Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:24:37 (3024)


[09:24]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að sjálfsögðu rétt að efh.- og viðskn. taki þetta mál fyrir og fari ofan í það. Ég vil jafnframt benda hæstv. fjmrh. á þá staðreynd að það hefur verið fjárfest mjög mikið í gistihúsum hér á landi á undanförnum árum. Þessir aðilar hafa borgað virðisaukaskatt af þessu gistirými. Þetta skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli vegna þess að við ákvörðunina mun koma veruleg mismunun. Það er mikið af gistirými ónýtt, sem ekki er not fyrir í landinu, og það er mikið á að sækja í sambandi við það að fá fleiri ferðamenn til landsins.
    Það hefur á engan hátt verið gerð tilraun til að reyna að taka tillit til þessarar staðreyndar. Hæstv. samgrh. hefur annað slagið rætt þetta mál m.a. við mig og ég vænti þess að í störfum nefndarinnar sé fjmrn. tilbúið til að veita upplýsingar um þennan þátt málsins. Ég ætla ekki hér í þessu andsvari að fara að ræða við hæstv. fjmrh. um kerfisbreytinguna almennt en ég veit það að hæstv. fjmrh. gerir sér það ljóst að hér er um stórslys að ræða.