Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 10:44:52 (2917)


[10:44]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í upphafi ræðu minnar að ég tel nauðsynlegt að forustumenn stjórnarflokkanna séu viðstaddir þessa umræðu. Ég geng út frá því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur þessa umræðu að einhverju leyti. Ég geri á engan hátt kröfu til þess að hann sé hér viðstaddur alla umræðuna en ég vildi spyrja það hvort líkur séu til þess að forustumaður Alþfl. verði viðstaddur þessa umræðu þó að ég ætlist ekki til þess að forseti svari því nú. Áður en þessari umræðu verður lokið, þá tel ég nauðsynlegt að eiga orðastað við formann Alþfl.
    Hér er um að ræða mjög stórt mál, breytingar á skattalögum sem varða hvern einasta þegn í landinu, hag ríkissjóðs, þjóðarhag. Það er því mikilvægt að vel sé vandað til. Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það frv. sem hér stendur til að afgreiða sé á engan hátt tilbúið til afgreiðslu og það sé stórkostlegt slys og varði almannahagsmuni og þjóðarhag að þetta frv. verði að lögum. Ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki gengið að framkvæma viðamikla skattkerfisbreytingu með þeim hætti að lagasetning sé ljós milli jóla og nýárs eins og líkur eru til ef frv. þetta verður keyrt áfram í gegnum þingið og síðan eigi að byrja að framkvæma málið 1. jan. Það á eftir að setja reglugerðir. Það á eftir að undirbúa það í verslunum og þetta er einfaldlega ekki hægt. Hjá öllum siðuðum þjóðum væri undirbúningstíminn a.m.k. 6 mánuðir frá því að lagasetningin fer fram. Ég er því þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það eigi að taka hér aðrar ákvarðanir og fara út í nánari athuganir á þessu máli með sama hætti og 1. minni hluti nefndarinnar leggur til í ákvæði til bráðabirgða. Í ljósi þessarar skoðunar hef ég ritað forseta Alþingis svohljóðandi bréf, dags. 17. des. 1993, með leyfi forseta:
    ,,Skv. 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun geta forsetar Alþingis að ósk þingmanna krafið ríkisendurskoðanda um skýrslu um einstök mál. Undirritaður alþingismaður óskar eftir að ríkisendurskoðandi gefi skýrslu um skattkerfisbreytingar samkvæmt frv. nr. 251 um breytingar í skattamálum og breytingartillögum við það. Skýrslan fjalli m.a. um áhrif breytinganna á ríkisfjármál, hag almennings og fyrirtækja. Jafnframt verði gerð grein fyrir öryggi skattkerfisbreytinganna, kostnaði við þær og hugsanleg áhrif á skattsvik.``
    Ég tel það tvímælalaust vera í samræmi við verkefni Ríkisendurskoðunar að framkvæma athugun sem þessa. Ríkisendurskoðun var sett á stofn á sínum tíma til að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu og stuðla að því Alþingi fengi meira sjálfstæði í sínum málum. Þar hefur á margan hátt tekist vel til og Ríkisendurskoðun hefur með athugunum sínum á útgjaldahlið fjárlaga og úttekt á einstökum stofnunum gert mikið gagn. Ríkisendurskoðun hefur hins vegar ekki með sama hætti litið til tekjuhliðarinnar og breytinga á skattalögum þegar þær standa fyrir dyrum. Ég tel því mikilvægt til þess að leiða í ljós hið rétta í þessu máli að Ríkisendurskoðun framkvæmi þessa athugun og ég tel nauðsynlegt að sú athugun fari fram áður en löggjöfin er sett. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað það mun taka langan tíma og til hvaða bráðabirgðaráðstafana þarf að grípa til þess að bíða eftir þeirri niðurstöðu, en þannig á að undirbúa slíkar breytingar. Ég minni á það að þegar hugað var að slíkri breytingu í Noregi á árinu 1992 var útbúin mikil skýrsla um það mál og eftir þá vinnu voru allir aðilar sammála um að framkvæma breytinguna með allt öðrum hætti. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki farið í neina slíka vinnu. Engar athuganir hafa farið fram svo að heitið geti í tilefni þessa máls. Þó ekki hefði annað gert verið en að þýða þessa skýrslu, sem er fróðleg lesning fyrir hvern og einn sem kemur að þessu máli, þá hefði það verið mjög gagnlegt.
    Það sem lá til grundvallar þessari ákvörðun var í reynd þetta hérna plagg, upp á eina og hálfa síðu, útbúið af fjmrn. í fljótheitum í tengslum við kjarasamninga. Og textinn er ekki eingöngu stuttur og ófullkominn heldur eru að mínu mati verulegir veikleikar í þeirri röksemdafærslu sem þar er sett fram og ég mun koma nánar að því.
    Ég vil þá í framhaldi af þessu víkja að því um hvað þetta mál fjallar í ljósi þeirra tillagna sem 1. minni hluti nefndarinnar leggur fram. ( Gripið fram í: 2. minni hluti.) 2. minni hluti. Það er ekki von að

ég átti mig á því vegna þess að ég hélt, hæstv. forseti, með sjálfum mér að fyrir þessu máli væri meiri hluti á Alþingi en vonandi er svo ekki ef hv. alþingismenn taka réttar ákvarðanir í samræmi við sína samvisku. Get ég þar vitnað til ágæts málflutnings varaformanns hv. efh.- og viðskn. þótt ég sé ekki sammála niðurstöðunni sem hann kemst að í sambandi við hvort styðja beri málið.
    Hér er í fyrsta lagi verið að taka ákvörðun um það að breyta virðisaukaskattinum þannig að taka upp tvö skattþrep. Þessa ákvörðun verður að skoða í ljósi þess hvort hagkvæmara sé að halda einu þrepi og lækka virðisaukaskattinn og endurgreiða virðisaukaskatt á matvælum eins og 2. minni hlutinn leggur til. Ég legg áherslu á það að þar er gerð tillaga um endurgreiðslu á virðisaukaskattinum og að farið verði út í svipað kerfi og gildir t.d. að því er varðar mjólkurvörur. Þessar leiðir báðar gera saman gagn í verðlagi, þ.e. lækka verðlagið um 0,9%. Jöfnunaráhrif beggja þessara leiða eru mjög svipuð samkvæmt neyslukönnun. Munurinn er ómarktækur. Hann er samkvæmt neyslukönnuninni nokkur hundruð krónur á fjölskyldu, sérstaklega á það við um lágtekjufjölskyldurnar.
    Það hefur hins vegar verið farið út í það að reikna þetta út frá tekjum sem ég tel ekki rétt í slíkum tilvikum. Ég bendi á það að engum datt í hug í norsku skýrslunni að fara út í slíka útreikninga því að þar er munstrið svo mismunandi, tekjurnar eru svo mimsmunandi. Sumir eiga eignir, sumir lifa á lánum eins og námsmenn o.s.frv. Niðurstaðan er því mjög sambærileg. En það stendur til að fara hér út í skattkerfisbreytingu þar sem hægt er að ná betri árangri með öðrum hætti án þess að tekjuskiptingin breytist nokkuð að ráði. Það á sem sagt að kosta til 150--200 millj. af hálfu ríkissjóðs til þess að gera þetta og taka þá áhættu að skattsvik muni stóraukast. Það hefur verið áætlað, án þess að það hafi verið áætlað af mér, að það geti numið allt að 500 millj. og það á að taka þá ákvörðun að fyrirtækin þurfi að leggja í hundruð milljóna króna kostnað til þess að fara út í þessa framkvæmd.
    Það eru ekki blankir menn sem ætla sér út í svona æfingar á sama tíma og erfiðleikar eru í okkar samfélagi. Það er ekki ríkisstjórn sem vill sýna hagsæld og sparnað í rekstri sem fer út í það. En ríkisstjórnin segir: Við sömdum um þetta í kjarasamningum og við verðum að standa við það.
    Hvernig skyldi standa á því að hæstv. ríkisstjórn fór út í það að semja um þessi ósköp? Réði hún engu um gang mála í því sambandi? Er hæstv. ríkisstjórn áhrifalaus í málum sem þessum? Er hæstv. fjmrh. algerlega áhrifalaus í máli sem þessu? Hefur hæstv. fjmrh. ekkert um þetta að segja? Og hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að verja þessa aðgerð? Ég tel að fjmrh. sem sér afleiðingar af svona aðgerð á fjármál ríkisins og þjóðarhag, eins og ég veit að hæstv. fjmrh. hlýtur að gera, eigi að segja af sér ef hann vill standa undir sinni ráðherraábyrgð. Enginn hæstv. fjmrh. getur látið hafa sig út í svona hluti gegn betri vitund og sem betur fer hafa fyrirrennarar hans staðist slíkar þolraunir og þess vegna kemur á óvart að hæstv. utanrrh. skuli hafa skipt svo skyndilega um skoðun í málinu og er nauðsynlegt að ræða við hann um málið.
    Ef sú leið er valin að byrja á því að lækka skattinn í 23% og halda áfram að endurgreiða virðisaukaskattinn af helstu nauðsynjavörum, þá ná menn sama árangri en það kemur sem nemur 600 millj. kr. betur út fyrir ríkissjóð. Þar af mun útgjaldahlið ríkisins lækka um 300 millj. kr. vegna þess hvað ríkið greiðir mikið af vörum og þjónustu í hæsta þrepi. Það mun líka spara fyrir sveitarfélögin í landinu upphæð sem nemur a.m.k. 100 millj. kr. Það er því alveg sama hvernig litið er á þetta mál að það er algerlega borðleggjandi. En samt ætla menn að eyða í það 200 millj. kr., ráða 26 eða 28 starfsmenn til þess að fara í þetta, vanrækja annað skatteftirlit og taka áhættuna á auknum skattsvikum og segja fyrirtækjunum: Þið verið að gera svo vel að fara í það núna yfir áramótin og nota jólin í að breyta kerfunum hjá ykkur. Það hefur verið skemmtilegur jólaglaðningur fyrir fólkið í verslununum þegar það verður örþreytt að kvöldi Þorláksmessu að byrja á undirbúningnum yfir jólin og gamlársdag og nýársdag því að auðvitað þarf að nota hverja stund ef vel á að takast til. Þetta ætlar ríkisstjórnarmeirihlutinn að gera og segir: Það er ekki okkur að kenna. Það er þeim uppi í Vinnuveitendasambandi að kenna. Það er ASÍ að kenna. Við ráðum engu um þetta.
