Prestssetur

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:07:32 (2992)


[00:07]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna ræðu hv. þm., þá tel ég ekki að það sé nóg að fram fari vönduð málsmeðferð og mikil umræða úti í bæ um þau frumvörp sem hér eru lögð fram. Alþingi væri ekki starfi sínu vaxið ef það fjallaði ekki ítarlega og vel sjálft um málin sem koma til kasta þess. Og ég vil taka það sérstaklega fram að sú umræða sem hér hefur farið fram, bæði innan allshn. undir erfiðum kringumstæðum og eins hér í þinginu, hefur borið árangur. Hér hefur verið breytt atriði sem við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lögðum m.a. áherslu á og því getum við dregið okkar tillögu til baka í þeim efnum. En ég ítreka það, ásamt fleirum, að enn er ekki lokið því verki sem er verið að vinna og ég tel heppilegt að sé verið að vinna, um aukið sjálfstæði kirkjunnar sem ég er í grundvallaratriðum sammála.