Tekjustofnar sveitarfélaga

68. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 14:12:25 (3063)


[14:12]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er eiginlega með ólíkindum hvað stuðningsmenn einnar stjórnar geta látið leiða sig langt. Í hvaða tilgangi? Í þeim tilgangi að létta borgarfulltrúum Sjálfstfl. í Reykjavík störfin í vetur. Það er verið að taka frá þeim þann kaleik að ákveða sjálfir að hækka gjöldin eins og þörf er á fyrir Reykjavíkurborg. Það er ekkert annað sem verið er að gera og létta þeim kannski að einhverju leyti baráttuna fyrir kosningarnar í vor. Hvers vegna eru stjórnarliðar að taka þátt í þessum leik og gera um leið hluti sem hafa áhrif? Hvaða þýðingu hefur það t.d. að fyrirskipa sveitarstjórn Skilmannahrepps að hækka útsvarið úr 3% í 8,4%? Að nærri þrefalda það sem kemur inn í sveitarsjóð á þeim stað. Það er enginn greiði við Akranes. Það vita allir að þessum peningum verður skilað með einhverjum hætti til baka til fólksins. Þetta er bara hreint og klárt rugl (Forseti hringir.) sem stjórnarliðar eru að taka að sér ( Forseti: Tíminn er búinn.) fyrir meiri hlutann í Reykjavík. ( Forseti: Hvað segir þingmaðurinn?) Ég segi nei.