    Það er hægt að gera ýmislegt annað fyrir þessa peninga. Það er hægt að hækka vaxtabætur sem er búið að skerða svo mikið að hjón sem eiga sem samsvarar 8 millj. kr. fá engar vaxtabætur. Þær skerðast um 60% á bilinu 5 til 8 millj., hjá einstaklingi á bilinu 3 millj. til 4,8 millj. kr. Einstaklingur sem á 4,8 millj. fær engar vaxtabætur. Ef þetta bil er hækkað þannig að það sé á bilinu 5 til 10 millj. kr. hjá hjónum og bilinu 3 til 6 millj. kr. hjá einstaklingi, þá kostar það 200 millj. kr. Eru menn á móti því? Ætla menn að standa á móti því hér á Alþingi?
    Það er hægt að hækka barnabótaukann hjá lágtekjufólki. Ef barnabótaaukinn er aukinn um 10 þús. á barn, þá kostar það um 350 millj. kr. og það mun eingöngu koma til lágtekjufólks vegna ákvæðanna um það. Ætla menn að vera á móti því? Mér skilst það.
    Það er hægt að hætta við áform um sérstakt 0,35% tryggingagjald sem mundi þá gefa svigrúm ef það væri ekki lagt á til þess að hækka laun eða annan kostnað eða afkomu fyrirtækjanna í landinu um 0,35%. Skapa betri rekstrargrundvöll þannig að það hefði örvandi áhrif á atvinnustarfsemina í landinu, framleiðslustarfsemina, útflutningsstarfsemina. Þessi skattur er 560 millj. kr. Eru menn á móti því? Mér skilst að menn séu á móti því.
    Það er hægt að hætta við þennan vitlausa skatt á fólksflutningum og á ferðaþjónustu og gistingu, en halda þessari starfsemi áfram í hærra þrepinu í tryggingagjaldi. Það kostar 250 millj. kr. Að vísu er ríkisstjórnin búin að ákveða að endurgreiða hluta af þessari fjárhæð til strætisvagnanna sem mun kosta 70--80 millj. kr. þannig að fjárhæðin er þá komin niður í 180 millj. kr. Eru menn á móti því? Á að fara út í það að fjölga þeim aðilum sem innheimtur er skattur á og taka upp þetta vitlausa og flókna kerfi varðandi ferðaskrifstofurnar sem er algerlega óframkvæmanlegt? Mér skilst það.
    Það er hægt að taka fjármagnseignirnar inn í eignarskattsstofn. Það er hægt að gera það núna um áramótin. Mér hefur skilist að ríkisstjórnin hafi ætlað sér að leggja á fjármagnstekjuskatt. Það var strax ákveðið í ritinu Velferð á varanlegum grunni, sem var gefið út í október 1991. Þar var sagt að þetta yrði gert næstu mánuðina og lagt fyrir á næsta þingi og afgreitt á því þingi. Það þing hófst haustið 1991 og lauk vorið 1992. Það bólaði ekkert á neinu frv. um það, hvað þá að það væri afgreitt og það hefur heldur ekki sést síðan. Í fjárlögum þessa árs voru áætlaðar tekjur af slíkum skatti 500--600 millj. kr. ef ég man rétt. Með því að breikka eignarskattsstofninn og reikna með því að aðeins helmingur af þeim eignum sem ekki eru fram taldar komi inn í eignarskattsstofn er hægt að ná þar inn tekjum, 600 millj. kr. eða svipaðri fjárhæð og ríkisstjórnin ætlaði að gera á þessu ári. En það er hægt að gera meira. Það er hægt að afnema ekknaskattinn og það er hægt að hækka skattleysismörkin í eignunum um 500 þús. hjá einstakling og 1 millj. hjá hjónum. Eru menn á móti því? Mér skilst að menn séu á móti því.
    Og þegar þessu öllu er nú lokið, þá hef ég fengið það mat hjá Þjóðhagsstofnun í dag að þá verði eftir 150 millj. kr. til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs og eru menn á móti því? Mér skilst að menn séu á móti því.
    Og það sem meira er. Verðlagsáhrifin af þessari leið eru nákvæmlega þau sömu að því er varðar virðisaukaskattinn og jöfnunaráhrifin áþekk en til viðbótar mun verðlagið lækka um 0,15% vegna tryggingagjaldsins og vegna fólksflutninga, gistinga og fleira um 0,05%, þ.e. að verðlagið mun ekki lækka um 0,9%, eins og í leið ríkisstjórnarinnar, heldur um 1,1% og þar að auki komi það betur út fyrir ríkissjóð fyrir utan allt sem fer til spillis. Mér skilst að menn séu á móti þessu líka á grundvelli einhverra vitlausra útreikninga sem menn bundu sig í í vor.
    Þar að auki hef ég fengið nú eftirfarandi umsögn frá Þjóðhagsstofnun um áhrif þessara tillagna, með leyfi forseta:
    ,,Þjóðhagsstofnun hefur að beiðni formanns efh.- og viðskn. Alþingis metið lauslega áhrif tillagna hans á afkomu ríkissjóðs, verðlag og fleiri hagstærðir. Umræddum tillögum er lýst í töflu sem fylgir hér með og þar kemur einnig fram mat á áhrifum þeirra á afkomu ríkissjóðs. Samtals eru tillögurnar taldar skila ríkissjóði um 150 millj. kr.
    Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlaga er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1994 verði 104 milljarðar 203 millj. kr. Tillögur formanns efh.- og viðskn. kæmu þannig fram í fjárlögum að tekjuhlið þeirra lækkaði um 150 millj. kr., yrði 104 milljarðar 53 millj. kr., en útgjaldahliðin lækkaði um 300 millj. Þetta stafar af því að lækkun virðisaukaskattsins samkvæmt tillögunum skerti tekjur ríkissjóðs um 2,3 milljarða brúttó en lækkaði útgjöld hans um 300 millj. Ef hætt yrði hins vegar við lækkun virðisaukaskatts á matvæli ykjust tekjur ríkissjóðs um 2,6 milljarða kr. Áhrif þessara breytinga bætir því afkomu ríkissjóðs um 600 millj. kr. Að teknu tilliti til annarra liða tillagnanna er heildarniðurstaðan sú að afkoma ríkissjóðs batnar um 150 millj. kr.``
    Þar fyrir utan vil ég taka það fram í þessu sambandi að ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að falla frá virðisaukaskatti á hluta af almenningsvögnunum í landinu á grundvelli mjög vafasamrar lagaheimildar og það mun kosta 70--80 millj. sem hækkar þennan mun þannig að hann er þá orðin 230--240 millj. kr. Ég held síðan áfram að vitna í þessa umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Lækkun virðisaukaskatts á matvæli og lækkun virðisaukaskatts úr 24,5 í 23 eru talin skila svipuðum áhrifum á verðlag, lækka framfærsluvísitöluna um nálægt því 0,9%. Við bætist samkvæmt tillögum að hætt er við álagningu sérstaks tryggingargjalds og jafnframt eru fólksflutningar og gisting áfram undanþegin virðisaukaskatti. Þetta leiðir til þess að vísitala framfærslukostnaðar lækkar um fimmtung úr prósenti eða svo.
    Umræddar tillögur hafa með ýmsum hætti áhrif á kaupmátt. Þannig hefur minni verðbólga í för með sér aukinn kaupmátt og í sömu átt ganga að sjálfsögðu hækkanir bóta. Á móti vegur hins vegar að skattar á eignir eru hækkaðir. Í tillögunum felast því tilfærslur í skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers konar bóta eykst nokkuð en ráðstöfunarfé eignamanna minnkar. Þegar á heildina er litið eru hins vegar áhrifin á kaupmátt ráðstöfunartekna ekki veruleg.``
    Það er alveg ljóst að þetta minnkar kaupmátt eignamanna eitthvað en bætir kaupmátt þeirra sem lægri tekjur hafa. Eru menn á móti því? ( Gripið fram í: Kratarnir.) Er Alþfl. á móti því? ( Viðskrh.: Nei.) Nei, segir hæstv. iðn.- og viðskrh., starfandi utanrrh. Hann segist ekki vera á móti því. Þá held ég að ráðherra iðnaðar og viðskipta ætti að skoða það hvaða áhrif þetta hefur á viðskiptalífið í landinu sem hann ber ábyrgð á og taka á sig rögg og standa undir sinni ábyrgð og reyna að toga formann Alþfl. heim til þess að vita hvort ekki er hægt að koma vitinu fyrir hann. Mér skilst að þeim hafi tekist að koma vitinu fyrir hann í landbúnaðarmálum, þótt ég hafi nú ekki séð það enn þá eða vilji leggja dóm á það. ( Gripið fram í: Það er ekki alveg víst.) Nei, það er ekki alveg víst.
    Það er sagt í þessu máli af hæstv. ráðherrum eins og hæstv. viðskrh. var í reynd að segja núna: Ég er ekki á móti þessu, eins og ég skil hans orð, en ég get bara ekki gert þetta. Ég samdi um annað. Ég

samdi af mér. Ég gerði tóma vitleysu. Mér finnst að svona ráðherrar eigi einfaldlega að segja af sér. Hver píndi þessa ráðherra til að gera tóma vitleysu? Ekki nokkur maður. Ef þeir hefðu aðeins sýnt fram á það með rökum og látið athuga málið, þá er enginn vandi að fá fram aðra ákvörðun. Þeir máttu ekki vera að því. Þeir voru að gera eitthvað annað.
