á þegnana og sagt að sú reglgerð sé gefin út með heimild í tilteknum lögum, ef þau lög fela ekki í sér að slíkt vald eigi að falla ráðherranum í skaut.
    Sem sagt, ég held að hvort tveggja hafi verið, að það hefði verið ógilt samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar ef Alþingi hefði veitt ráðherra svo opið, ótímabundið og ótakmarkað valdaafsal, sem þarna var um að ræða, og ég held líka að það hafi verið óhjákvæmilegt að taka það fram að í hvert skipti sem slík reglugerð er gefin út, þá verði hún, hvað efni hennar varðar, að eiga stoð í þessum lögum.
    Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta. Ég þakka nefndinni fyrir samstarfið. Ég átti kost á að sitja fundi nefndarinnar í forföllum Margrétar Frímannsdóttur og það var prýðilegt og mjög ánægjulegt samstarf og mikil sanngirni þar sýnd í allri umfjöllun um málið og ég þakka fyrir það.