Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 12:51:13 (2918)


[12:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir ágæta og efnislega ræðu og mér gefst áreiðanlega síðar í þessum umræðum tækifæri til þess að svara eða ræða þau efnisatriði sem komu fram í hans ræðu. Á þessu stigi málsins kýs ég þó að binda mál mitt við eitt efnisatriði sem hann nefndi, þar sem hann sagði að það yrði mjög erfitt fyrir kaupmenn og verslunarfólk nú um jólin að undirbúa sig undir þá breytingu sem í hönd fer um áramót ef þetta frv. verður að lögum. Í því sambandi held ég að við verðum að hafa það í huga að bæði Kaupmannasamtökin og samtök verslunarmanna stóðu að því samkomulagi sem þetta frv. byggist á. Verslunarmenn í Alþýðusamband Íslands og fulltrúar þeirra, bæði formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og formaður Landssambands verslunarmanna, hafa ítrekað sagt að þetta sé forsenda kjarasamnings. Hins vegar eru Kaupmannasamtökin í Vinnuveitendasambandinu þannig að það er ekki hægt að saka ríkisstjórnina um það að hún sé að efna til aðgerða sem sérstaklega sé ætlað að spilla fyrir því fólki sem hefur aðild að þessum tvennum samtökum. Þetta vildi ég að kæmi strax fram.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, hlýtur það auðvitað að vekja mikla athygli að stjórnarandstaðan er klofin í þessu máli þannig að hv. þm. sem talaði um mjög margt skynsamlega talaði ekki fyrir hönd Alþb. í hv. nefnd.