    Nú segja þeir að ef þeir breyti um skoðun hafi þeir svikið loforð sín. Hvaða loforð voru gefin? Voru ekki gefin loforð um að lækka verðlag? Ég vil taka það fram að auðvitað má nota þá fjármuni sem nemur virðisaukaskattinum til þess að hækka margvíslegar bætur eins og persónuafslátt, hækka skattleysismörk og ná enn meiri árangri í sambandi við tekjujöfnun. En við í 2. minni hluta nefndarinnar vildum líta á það sem staðreynd að það þyrfti að lækka verðlagið um 0,9%. Það er uppfyllt hér. Er það svikið samkvæmt þessu? Nei, það er ekki svikið.
    Síðan er ákveðið að hækka bætur til lágtekjufólks og leggja skatta á eignatekjur. Eru það einhver svik? Eru það svik að hækka barnabætur til fjölskyldna með lágtekjur? Eru það svik að hækka vaxtabæturnar? Í reynd má hækka þetta mun meira ef það kostar það til þess að koma í veg fyrir þessa vitleysu. Það eru 150 millj. kr. í afgang og þar að auki fara fleiri hundruð milljóna til spillis. Mér skilst á ráðherrunum að ef þeir koma í veg fyrir það að fleiri hundruð milljónir fari til spillis og hægt verði að hækka bætur til lágtekjufólks, þá verði hér ófriður á vinnumarkaði og verkföll. Það verður skrýtið verkfall þar sem menn ætla að berjast á móti því að verðlagið sé lækkað meira, þar sem menn ætla að berjast á móti því að hægt sé að lækka bætur til lágtekjufólks meira.
    Geta hæstv. ráðherrar virkilega ekki komið þessu máli frá sér þannig að það skiljist? Eru hæstv. ráðherrar ekki hæfir til þess að sinna þessum málum og koma þeim þannig fram að verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur skilji eðli þess? Mín niðurstaða er sú að þeir séu ekki hæfir til þess og þess vegna beri þeim að segja af sér. Sérstaklega þeir sem standa þarna í dyragættinni og sem hafa með viðskiptamálin og ríkisfjármálin að gera. ( Viðskrh.: Annar er farinn.) Má treysta því að hann komi ekki aftur? ( Viðskrh.: Nei.) Því að ef mætti treysta því, hæstv. ráðherra, þá gæti ég í sjálfu sér lokið máli mínu því þá hefði hæstv. ráðherra tekið rétta ákvörðun.
    Sannleikurinn er sá að þessar aðgerðir sem nú er verið að fara út í, og ég legg áherslu á þessi lagasetning núna, miðað við það sem hægt er að gera en bætir ekki hag almennings. Það er búið að bæta hag almennings nú þegar með aukningu og endurgreiðslu virðisaukaskatts og það voru allar lagaheimildir til fyrir því. En þessar viðbætur, miðað við þær tillögur sem við leggjum hér fram, ganga á hag almennings. Þær gera það að verkum að tekjur þjóðarbúsins minnka. Framleiðslan mun dragast saman og útflutningstekjurnar munu dragast saman. Tekjur af ferðaþjónustu munu dragast saman. Innflutningurinn mun aukast því að verðlagið lækkar meira á innfluttu matvælunum en innlendu matvælunum.
    Er það það sem Íslendingar þurfa á að halda um þessar mundir? Ég kem ekki auga á það. Þurfum við á því að halda núna að stórveikja skattkerfið og eyða fleiri hundruð milljónum í þessar æfingar þegar okkur sárvantar fé til þess að horfa fram á veg og gera eitthvað til gagns til að efla hér framleiðslu og útflutning. Á sama tíma og okkur vantar fjármagn í markaðsstarf og þróunarstarf og reyna að líta einhverja áratugi fram í tímann á 50 ára afmæli lýðveldisins á næsta ári, þá ætla menn að eyða a.m.k. 1 milljarði ef ekki meiru í þessar æfingar. Væri ekki betra að setjast niður og átta sig á því hvað menn gerðu best til þess að bæta hag þessa samfélags og horfa fram eins og til 2044 og leggja fjármagn í rannsóknir og þróun og styrkja hag atvinnuveganna? Nei, það gengur ekki því að þá mun ekki lengur verða friður, hvorki í ríkisstjórninni né í landinu. Ég hef að vísu ekki orðið var við friðinn í ríkisstjórninni þannig að það gerir kannski minnst til. En ég er viss um að ef hæstv. ráðherrar reyna að breyta þessu máli, þá er það hægt. Það hlýtur að vera hægt að fá aðila til að hlusta á niðurstöður og hreinar tölur í þessu sambandi.
    Virðulegur forseti. Ég ætla þá að víkja að einstökum atriðum þessa máls og byrja aðeins á undirbúningnum. Það má e.t.v. segja að undirbúningurinn hafi hafist þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð. Það var gert með miklum ,,bravör`` og menn fóru út í Viðey og sömdu þar um alls konar mál og gáfu síðan út þetta rit sem var loforð til landsmanna um það hvernig þessir herrar ætluðu að stjórna. Það hefur verið í fréttum undanfarna daga mörgum sinnum á dag að sá atburður hafi gerst að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi ákveðið að standa við kosningaloforð og það hefur þótt svo fréttnæmt að það hefur verið lesið upp í hverjum fréttatíma í nokkra daga. Það þykja svo mikil tíðindi að Sjálfstfl. hafi ákveðið að standa við kosningaloforð að það þykir rétt að lesa það landsmönnum nokkrum sinnum á dag. Að vísu var byrjað á því í fréttunum í morgun að lesa það upp eftir nokkurra daga lestur að nú stæði til að standa við kosningaloforð að það væri ekki rétt vegna þess að það væri svikið. En hér er ekki um það að ræða að tala um kosningaloforð heldur að tala um stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og ég held að það sé hollt að fara dálítið ofan í það sem þar er sagt. Þar segir í upphafi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innheimta og ráðstöfun skatta þarf að vera hagkvæm og raska sem minnst almennri efnahagsstarfsemi.``
    Ég er alveg sammála þessu stefnumarki. En hvað er verið að gera hér? Er verið að auka hagkvæmnina í skattkerfinu? Nei, ekki aldeilis. Það á að ráða 28 nýja menn til þess að framkvæma þá athöfn að reyna að koma í mesta lagi 40 millj. kr. frá hátekjufólki yfir til lágtekjufólks. Í það á að nota 26--28 starfsmenn og biðja allar verslanir um að breyta sínum kerfum og þar af leiðandi mun ekki verða mikið ráðið við skattsvik. Þetta er hagkvæmnin í því.

    Svo er sagt hér: Og raska sem minnst almennri efnahagsstarfsemi. Ég er líka sammála þessu. En þetta raskar mjög almennri efnahagsstarfsemi. Hvað halda menn að muni t.d. gerast í sambandi við ferðaþjónustuna? Hefur einhver haft fyrir því að láta athuga það? Hefur hæstv. samgrh. skilað einhverjum niðurstöðum um það hvort tekjur af ferðaþjónustu munu halda áfram að aukast á næsta ári? Það er reiknað með að þær aukist á þessu ári á bilinu 15--20%. Það eru einir 2 milljarðar. Það gæti orðið nokkuð dýrt að missa það til baka. Hvað segir fólkið í þessari atvinnugrein þegar það talar við okkur? Það segir: Minnsta verðbreyting getur orðið til þess að gerbreyta þessari mynd út af samkeppnisstöðu landsins. Við hv. alþm. reynum að tala hér um þetta mál við hæstv. samgrh. Það er í mesta lagi að hæstv. samgrh. rjúki upp og reiti hár sitt og fari að tala um eitthvað allt annað ef hann kemur þá í ræðustól. Auðvitað þarf að tala við þann hæstv. ráðherra einn ganginn enn um þetta mál því að auðvitað ætti hann líka að segja af sér. Hæstv. samgrh. sem ætlar að bera ábyrgð á því að setja velferð íslenskrar ferðaþjónustu í hættu samkvæmt ummælum þeirra sem koma til okkar.
    Er það ekki að raska almennri efnahagsstarfsemi að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga og innanlandsflug, væntanlega með þeim afleiðingum að stórlega mun draga úr innanlandsflugi? Auðvitað er þar verið að raska almennri efnahagsstarfsemi.
    En það á að ganga lengra. Það er búið að ákveða að á fólksflutningar innan bæjar eigi ekki að leggja virðisaukaskatt. Ef menn fara hins vegar milli Keflavíkur og Reykjavíkur, þá eigi menn að borga virðisaukaskatt. Hæstv. fjmrh. upplýsir að ef menn fara í strætó á Egilsstöðum, þá muni menn heldur ekki þurfa að borga virðisaukaskatt. ( Gripið fram í: Er einhver strætó þar?) Ég hef nú ekki séð hann þar á götum, en það má vel vera að hæstv. fjmrh. hafi ákveðið að senda þeim einn til þess að menn geti notið þessara fríðinda. Mér skilst að það sé boðskapurinn til Austfirðinga í þessu máli að þeir megi ferðast með strætó innan bæjar í byggðunum þar til þess að nota sér þennan lúxus. Það verður fróðlegt að heyra hvernig Alþfl. ætlar að færa Austfirðingum þann boðskap því að það vill svo merkilega til að flokkurinn hefur þar þingmann nú um stundarsakir.
    Ég býst við því að strax í upphafi árs munu Austfirðingar fá upplýsingar um það hvernig þeir geti ferðast með strætó, en það er eitt vandamál í því. Þeir munu ekki geta notið þessara hlunninda nema strætisvagninn verði rekinn með mjög miklu tapi. Það er eina leiðin því að eftir því sem tapið verður meira á strætisvagninum þeim mun meira verður endurgreitt af virðisaukaskattinum því að nú eru menn búnir að finna það út að ef Reykjavíkurborg eða Akureyrarbær borgi halla á strætisvögnum, þá séu viðkomandi sveitarfélög að kaupa þjónustu af strætó.
