Prestssetur

64. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 02:08:14 (2915)

[02:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég bar fram í fyrri ræðu minni fyrirspurnir til hæstv. dómsmrh. Það greiðir ekki fyrir gangi mála í þinginu, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherrar eru spurðir einfaldra spurninga sem þeir

geta svarað með einföldu jái eða neii, að þeir kveðji sér ekki hljóðs og við sem berum fram þessar spurningar neyðumst til þess að kveðja okkur hljóðs á nýjan leik og endurtaka efnið. Ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherrar hefðu áhuga á að greiða fyrir afgreiðslu mála.
    Ég setti líka fram þá ósk, virðulegi forseti, að þessari umræðu yrði frestað til þess að við gætum átt orðastað við hæstv. fjmrh. Og eftir því sem ég skoða þetta mál meira, virðulegi forseti, eftir því tel ég brýnna að fá hæstv. fjmrh. til þessarar umræðu áður en henni lýkur. Satt að segja er ég kominn í þá stöðu að þurfa að óska eftir því að gert verði hlé á umræðunni í ræðu minni svo ég geti átt orðastað við hæstv. fjmrh. í þessari umræðu. Og vegna þess að ég veit að hæstv. forseti er meðal þeirra þingmanna sem mesta kunnáttu hafa á ríkisfjármálum þá ætla ég að lesa fyrir hæstv. forseta hvað segir í umsögn fjmrn. um þetta frv. Það fylgir með frv. umsögn sem fskj. frá fjmrn. Með leyfi forseta, segir svo í umsögn fjmrn.:
    ,,Í 4. gr. er gert ráð fyrir að stjórn prestssetrasjóðs verði heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim. Þau viðskipti eru háð samþykki kirkjuþings og dóms- og kirkjumálaráðherra. Vakin skal athygli á`` --- og bið ég forseta að hlýða vel á það sem kemur hér á eftir --- ,,eins og gert er í athugasemdum við lagafrumvarp þetta að kirkjunni eru ekki afhentar prestssetursjarðir og prestsbústaðir til eignar. Þær eignir verða áfram eign ríkissjóðs. Í 3. tölul. 7. gr. er gert ráð fyrir að söluandvirði prestssetra teljist prestssetrasjóði til tekna. Hér skal þess getið að ákveðnar prestssetursjarðir hafa að geyma verðmætan virkjunarrétt auk annarra hlunninda. Þá skal bent á að ákvæði 4. gr. ber að skoða`` --- virðulegir forsetar, ( Gripið fram í: Þetta er rómantísk stund.) virðulegir forsetar, mér finnst mjög erfitt að vera í þeim sporum að beina orðum til eins sérstaks forseta, sem situr í forsetastóli, og í miðjum tilmælum mínum til viðkomandi forseta víkur hann af forsetastóli og annar tekur við. Þar með er dæminu nánast þannig stillt upp að sá forseti sem nýtekinn er við getur ekki orðið við ósk minni. Ég tel þetta ekki vera eðlileg vinnubrögð af hálfu forsetadæmisins og ég vil biðja þann sem sat á forsetastóli að fara ekki úr salnum svo hann geti áfram hlýtt á hvað stendur í þessari umsögn fjmrn.: ,,Þá skal bent á að ákvæði 4. gr. ber að skoða í samhengi við 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem svo er kveðið á að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þá skal og bent á 5. gr. laga nr. 52/1987 og 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 63/1970 og loks á 6. gr. fjárlaga um heimildir fjármálaráðherra til kaupa og sölu eigna.``
    Þau lög sem fjmrn. vísar hér í, auk þess að vísa í 40. gr. stjórnarskrárinnar, eru lög um opinber innkaup þar sem kveðið er á um að Innkaupastofnun ríkisins annist innkaup á vörum og þjónustu fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsaki sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beiti sér fyrir samræmdum innkaupum o.s.frv. og stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.
    Hvers vegna er fjmrn. í þessari umsögn að vitna í lögin um Innkaupastofnun ríkisins til að ítreka að það skuli vera Innkaupastofnun ríkisins sem á að fara með þessar eignir? Svo víkur fjmrn. einnig í þessari umsögn að lögunum um skipan opinberra framkvæmda frá 1970 þar sem segir alveg skýrt að ákvæði laganna taki einnig til kaupa á eignum eftir því sem við getur átt.
    Hér er sem sagt ljóst að fjmrn. vitnar í fyrsta lagi í 40. gr. stjórnarskrárinnar, í öðru lagi í lögin um Innkaupastofnun ríkisins, um opinber innkaup, og í þriðja lagi um skipan opinberra framkvæmda.
    Það virðist vera að fjmrn. sé í þessum texta að segja að það sem stendur í frv. sé rugl, svo ég orði þetta á hversdagslegu máli, standist ekki stjórnarskrána, standist ekki önnur lög og sé í eðli sínu í mótsögn vegna þess að eignirnar sem sjóðurinn á samkvæmt 4. gr. að geta selt verði áfram eignir ríkisins. Það stendur alveg skýrt í umsögn fjmrn. að prestssetur sem selt er aðila A verði samt sem áður áfram eign ríkisins.
    Ég hef fengið orðsendingu um það að formaður nefndarinnar vilji skoða þetta mál milli 2. og 3. umr. Það er kannski eina tilboðið sem hér er sett fram. Mér finnst það ekki vera viðunandi, ég vil segja það alveg hreint út, vegna þess að þetta er slíkt alvörumál í ljósi umræðna sem hafa verið á Alþingi á sl. fimm til sex árum um meðferð opinberra eigna og aðferðir við sölu á eignum ríkisins og þátt þingsins í því, sem ég hef tekið þátt í ásamt m.a. hv. þm. Pálma Jónssyni og ýmsum öðrum um nokkurt árabil, að ég skil ekki hvers vegna er ekki orðið við þeirri einföldu ósk minni að fá tækifæri til að ræða þetta mál. Ég hef boðið upp á að það þurfi ekki að vera í ræðustól, heldur utan fundar, við hæstv. fjmrh. og kynna mér betur túlkanir á þessum athyglisverða texta fjmrn. sem hér er í frv. áður en umræðu lýkur. Ég verð að segja alveg eins og er, mér finnst það ekki sanngjarnt, mér finnst það ekki eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess sem hér hefur farið fram á undanförnum árum varðandi þennan þátt í málinu. En samkvæmt þingsköpum hef ég auðvitað ekki rétt til þess að tala oftar en hér og nú, en ég ítreka þá ósk mína að þessari umræðu verði frestað í minni ræðu. Ég er reiðubúinn að falla frá orðinu ef ég fæ tæmandi skýringar utan þingfundar hjá hæstv. fjmrh. Ég hef engan sérstakan áhuga á að knýja á um ræðuhöld af hans hálfu, en ítreka ósk mína um að þessari umræðu verði frestað á þann hátt að ég fresti minni ræðu og hafi þannig tækifæri til þess að skoða málið.
    ( Forseti (KE) : Ef það má verða til þess að þessari umræðu geti lokið fljótlega eftir að hv. þm. hefur rætt við fjmrh. þá telur forseti eðlilegt að verða við þeirri ósk að umræðunni verði frestað í miðri ræðu hv. þm. og væntir þess að það muni verða til þess að þetta mál geti leyst farsællega.)
    Ég þakka forseta fyrir þá afstöðu.