    Það er alveg nýtt fyrir mér að með því borga tap sé verið að kaupa þjónustu. Það væri fróðlegt að heyra skilning hæstv. viðskrh. á því. Ef hann tæki nú upp á því að borga hluta af tapi söluturna í Reykjavík úr ríkissjóði, ef þeir væru reknir með tapi, væri hæstv. viðskrh. þá að kaupa af þeim þjónustu? Ég hef aldrei áttað mig á því að það væri hægt að finna upp svona skilgreiningu. Eða ætlar e.t.v. meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur, þessi sem fréttin var um að mundi kannski efna eitt kosningaloforð en er nú komið í ljós að þeir munu sennilega svíkja það, að ferðast svona mikið með strætó? Er verið að kaupa þjónustu handa þeim? Ekki skil ég þetta. En ég býst við því að hv. þm. stjórnarflokkanna skilji þetta allt saman og muni upplýsa okkur um þetta fyrir jólahátíðina.
    Síðan segir í þessari stefnuyfirlýsingu, og ég er bara búinn með fyrstu setninguna: ,,Til þess að forðast neikvæð áhrif á atvinnulífið þarf skattkerfið að vera einfalt, skilvirkt og hlutlaust í þeim skilningi að það mismuni ekki framleiðsluþáttum og atvinnugreinum.``
    Ég er alveg sammála þessu. Ég gæti vel trúað því að hæstv. fyrrv. iðn.- og viðskrh. hefði samið þetta og hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. hefði fengið þetta í arf. Stendur til að standa við þetta í þessum skattalögum? Nei, ekki aldeilis. Það á að mismuna atvinnugreinum og það á að mismuna framleiðsluþáttum.
    Síðan kemur næsta setning:
    ,,Skattheimtan verður umfram allt að vera hófleg þannig að hún dragi ekki úr framtakssemi og áræði einstaklinga við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu.``
    Allt rétt. Það er mikilvægt að hafa hóflega skattheimtu um þessar mundir þegar við þurfum á nýsköpun og atvinnuuppbyggingu að halda. Er það hófleg skattlagning að hækka tryggingagjald á atvinnuvegina að óþörfu? Er það hófleg skattlagning að halda 24,5% virðisaukaskatti þegar hægt er að lækka hann í 23%? Þessi skattalagabreyting stuðlar ekki að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu heldur þvert á móti. Síðan segir:
    ,,Skattstofnar eiga að vera skýrt afmarkaðir og með sem fæstum undanþágum svo að skatthlutfall verði sem lægst og hætta á undanskotum sem minnst.``
    Allt rétt. Það er bara allt rétt í þessari stefnuyfirlýsingu a.m.k. fram að þessu og ég er sammála öllu. En hvað er verið að gera hérna? Það er verið að taka upp tvö þrep, auka hættu á undanskotum og hætta við að grípa tækifærið til að lækka skatthlutföll. Mér skilst að menn séu á móti því. Og samkvæmt því eru menn á móti öllu sem hefur verið lesið úr þessari stefnuyfirlýsingu fram að þessu.
    Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna aukins frjálsræðis í viðskiptum milli ríkja þarf að huga að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og gæta þess að skattkerfið íþyngi þeim ekki umfram það sem gengur og gerist meðal grannþjóðanna.``
    Þetta er líka allt rétt. Hver er virðisaukaskatturinn í löndunum í kringum okkur? Hann er t.d. 22% í Noregi. Í Svíþjóð er hann 24% en þeir hafa eitt lægra skattþrep sem er 21% og talið hafa verið mistök þar. Virðisaukaskattur er almennt lægri í nágrannalöndunum en hér á Íslandi. Ætli geti ekki verið að við missum dálítið af verslun til útlanda út af því? Ætli geti ekki verið að íslenskar vörur seljist minna út af því? Það er staðreynd að við þurfum á því að halda vegna okkar samkeppnisstöðu að lækka þetta hlutfall og færa það nær því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það á ekki að gera það. Þetta er því líka brotið.
    Ég held að ég hætti að lesa úr umbótakaflanum í þessu riti, en ég hef verið sammála öllu sem þar stendur fram að þessu en ríkisstjórnin er ekki sammála því. Sá er munurinn.
    Síðan segir um einstaka skatta, og þar er komið að brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar í skattamálum þegar hún var mynduð. Þetta brýna verkefni er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar í skattamálum er samræmd skattlagning eigna og eignatekna. Núverandi fyrirkomulag þar sem eignir eru skattlagðar með háum skatthlutföllum, fjölmörgum undanþágum og flóknum álagningarreglum er óviðunandi.``
    Og síðan segir: ,,Með auknu frjálsræði í gjaldeyris- og utanríkisviðskiptum er þar að auki orðið nauðsynlegt að samræma skattlagningu eigna- og fjármagnstekna gildandi reglum í öðrum löndum.``
    Og enn er sagt: ,,Samræming skatta af eignum og eignatekjum á að tryggja sanngjarna, almenna og hóflega skattheimtu. Henni er bæði ætlað að koma í veg fyrir óviðunandi skattfríðindi og tvísköttun og tryggja einfalda framkvæmd með skilvirkum álagningarreglum. Undirbúa þarf samræmingu á framkvæmd hennar vandlega svo að ekki dragi úr sparnaði. Undirbúningsvinna er þegar hafin í fjmrn.`` Taktu eftir, hæstv. fjmrh., ,,þegar hafin í fjmrn.``
    ( Forseti (SalÞ) : Ávarpa rétt.)
    Ég biðst afsökunar, hæstv. forseti. Síðan segir, hæstv. fjmrh.: ,,Undirbúa þarf samræminguna á framkvæmd þeirra vandlega svo ekki dragi úr sparnaði. Undirbúningsvinna er þegar hafin í fjmrn. og verður frumvarp um málið lagt fram á því þingi sem nú er hafið``, þ.e. í október 1991, ,,og stefnt að afgreiðslu þess.``
    Þetta var talið langbrýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar í skattamálum þegar hún var mynduð. Nú er haustið 1993. Og haustið 1994 er ekki langt undan og lítið hefur gerst. Það hafa að vísu verið skrifaðar skýrslur um málið. Ein hér í mars 1992 og ég átti einhvers staðar aðra fróðlega skýrslu um þetta mál, sem ég fann ekki í fljótheitum. Allt er þetta fróðleg lesning og væri mikilvægt fyrir hv. alþm. að kynna sér það vel.
    Hvar er framkvæmdin á þessu máli? Það er hægt að koma henni í framkvæmd. Hæstv. fjmrh. hefur verið svo vinsamlegur að rétta mér nýjustu skýrsluna sem er frá 14. okt. 1993 og hún er nokkur að vöxtum þannig að undirbúningsvinnan er hafin. Ég get ekkert annað en viðurkennt það. Hæstv. fjmrh. hefur verið nokkuð duglegur í undirbúningnum í þessu máli. Hann hefur hins vegar ekki verið duglegur í undirbúningnum í sambandi við virðisaukaskattinn því þar hefur ekkert verið undirbúið.
    Það sem við í 2. minni hluta efh.- og viðskn. leggjum til er að samræma eignarskattsstofninn þannig að fjármagnseignirnar komi inn í hann. Þetta er sáraeinföld aðgerð. Þessar eignir eru framtalsskyldar. Þær eru hins vegar ekki allar taldar fram vegna þess að almenningur veit að það mun ekki breyta sköttum þeirra þrátt fyrir skylduna. Ég er hins vegar viss um að þegar almenningur veit það, þá mun mikið af þessu verða talið fram. Þetta er hægt að gera með einfaldri lagabreytingu og um leið er hægt að hækka skattfrelsi eignarskattsstofnsins og afnema ekknaskattinn sem er búinn að vera til vandræða í mörg ár.
    Ríkisstjórnin er líka á móti því að koma brýnasta viðfangsefni hennar þegar hún var mynduð á nokkurt skrið. Ég er ekki að segja að þar með sé búið að leysa það erfiða viðfangsefni, sem ég viðurkenni, að taka upp réttláta skattlagningu á fjármagnstekjur. En það er þá a.m.k. búið að leggja skatt á þessar eignir með eðlilegum hætti og nota svigrúmið m.a. til þess að hækka bætur til láglaunafólks og afnema hæsta þrepið í eignarskattinum um leið og lækka eignarskatt þeirra sem eiga eingöngu fasteignir og bíla og annað slíkt og án þess að leggja aukinn eignarskatt á þá einstaklinga sem eiga 500 þús. í peningalegum eignum eða 1 millj. hjá hjónum. Allar lægri innstæður almennings kæmu þannig ekki til með að hækka eignarskatt þessa fólks. Mér skilst að ríkisstjórnin sé líka á móti þessu. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skatthlutfall einstaklinga hefur hækkað verulega frá því að staðgreiðsla tekjuskatts var tekin upp. Enn fremur hefur tekjutenging færst í vöxt sem leiðir til þess að raunverulegur skattur hefur farið hækkandi. Stefna verður að lækkun skatthlutfallsins í kjölfar minni ríkisumsvifa og með endurskoðun sértækra skattafslátta og annarra ívilnana.``
    Ég er líka sammála þessu. Það hefur farið afar lítið fyrir þessari lækkun skatthlutfallsins. Ég tel það í sjálfu sér eðlilegt vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Það hefur hins vegar farið mikið fyrir hækkun skatthlutfallsins sem hefur jafnframt verið nauðsynlegt að nokkru marki en er í engu samræmi við málflutning Sjálfstfl. Það er hins vegar í nokkru samræmi við málflutning stjórnarandstöðuflokkanna fyrir síðustu kosningar. Þeir voru ekki að halda því fram að það væri hægt að stórlækka skatta.
    En síðan segir, með leyfi forseta, og við það er staðið því hér segir:

    ,,Tekjuskattshlutfall fyrirtækja þarf að lækka til samræmis við það sem gerist í viðskiptalöndum okkar þar sem það hefur lækkað mikið á undanförnum árum.``
    Þetta loforð er efnt því að hér er lagt til að tekjuskattur fyrirtækja lækki úr 39% í 33%. Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að lækka tekjuskatt fyrirtækjanna eitthvað til samræmis við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. En það er ekki það eina sem þarf að samræma. Það er að mínu mati miklu mikilvægara að koma í veg fyrir hækkun launatengdu gjaldanna sem leggjast á öll atvinnufyrirtæki án tillits til þess hvort þau eru með hagnaði eða ekki. Það á hins vegar ekki að gera og við í 2. minni hluta leggjum til að dregið sé úr lækkun á tekjuskatti og aukin lækkun á tryggingagjöldum.
    Síðan segir eftirfarandi, sem skal verða ein síðasta tilvitnunin í þetta rit, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skatthlutfall virðisaukaskattsins er hærra hérlendis en í flestum öðrum ríkjum. Skatthlutfallið heftir framtak og dregur úr skattskilum með því að hvetja til skattlausrar vinnu. Hátt skatthlutfall hefur enn fremur kallað á undanþágur. Eins og við mátti búast hefur hver ný undanþága síðan réttlætt enn fleiri undanþágur sem æ erfiðara verður að standa gegn. Á kjörtímabilinu er stefnt að``, og hvað kemur svo? ,,lækkun skatthlutfallsins með því að fækka eða afnema undanþágur. Áður er þó gert ráð fyrir úttekt á virðisaukaskattskerfinu og að gerð verði grein fyrir reynslunni fram að þessu.``
    Það vill svo til að ég er líka sammála þessu. En hvar er þessi úttekt? Og hvar hefur verið gerð grein fyrir reynslunni fram að þessu af hæstv. ríkisstjórn? Ég hef ekki fundið það. Ég hef hins vegar fundið úttekt frá hæstv. fyrrv. ríkisstjórn, dags. 31. júlí 1989, frá ríkisskattstjóraembættinu. Og ég hef líka fundið úttekt frá fyrrv. ríkisstjórn, dags. 6. nóv. 1990, um þetta viðfangsefni. Þrátt fyrir mikinn áhuga á þessu máli í fyrrv. ríkisstjórn leist mönnum ekki á blikuna eftir að þeir voru búnir að lesa þetta. En löngunin hefur verið til staðar til að gera þetta eftir sem áður vegna þess að menn hafa haldið fljótt á litið að þetta hlyti að vera mjög fínt mál og viljað trúa því innst inni að trúlega væri þetta hægt og þetta væru sennilega einhverjir úrtölumenn sem væru að reyna að draga úr mönnum kjarkinn. En þegar var farið að skoða betur, þá kom skynsemin upp í mönnum og m.a. hæstv. fyrrv. utanrrh., formanni Alþfl., sem hefur mikla reynslu í þessum málum. ( Forsrh.: Fyrrv. fjmrh.) Fyrrv. fjmrh. er hann. Ég var einum of fljótur á mér.
    Hæstv. núv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., þurfti að standa af sér mikið áhlaup 1987 og 1988 í þessu máli sem varð til þess að hann taldi að Sjálfstfl. hefði svikið hann og rekið rýtinginn í bakið á sér. En einhvern veginn tókst honum að snúa sér við þótt rýtingurinn væri komið í bakið að hans eigin sögn og ný ríkisstjórn var mynduð. Þar voru menn líka áhugasamir um að gera þetta en þeir stóðu það af sér. En hæstv. núv. fjmrh. virðist gersamlega hafa lekið niður í þessu máli og látið sér lynda að þetta væri ákveðið á einni nóttu þó búið væri að skrifa í stefnuskrána að það skyldi fara fram úttekt á þessu kerfi og gera grein fyrir reynslunni. Vinnan hefur greinilega öll farið í það að semja bækur um vaxtaskattinn til að halda mönnum við efnið, halda Alþfl. við efnið í því máli, og sýna þeim fram á að það væri verið að vinna í þessu þannig að hæstv. umhvrh. gæti verið rólegur meðan hann hefði eitthvað að lesa um þetta. En þeim datt ekki í hug að gera úttekt í þessu máli. Þar var bara eitt blað upp á eina og hálfa síðu og látið duga.
    En hvað með það markmið að lækka skatthlutfallið til þess að reyna að minnka skattsvik? Hvar er það? þeir eru líka hættir við það. Þeir eru á móti því og ætla að greiða atkvæði á móti því. Ég sé ekki betur en ríkisstjórnin sé fallin frá öllum stefnumálum sínum í skattamálum. Ríkisstjórn sem er fallin frá öllum sínum stefnumálum í skattamálum og hefur fjmrh. sem getur ekki barist fyrir þeim, hvað er hún að gera? Skrifa á jólakort? Ég vil ekki gera lítið úr því. Auðvitað þurfa hæstv. ráðherrar að senda kveðjur eins og annað fólk og ég veit að það er mikið að gera hjá þeim og ég hef fullan skilning á því að þeir noti tímann til þess að senda vinum sínum kveðjur. ( Fjmrh.: Þessum fáu sem eftir eru.) Já, þessum fáu sem eftir eru. En ég býst við því, hæstv. fjmrh., að vinunum mundi fjölga ef þú viðurkenndir það að þið væruð komnir af leið, stefnan væri týnd og hæstv. fjmrh. segði einfaldlega af sér. Þá hefði hann góðan tíma til að skrifa jólakort.
    Ég botna ekkert í svona. Getur það verið að þessi bók sé týnd og ekki eintök af henni í fórum hæstv. ráðherra? Ég sé að umhvrh. nikkar. ( Gripið fram í: Hún er uppseld.) Hún er uppseld. En var það svo að hæstv. ráðherrar þurftu að kaupa hana? Að vísu hefði hún orðið eitthvað dýrari vegna þess að nú er búið að leggja virðisaukaskatt á allar bókmenntir. Þetta mál er því allt með miklum eindæmum.
    Ég hef gert lítillega grein fyrir undirbúningi þessa máls. En það vildi svo til að það var þó skrifuð einhver greinargerð um málið í fjmrn. Það var skýrsla sem ekki mátti sýna. Hún var ekki skýrsla fjmrn. vegna þess að hún passaði ekki inn í rammann. Hún passaði ekki inn í það sem var verið að gera. Hún var ekki hagstæð því sem var verið að gera. Þetta er eins og var í Sovét. Það mátti ekkert skrifa nema það sem var ráðamönnum hagstætt. Í fjmrn. virðist vera ritskoðun og ef sérfræðingarnir skrifa eitthvað sem er ekki hagstætt stefnu ríkisstjórnarinnar eða afglöpum hennar, þá er því stungið undir stól. Ég frétti af þessari skýrslu og þegar ég var búinn að lesa þessa norsku skýrslu sá ég hvers konar afglöp þetta voru vegna þess að norska skýrslan fjallar um nákvæmlega sömu aðstæður og metur málið eingöngu út frá útgjöldunum. Þar er ekki þessi viðmiðun sem send var frá fjmrn. í lok mars á síðasta ári og ég veit að starfsmenn fjmrn. eru ekkert sérstaklega ánægðir með og vita um erfiðleikana í því þó að auðvitað sé alltaf einhver sannleikur í öllum útreikningum. En slíkir útreikningar eru að mínu mati ekki samanburðarhæfir.
    Síðan gerðist það að Alþýðusamband Íslands fékk þessa útreikninga, setti þá inn í sitt dæmi og birti m.a. í Vinnunni í nóvember sl. sem ég hef því miður ekki hjá mér. En það dæmi er því miður villandi og

beinlínis rangt vegna þess að kjarabótin sem er í því dæmi byggir á því að viðkomandi fjölskylda noti 46% eða milli 40--50% af tekjum sínum til matarkaupa. Það er ekki í samræmi við neina neyslukönnun. Engin neyslukönnun er til sem styður þá niðurstöðu. Þjóðhagsstofnun fer út í það að leggja mat á þetta út frá tekjum, sem ég tel mjög vandasamt að gera. Þar kemur fram að um er að ræða fjölskyldu með tekjur á bilinu 1 til 2 millj., þá vegi matvara 24,9% af tekjum, 2 til 3 millj. 19,6, 3 til 4 millj. 15,8, sem er svipað og í dæmi fjmrn. Ég er því ekkert að halda því fram að dæmi fjmrn. er beinlínis rangt. Það voru ekki mín orð. Ég tel hins vegar að slíkur samanburður sé hæpinn. Þetta er þess vegna sannleikurinn í þessu máli.
    Síðan komst ég að því að það mundi vera til skýrsla um málið. Hæstv. fjmrh. sagði að það væri ekki skýrsla fjmrn. og ég mátti ekki nota hana, en hún hafði nú samt komist til einhverra. Mér skilst að jafnvel einhver úr Alþfl. hafi fengið hana og séð ástæðu til að dreifa henni. Þar kemur fram að það sé lítil bót að þessu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu. Þar sem talað er um samanburð á tölum er verið að bera saman 23,1% almennan virðisaukaskatt á móti því að hafa tvö þrep 24,5% og 14% og áfram haldið að greiða niður matvæli. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Tölur þessar sýna að nær enginn munur er á því með tilliti til lægri tekna hvort lækkað er almennt hlutfall virðisaukaskatts eða virðisaukaskattur á matvæli. Mismunandi áhrif á neysluútgjöld eru um og innan við 0,0% sem er varla marktækur munur. Í tveimur tekjuhæstu flokkunum er munurinn nokkru meiri en sinn í hvora áttina.
    Við nánari skoðun á gagnagrunninum kom í ljós að kostnaður við eigin ökutæki er nokkuð afbrigðilegur í þessum tekjuhópum í úrtakinu. Sýnir hann að mestu þau sérstöku frávik sem fram komu og er því í aftasta dálki töflunnar sýnd lækkun útgjalda við almenna lækkun virðisaukaskatts að frádreginni lækkun kostnaðar við eigin bifreið af þeim sökum. Sýnir sig þá að nánast enginn munur er á áhrifum af lækkun almenna virðisaukaskattshlutfallsins á neysluútgjöld eftir tekjuhópum og er niðurstaðan í stórum dráttum hin sama og af lækkun virðisaukaskatts á matvælum.
    Sé litið svo á að sá munur sem mælist sé raunverulegur er hann svo óverulegur að hann getur hvergi réttlætt það að taka upp tveggja þrepa kerfi. Samkvæmt framangreindum mælingum væri hann um eða innan við 1000 kr. á ári á fjölskyldu í lægri helmingi tekjuskalans. Árleg heildarupphæð þessarar hjá öllum fjölskyldum í lægri helmingi tekjuskalans yrði innan við 40 millj. kr. á ári. Sú fjárhæð er um fjórðungur þess sem það kostar að lágmarki aukalega að reka og hafa eftirlit með tveggja þrepa kerfi og aðeins brot af því sem fullljóst er að tapast mun vegna aukinna skattundanskota.``
    Ég tel að það felist mikill sannleikur í þessum orðum en þau pössuðu ekki inn í rammann hjá ríkisstjórninni og þess vegna bar að stinga slíkum skýrslum undir stól og reyna að gæta þess að þær kæmust ekki í hendur Alþingis. En það tókst ekki sem betur fer.
    Eitt vil ég nefna til viðbótar í þessu máli og það er ágæt skýrsla sem fjmrn. hefur gefið út um umfang skattsvika og tillögur um aðgerðir gegn þeim. Sú skýrsla er margan hátt ágæt. Hver er aðalniðurstaðan í þeirri skýrslu? Hún er eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Niðurstaða nefndarinnar er sú að áætlaðar óframtaldar tekjur hafa numið sem samsvarar tæpum 4,25% af landsframleiðslu fyrir árið 1992. Þetta samsvarar því að um 16 milljarðar króna hafi ekki verið gefnir upp til skatts. Sennilegt tap ríkis og sveitarfélaga vegna þessara skattsvika, auk ofáætlaðs innskatts, er um 11 milljarðar króna. Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar er áætlað tekjutap hins opinbera á árinu 1992 svipað og á árinu 1985 á sama verðlagi`` --- eða um 11 milljarðar kr.
    Mér er ljóst að það mun aldrei verða hægt að byggja upp svo gott skattkerfi að hægt sé að koma í veg fyrir öll skattsvik. Það er því miður staðreynd. En okkur ber skylda til að byggja upp skattkerfi sem dregur sem mest úr skattsvikum því þau eru mesta þjóðfélagslega óréttlætið sem viðgengst hér á landi og víða annars staðar. Það er mikið af ágætum tillögum í þessari skýrslu í því sambandi. Þar segir t.d., svo lesnar séu fyrirsagnir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skattalög þarfnast einföldunar.`` Er verið að gera það? Nei. ,,Gæta þarf þess að einstakir skattstofnar séu ekki ofnýttir.`` Er verið að gera það? Nei. ,,Fækka þarf skatttegundum.`` Það er í reynd verið að taka upp nýja tegund af skatti og ríkisstjórnin hóf þá iðju sína á síðasta ári með því að taka upp nýtt 14% hlutfall. Það var upphafið að þessu. Það var ríkisstjórnin sem hóf það. Það var ekki verkalýðshreyfing eða vinnuveitendur sem kröfðust þess að tekið yrði upp nýtt 14% stig. Það var ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem gerði það. ( Umhvrh.: Með samþykki Framsfl.) Og auðvitað vissu menn að það mundi leiða til þess að reynt yrði að koma fleiri vörutegundum og þjónustu í það þrep. ( Fjmrh.: Fyrri ríkisstjórn.) Fyrri ríkisstjórn? ( Fjmrh.: Það sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um daginn.) Það er rangt. Fyrri ríkisstjórn tók aldrei upp 14% virðisaukaskatt mér vitanlega. ( Fjmrh.: Endurgreiðslu . . .  ) Það er rétt. Það var ákveðið til þess að þurfa ekki að gera þetta að fara út í það. Og það er einmitt það sem norska skýrslan leggur til. Það er rétt stefna. Ég var sammála þeirri stefnu þá og er það enn.
    Hæstv. umhvrh. spurði: Hvað samþykkti Framsfl.? Hann virðist vera meiri áhugamaður um það en reyna að koma í veg fyrir það sem þarna er verið að gera. ( Umhvrh.: Mér er umhugað um Framsfl.) Já, ég veit það, hæstv. ráðherra. En það er ekki það sem skiptir meginmáli í þessu máli að vera umhugað um flokka. Það sem skiptir máli í þessu máli er að vera umhugað um almenning og hag samfélagsins. Það hefur einstaka sinnum komið fyrir Framsfl. að hans ályktanir hafa ekki alveg verið réttar. Það hefur komið fyrir að við höfum haft rangt fyrir okkur einstaka sinnum. En ég vil taka það fram af þessu tilefni að það sem

við í 2. minni hluta erum að leggja til og undir rita fulltrúar Framsfl. og Kvennalistans í nefndinni, m.a. með tilliti til þess að það hefur verið mikið áhugamál beggja þessara flokka að lækka verð matvæla og oft hafa komið slíkar ályktanir frá Kvennalistanum, er að lækka matvælakostnaðinn. Við viljum hins vegar að þeirri vinnu verði haldið áfram og í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að sett verði upp nefnd sem kanni kosti og galla tveggja þrepa virðisaukaskatts og yfirfari reglur um vaxtabætur, persónuafslátt og barnabætur. Jafnframt yrði verkefni nefndarinnar að fara yfir tillögur um skatta á fjármagnstekjur og eignarskatt af fjármagnseignum.
    Með þessu erum við að leggja áherslu á það, hæstv. umhvrh., að við viljum ekki alveg útiloka þessa leið, en ég vil taka það fram fyrir mína hönd persónulega að ég vil útiloka hana vegna þess að ég er alveg sannfærður um að hún er röng. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að leggja nokkurt starf í þetta til þess að stjórnmálaflokkarnir og aðilar vinnumarkaðarins fái ráðrúm til að fara betur ofan í þetta. Það er afar auðvelt að álykta sem svo að við það að taka upp tvö þrep muni hagur almennings batna. Það eru mjög margir í samfélaginu sem hafa þá skoðun án þess að hafa fengið rétt grunngögn um málið. Það er kannski von að almenningur í landinu sé þessarar skoðunar þegar í landinu er ríkisstjórn sem breytir virðisaukaskattinum án þess að líta neitt á málin og telur að hægt sé að gera það einn, tveir og þrír. Það er einstaka maður sem heldur að núv. ríkisstjórn hafi einstaka sinnum rétt fyrir sér. Það er nú svo merkilegt. Ég á hins vegar von á því að þeim fari heldur fækkandi. Þó að skoðanakannanir hafi upp á síðkastið heldur farið upp á við, þá held ég að það muni ekki standa lengi. ( Umhvrh.: Ekki hjá Alþfl.) Ekki hjá Alþfl. Það er eitthvað eftir þar. En þeir munu sennilega ná því upp þegar þeir fara að kynna nýju reglurnar um strætisvagnana og möguleikum byggðanna á Austurlandi að fá slík farartæki. Sérstaklega á Egilsstöðum. Það væri gott að hafa svona strætó á veturna til þess að fara á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða yfir Fjarðarheiði. ( Gripið fram í: Til Vopnafjarðar.) Já, það er alveg rétt að það þarf rútur á milli staða. En hver á að vera virðisaukaskatturinn á þeim rútum? Mér skilst að hann eigi að vera 14%. En þær rútur verða ekki skilgreindar sem strætó.
    Það er með eindæmum hvað hæstv. ríkisstjórn er tilbúin að gera fyrir þennan borgarstjórnarmeirihluta hér. Það er kannski vegna þess að það stóð einhver von til þess að þeir stæðu við eitt kosningaloforð.
    En vegna ummæla hæstv. umhvrh. vildi ég segja að málið er með þessum hætti og við þurfum einfaldlega meiri tíma. Af hverju gefum við okkur ekki meiri tíma? Er það vondur kostur fyrir launþega, atvinnulíf, ríkissjóð og þjóðarhag að fresta þessu máli, setja niður nefnd og samþykkja þær tillögur sem 2. minni hluti nefndarinnar leggur til? Nei, það er ekki vondur kostur. Það er mjög góður kostur. Og það þarf í sjálfu sér ekki neitt að rökstyðja það. En það skiptir engu máli hvað sagt er. Ég er hins vegar sannfærður um að þegar þetta mál hefur verið skoðað og saga þess og tilurð mun dómurinn verða sá að hér hafi átt sér stað gífurleg mistök. --- Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort það muni verða gert nokkurt matarhlé.
     (Forseti (VS): Forseti vill upplýsa að það verður gert hér matarhlé milli kl. 1 og 1.30.)
    Já. ( Fjmrh.: Við getum þér borið mat í stólinn líka.) Virðulegur forseti. Ég spurði ekki vegna þess að ég hafi ætlað mér að halda mikið lengur áfram máli mínu. Ég vil þó aðeins víkja sérstaklega að skattlagningu ferðaþjónustunnar við þessa umræðu vegna þess að ég tel það vera svo mikilvægt mál að ég vildi gera því nokkur skil strax við þessa umræðu, en geyma ýmis önnur mál þessu tengd þar til í seinni ræðum mínum síðar í umræðunni.
    Margir aðilar hafa haft samband við efh.- og viðskn. út af skattlagningu veitinga- og gistihúsa, hótela, ferðaskrifstofa, innanlandsflugs, hópferða o.s.frv. Þau lagaákvæði sem þar eru tekin til endurskoðunar voru sett fyrir ári síðan en þau voru ekki betur úr garði gerð en svo að nú þarf að lagfæra þau og enn er framkvæmdin í óvissu. T.d. að sundurliða algerlega þjónustu ferðaskrifstofa vegna þess að skatturinn verður þar með mismunandi hlutfalli. Einn skattur á gistingu og morgunmat að vísu. Annar á veitingar nema morgunmat, þ.e. ef morgunmaturinn er innifalinn í gistingunni, þá er það í lægra skattþrepi. Ef menn neyta veitinga í veitingahúsum á jörðu niðri, þá er það með 24,5% virðisaukaskatti. Ef menn keyra upp á fjöll og opna þar einhvern fínan matarbíl með þjónustu og öllu tilheyrandi, þá er það með 14% virðisaukaskatti. Ef menn fara að veiða og kaupa gistinguna með veiðileyfinu, þá verður enginn virðisaukaskattur af því. Þetta verður þokkalegt að framkvæma. ( Gripið fram í: En í göngunum?) Þá verður væntanlega nestið með lægra þrepinu.
    Þetta skapar mjög mikil vandamál og það skapar mikil vandamál hjá ferðaskrifstofunum að sundurliða þessa þjónustu og er nánast ekki hægt. Það er oft og tíðum þannig að ferðir eru seldar með virðisaukaskatti og ekki gott að segja til um hvernig slíkur pakki er samsettur. Auðvitað verður tilhneiging til þess að færa eitthvað af pakkanum í lægra þrepið eða selja þá þjónustu dýrari og hina ódýrari. Það er það sem gerist í öllum venjulegum tilvikum eins og þessum, því miður. Framkvæmdin mun því verða með einhverjum ósköpum. Þetta hafa aðilar lagt áherslu á.
    Nú fer þorrinn í garð og að líður brátt að því að almenningur í landinu fer að kaupa sér þorramat. Það eru verslanir hér í bænum sem selja tilbúinn þorramat og munu væntanlega fara að auglýsa hann mjög fljótlega með 14% virðisaukaskatti en veitingahúsin selja líka tilbúinn þorramat, m.a. veitingahús sem sér Alþingi fyrir mat. Þar á virðisaukaskatturinn að vera 24,5%.

    Er þetta að tryggja jafna samkeppnisstöðu í atvinnurekstri? Þetta er slíkt óréttlæti að það tekur engu tali. En það eru svona vandamál sem koma upp og eru í reynd óleysanleg.
    Ég vil aðeins, hæstv. forseti, vitna hér í greinargerð frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sem kunnugt er blómstra viðskiptin í neðanjarðarhagkerfinu og mun vanta um það bil 11 milljarða í ríkiskassann samkvæmt nýrri skýrslu skattsvikanefndar. Talið er víst að veitingarekstur sé þar ofarlega á blaði.``
    Þetta segir í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsa, að það sé talið víst að veitingarekstur sé þar ofarlega á blaði. Það þarf nokkuð til til þess að samtök atvinnurekenda lýsi því yfir að skattsvik séu mjög algeng í þeim atvinnurekstri. Það er hins vegar afar virðingarverð hreinskilni að koma með slíka yfirlýsingu. Síðan segir:
    ,,Ofangreind tillaga er gífurleg búbót fyrir svarta markaðinn sem ekki greiðir útskatt en situr þó uppi með innskattinn. Ef umrædd hugmynd nær fram að ganga lækkar kostnaður þeirra umtalsvert``, þ.e. þessara á svarta markaðnum, ,,og samkeppnisstaða þeirra gagnvart veitingahúsum sem skila sköttum og gjöldum verður mun tryggari en áður.``
    Niðurstaðan er sú að mati þessara samtaka að þetta muni styrkja sérstaklega skattsvikarana í greininni og verða þeim gífurleg búbót. Mér skilst að það sé svo mikilvægt að styrkja skattsvikarana í þessari grein að það verði að lögfesta þetta fyrir jól og þótt fyrr hefði verið.
    Síðan segir áfram í þessari umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Flóknari skattareglur, mismunun fyrirtækja sem selja sömu vöruna og hagræðing fyrir svarta markaðinn. Allt stingur þetta átakanlega í stúf við þá stefnu sem við héldum að væri uppi.``
    Gæti verið að þessi ágætu samtök hefðu eignast þessa bók og hefðu geymt hana og lesið hana? Það virðist vera að þeir hafi áttað sig á stefnu ríkisstjórnarinnar og gengið út frá því að þessi stefna væri uppi.
    ,,Því vill Samband veitinga- og gistihúsa beina því til efh.- og viðskn. að íhuga málið vel og gæta þess að sambærileg fyrirtæki í landinu sitji við sama borð. Er ekki líka kominn tími til að hlúa að fyrirtækjum sem lifa ofanjarðar í stað þess að gefa þeim enn eitt sparkið?``
    Ég ætla ekki að vitna frekar í þessa umsögn en þar er með skilmerkilegum hætti tekið dæmi um áhrif þessarar skattlagningar á samkeppnisstöðu veitingahúsa annars vegar og matvöruverslana hins vegar og ætti þessi tilvitnun að vera nóg í því sambandi.
    Þá vildi ég næst víkja aðeins að fólksflutningunum. Það stendur til, eins og ég hef áður getið um, að leggja skatt á fólksflutninga innan lands en ekki á þá sem fara erlendis. Það er ekki hægt vegna þess að þá raskast samkeppnisstaða Íslendinga gagnvart öðrum flugfélögum, en nú á sérstaklega að leggja skatta á þá sem ferðast innan lands en ekki þá sem fara erlendis. Við vorum upplýst um það í efh.- og viðskn. að sama daginn og ákvörðun var tekin um þennan nýja skatt á ferðaþjónustu hefði samgrn. gefið út nýja stefnu sem gengur út á það að hvetja íslenskar fjölskyldur til ferðalaga innan lands og gefinn út vandaður bæklingur í því sambandi. En hvað mun gerast í því? Að sjálfsögðu mun draga úr því að Íslendingar ferðist innan lands og þeir munu auka ferðalög sín erlendis. Það mun líka draga úr því að útlendingar komi hingað. Þeir munu frekar fara þangað sem ódýrara er. Þetta er algerlega í andstöðu við þjóðarhag og á eftir að koma betur í ljós.
    Að því er varðar innanlandsflugið og fólksflutningana, þá á það sér langa sögu, endurgreiðsla eða niðurfelling á söluskatti og síðan virðisaukaskatti í þeirri grein. Ég veit ekki betur en þegar virðisaukaskattskerfið var tekið upp á sínum tíma, þá hafi verið um það ágætissamstaða meðal stjórnmálaflokkanna hér í landinu og flokkarnir allir með tölu hafi talið rétt að taka upp það kerfi með ákveðnum undanþágum. Ég man ekki eftir neinum ágreiningi í sambandi við ferðaþjónustu og fólksflutninga. Það var talið eðlilegt að taka þessar greinar ekki inn í kerfið, m.a. vegna þess hvað eftirlit þar er á margan hátt erfitt, hversu margir aðilarnir eru og líka vegna samkeppnisstöðunnar við aðrar þjóðir.
    Nú hefur það verið ákveðið að þetta skuli gert, og var reyndar ákveðið fyrir ári síðan, en þá ákveður ríkisstjórnin það að lækka þessa skattlagningu sérstaklega á almenningsvögnum innan bæjar. Nú vil ég taka það fram að ég er sammála þeirri stefnu að ekki sé lagður virðisaukaskattur á þjónustu almenningsvagna. Ég tel mjög mikilvægt að þessi þjónusta sé sem ódýrust vegna þess að það hvetur til slíkra samgangna sem eru þjóðhagslega hagkvæmar. Eftir því sem fleiri nota almenningsvagna þeim mun meiri sparnaður er það fyrir samfélagið. Það er því rétt að hafa þessa þjónustu á lágu verði og sem betur fer er aukning hjá almenningsvögnunum þannig að nú ferðast fleiri og fleiri með þeim. En síðan hefur ríkisstjórnin ákveðið þetta á grundvelli 42. gr. laga um endurgreiðslu virðisaukaskatts, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. getur ákveðið með reglugerð að endurgreiða ríkisstofnunum, ríkisfyrirtækjum og sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum.``
    Þá er nú rétt að líta til þess í þeirri reglugerð sem hefur verið gefin út um þetta mál hvað eru þjónustufyrirtæki en þar segir í 2. gr. eftirfarandi:
    ,,Með þjónustufyrirtæki í þessari grein er átt við fyrirtæki sem rekin eru af sveitarfélögum eða í sameign þeirra, svo sem hitaveitur og rafveitur, svo og ríkisfyrirtæki og fyrirtæki í sameign ríkis og sveitarfélaga. Starfsemi vatnsveitna og hafnarsjóða telst ekki til skattskyldrar starfsemi í þessu sambandi nema að því leyti sem um er að ræða sölu á vörum eða skattskykldri þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.``
    Hugsunin í þessum ákvæðum sem er staðfest með minnisblaði fjmrn. sem ber yfirskriftina ,,Styrkir opinberra aðila við skattskyld þjónustufyrirtæki`` er sú að það sé jafnræði milli atvinnufyrirtækja á frjálsum markaði og þeirra fyrirtækja sem styrkt eru af ríki og sveitarfélögum. Ég tel það vera eðlilega hugsun. En ég vil endurtaka það að ég efast mjög um lagastoð þessarar ákvörðunar. Ég vil ekki ganga svo langt að segja að það sé beinlínis ólöglegt vegna þess að ég hef ekki fengið lögfræðiálit um það, mun væntanlega fá það, en samkvæmt minni takmörkuðu þekkingu á þessum málum get ég ekki skilið hvernig þetta verður rökstutt. Og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. muni útskýra það fyrir þingheimi. Ég er hins vegar sannfærður um að það er mun réttara og eðlilegra að breyta lögunum ef á að taka þessa ákvörðun og leita skýrrar lagaheimildar.
    Ég hef aldrei áttað mig á því fyrr að það væri hægt að líta á greiðslu á halla fyrirtækis sem þjónustu. Og það er ansi langt gengið þegar því er haldið fram að sveitarfélagið sé með því að greiða fyrir þjónustu allra borgaranna. Borgararnir fá ekki virðisaukaskattinn endurgreiddan. Ef einhver kemur til með að greiða 100 kr. fyrir ferð með almenningsvagni, þá getur hann ekki gengið niður í fjmrn. og fengið 14 kr. endurgreiddar, að sjálfsögðu ekki. En mér skilst að sveitarfélögin munu geta gengið niður í fjmrn. og fengið þessar 14 kr. endurgreiddar. Þá verður það þannig að eftir því sem tapið verður meira á þessu, þeim mun meira verður endurgreitt á þeim grundvelli að það sé verið að veita sveitarfélaginu þjónustu. Ég skil það og fellst á að þetta eigi við um ef verið er að borga fyrir flutning skólabarna og fatlaðra. Það er þjónusta sem veitt er og sveitarfélagið hefur tekið að sér. Ég tel að það gildi öðru máli og ég fellst á það að þessi lagagrein veiti slíka heimild, er sammála því. En ég fæ ekki skilið hvernig hægt er að ganga lengra í þeim efnum.
    Varðandi gistinguna tel ég mjög skaðlegt svo að ekki sé meira sagt að leggja virðisaukaskatt á gistingu þó að það sé enn skaðlegra að leggja hann á fólksflutningana og ferðaskrifstofurnar bara vegna framkvæmdarinnar. En virðisaukaskatturinn á gistinguna mun að sjálfsögðu draga úr gjaldeyristekjum og það er röng efnahagsleg ákvörðun um þessar mundir þegar við þurfum á því að halda að auka atvinnuna að gera slíkan hlut. Og við bíðum enn eftir því að hæstv. samgrh. flytji okkur upplýsingar um það mál og skýri okkur frá því hvernig hann hefur hugsað sér að taka á málum, m.a. með tilliti til þess hvernig nú horfir í ferðaþjónustu.
    Ég vildi áður en ég lýk máli mínu vitna til þess sem tekið er saman í þessari norsku skýrslu um þetta mál en niðurstaðan er í stuttu máli sú að lækkun skatts á nauðsynjavörur sé áhrifalítil aðferð til tekjujöfnunar og aðrar aðferðir séu skilvirkari. Það er meginniðurstaða þessarar skýrslu. Ef menn stefna að því að jafna tekjurnar í landinu, sem ég er sammála, ég er sammála því markmiði, þá verða menn að nota þær aðferðir sem duga til þess en ekki einhverjar hókus pókus aðferðir.
    Niðurstaðan er líka sú að frá sjónarmiði tekjujöfnunar séu ekki síðri rök fyrir því að leggja hærri skatt á lúxusvörur en lægri skatt á nauðsynjavörur, þ.e. ef menn vilja ganga þessa leið, þá sé betra að reyna að finna lúxusvörur og setja þær í enn hærra þrep til þess að jafna tekjurnar vegna þess að efnameira fólkið kaupir þær vörur. Gallinn er hins vegar sá við slíka leit að það er mjög mikið um það að slíkar vörur séu keyptar í öðrum löndum og verslunin fari því út úr landinu og vegna þess hvað Íslendingar lifa orðið í alþjóðlegu umhverfi er mjög erfitt fyrir okkur að vera með allt aðra skattastefnu í slíkum málum en löndin hér í kringum okkur. Það er líka niðurstaða þessarar nefndar að aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu og hugsanleg aðild Noregs að EB takmarki á engan hátt möguleika Noregs til þess að reka sjálfstæða skattapólitík. Að vísu geti þátttaka í EB þýtt takmarkanir. T.d. verði Noregur að viðhalda þeim lágmarkshlutföllum sem sett eru þar í skattlagningu og niðurstaðan varð því sú þegar allt var metið, að það séu ekki sterk rök fyrir því að taka upp mishá skatthlutföll. Þetta er á margan hátt mjög merkilegt vegna þess að því hefur verið haldið mjög sterkt fram í umræðunni að Íslendingar þyrftu að elta nágrannaþjóðirnar í þessu sambandi. Sumir hafa haldið því fram að kerfið á Ítalíu sé sérstaklega gott í þessu sambandi. Þar eru ótal flokkar, margir skattflokkar og þetta er allt saman þannig að það er úr miklu að velja á Ítalíu. En það vill nú svo í því landi, Ítalíu, að það gengur illa að innheimta skatta þar og það hefur komið í ljós að Ítalir eru ekkert sérstaklega heiðarlegir í skattamálum. Og það hefur ekki tekist að ráða við það þrátt fyrir nokkuð öflugt eftirlit. Í þessu sambandi er fróðlegt að líta til þess sem við fengum upplýst í sambandi við eftirlit að hér á landi starfar einn starfsmaður á hverja 432 skattaðila. Í Danmörku og Svíþjóð er þetta þannig að það er einn á hverja 250. Í Bretlandi er hlutfallið töluvert lægra eða 1:149 og í Frakklandi 1:173. En ef eingöngu er litið á hlutfallið í Danmörku þá eru 414 aðilar á hvern starfsmann í eftirliti og 517 á hvern starfsmann við framkvæmd. Síðan segir við úttekt á þessu máli:
    ,,Eftirtektarvert er að auk þess sem færri starfsmenn hér á landi sinna skattinum er þessi mismunur hvað mestur er eftirlitið varðar sé t.d. borið saman við Danmörku sem er með eitt skatthlutfall í sínu kerfi. Einnig vekur athygli afgerandi mismunur milli Danmerkur og landa með fjölþrepakerfi.``
    Það er sem sagt ljóst að það hefur þurft að fjölga svo í skattkerfinu í þessum löndum sem eru með mörg skatthlutföll að það vekur mjög mikla athygli. Bretar hafa nýlega gert úttekt á sínu kerfi og niðurstaðan er sú að það sé mikilvægt að samræma það. Þar er enginn virðisaukaskattur á barnaföt og það hefur verið talið til fyrirmyndar. ( Gripið fram í: Svo er.) Er það til fyrirmyndar? Það er ekki til fyrirmyndar.
    Skýrslan breska kemst að þeirri niðurstöðu að það sé að sjálfsögðu skynsamlegast að hafa fullan skatt á barnafötum og nota sömu fjárhæð til þess að hækka barnabætur því það muni gagna lágtekjufjölskyldunum. Í fljótu bragði er almenningur mjög hrifinn af því að það skuli ekki vera neinn virðisaukaskattur á barnafötum. Það finnst mönnum mjög til fyrirmyndar ef ekki er farið lengra í umræðunni. En þegar menn hugsa aðeins betur, gæti þá ekki verið að lágtekjufólkið eigi erfitt með að kaupa mikið af barnafötum. Gæti ekki verið að lágtekjufólkið þyrfti að sætta sig við ódýrari fatnað fyrir sín börn og sauma meira heima, gera meira við fötin og nýta hlutina betur á meðan þeir sem hæstu tekjurnar hafa kaupa dýrari barnaföt, meira af þeim og eru ekkert að hugsa um þótt komi einn og einn blettur og gat, þeim sé einfaldlega hent. Þetta er niðurstaðan. Og þess vegna þykir það eðlilegt í Bretlandi núna að leggja virðisaukaskatt á barnaföt og hækka barnabætur, sérstaklega til lágtekjufólksins, þannig að lágtekjufólkið geti boðið sínum börnum betra líf og gert meira fyrir þau. Þetta eru nú svo einföld rök að það þarf bara að segja þetta við fólk sem heldur því fram að það sé sérstaklega hagstætt að hafa engan skatt á barnafötum. En það virðist ekki vera til nein þekking í núverandi ríkisstjórn til þess að halda þessu fram og hún virðist ekki hafa neina burði í sér til þess að halda utan um öruggt skattkerfi og ætlar nú að taka upp breytingu sem er ekki undirbúin og mun verða kærkomin fyrir skattsvikarana í landinu. Það er helsta gagnið sem ég sé af þessari breytingu fyrir ,,atvinnulífið``. Það mun auka óréttlætið í þjóðfélaginu og það er skelfileg niðurstaða.
    Virðulegur forseti. Ég hef eytt nokkrum tíma í þetta mál sem hér hefur verið tekið á dagskrá og ég á í reynd mikið eftir ósagt. En ég geri mér grein fyrir því að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leyfa sér að tala lengi á hv. Alþingi um þetta mál vegna þess að aðrir þurfa að komast að og skal ég nú flýta mér sérstaklega því ég sé að hæstv. umhvrh. vill fá orðið og ég fæ líka tækifæri til þess að koma ýmsu því sem ég hef ekki getað komið að í þessari fyrstu ræðu minni í málinu og ég vil því stytta mál mitt, en leggja áherslu á að þær tillögur sem við flytjum í 2. minni hluta og aðrir nefndarmenn munu gera betur grein fyrir hér í umræðunni eru ábyrgar. Þær eru hagstæðari ríkissjóði, þær eru hagstæðari launafólki og þær eru hagstæðari samfélaginu og þær skjóta ekki mörg göt á skattkerfið sem er mjög mikilvægt, þ.e. ef við ætlum að gera eitthvað með þessa skýrslu hér um umfang skattsvika og tillögur um aðgerðir gegn þeim. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég veit ekki af hverju er verið að vinna þessar skýrslur í fjmrn. Hvaða gagn er í því að skrifa skýrslur ef ekki er reynt að koma niðurstöðum þeirra í framkvæmd? Fyrir hvern er verið að skrifa þetta? Er þetta atvinnubótavinna? Það er líka rétt að þessi nýja skipun mun verða til þess að 26--28 menn munu fá vinnu við að framkvæma þetta nýja kerfi. Ætli þeir væru ekki betur komnir í það að fara beint í að rannsaka skattsvik í kerfinu eins og það er? Þeir fara ekki í það. Nei, þeir fara í það að skoða nýjar skýrslur og skrifa ný eyðublöð og búa til nýja pappíra. Það verður þeirra vinna. Eina gagnið fyrir samfélagið af þeirri iðju er að þessar 28 persónur munu fá atvinnu og þar með munu e.t.v. verða nokkru færri á atvinnuleysisskrá að því leytinu til. Hins vegar mun fjölga á atvinnuleysisskránum vegna annarra áhrifa af þessum vitlausu tillögum sem stendur til að fara að reyna að lögfesta hér.