Skattamál

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 23:10:03 (3110)


[23:10]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég harma að það skuli vera ásetningur stjórnarflokkanna að keyra það áfram á Alþingi því augljóst er að slík ákvörðun er óskynsamleg.
    Við framsóknarmenn höfum undanfarnar vikur og alveg síðan okkar miðstjórnarfundur var haldinn í haust reynt að halda því fram, eftir því sem við höfum getað, að hér ætti að snúa af leið. Það hefur hins vegar tekið okkur langan tíma að fá öll nauðsynleg gögn í þessu máli og þau hafa ekki verið auðfengin og margt af því sem sagt hefur verið hefur beinlínis verið villandi. Fólk hefur ekki verið upplýst um þetta mál og það er eðlilegt að menn trúi því við fyrstu sýn að það hljóti að vera betra fyrir almenning að hafa 14% virðisaukaskatt á öllum matvælum. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að neyslukannanir sýna að matvælin eru álíka stór þáttur í útgjöldum fjölskyldnanna, jafnvel þótt tekjur séu misjafnar. Það á þó ekki við um hæstu tekjuhópana. Þessar staðreyndir tala sínu máli og það er niðurstaða allra sem hafa farið ofan í þetta mál, bæði hér á landi og erlendis að undanförnu, að það sé mun betri leið að beita öðrum tækjum til tekjujöfnunar í samfélaginu og hjá öðrum þjóðfélögum eins og Norðmönnum, Svíum, Bretum og mörgum fleirum.
    Við erum ekki einir um það að setja fram þessa gagnrýni og ég vil í þessu sambandi koma með enn ein varnaðarorðin. Þann 15. desember 1993 sendi Félag löggiltra endurskoðenda frá sér umsögn um þetta mál. Það er sú stétt í okkar þjóðfélagi sem vinnur mest að skattamálum og í daglegum störfum sínum eru allir þeir aðilar í margvíslegum verkefnum sem snerta framkvæmd skattamála. Hjá þeim starfar nefnd í skattamálum þar sem eru mjög hæfir menn með langa reynslu og góða þekkingu. Þessi nefnd segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndir telur að í frv. felist svo víðtækar og tæknilega flóknar breytingar á lögum um virðisaukaskatt að það sé vart forsvaranlegt að ætlast til þess að þær komi til framkvæmda nokkrum dögum eftir að frv. verður hugsanlega að lögum. Með þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir væri stigið stórt skref gegn upphaflegum markmiðum skattsins og kostum hans, svo sem hlutleysi hans og öryggi, skref sem erfitt verður að stíga til baka. Framkvæmd kerfisins verður mun erfiðari, hlutleysi skattsins raskast, eftirlit verður flóknara og kostnaðarsamara og meiri óvissa verður um mörkin milli skattskyldu og skattleysis í nokkrum tilvikum. Er hér að nokkru horfið aftur til galla eldra söluskattskerfisins um leið og þessu mikilvægasta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er unnið óbætanlegt tjón.``
    Þetta eru stór orð, að halda því fram að það standi til að vinna óbætanlegt tjón á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Fagmenn sem hafa lært það í sínu námi að þeir verði að leggja hvað mesta áherslu á hlutleysi og vera varkárir í yfirlýsingum nota ekki mjög oft orðið óbætanlegt tjón. Þetta staðfestir að mínu mati að sú gagnrýni sem við höfum haft í frammi að undanförnu er réttmæt.
    Ég vildi aðeins að lokum taka það fram að við væntum þess að ríkisstjórnin íhugi þetta mál betur, horfi til baka og horfi sérstaklega fram og hugsi um að hvað svo sem líður því hvað menn vilja gera, þá verður erfitt að stíga skrefið til baka. Ég er hins vegar viss um að það verður reynt að gera það og ég er viss um að við framsóknarmenn viljum standa að því. En það verður líka kostnaðarsamt að stíga skrefið til baka. Og þegar sú ákvörðun verður tekin að stíga skrefið til baka, þá verða menn að meta þann kostnað á móti öllu því tapi sem hefur orðið vegna kerfisins og því tapi sem mun verða til lengri framtíðar. Því þessi ákvörðun er ekki aðeins ákvörðun um kostnað hjá ríkinu upp á 150--200 millj. a.m.k. á ári hverju á næstunni og hundruð milljóna hjá atvinnurekstrinum. Þetta er ákvörðun um að innheimtan muni versna og um það eru allir sammála, ekki aðeins á næsta ári heldur á komandi árum. Þannig að þetta tjón getur orðið að milljörðum áður en upp er staðið. Og þeir aðilar sem hafa gengið hvað lengst fram í því að ásaka okkur framsóknarmenn fyrir aðild að svokölluðu sjóðasukki, eins og það hefur verið orðað svo smekklega af hæstv. forsrh., ættu að líta í eigin barm, því að sú gagnrýni hefur verið óréttmæt.
    Ég vænti þess að þetta mál verði enn til skoðunar milli 2. og 3. umr. Við teljum að það sé skynsamlegt að nokkurt ráðrúm gefist til þess. Því þó að hér sé umræða í þinginu um að leiðrétta nokkra verstu ágallana af því sem verið er að tala um, þá vil ég taka fram að það eru aðeins smámunir á við allt það sem hér er í húfi. Ég vænti þess að Ríkisendurskoðun sem er tæki Alþingis til þess að viðhalda sjálfstæði Alþingis, til þess að fara ofan í þau mál sem eru teknar ákvarðanir um, ekki síst til þess að slík mistök verði ekki gerð aftur, muni komast að skjótri niðurstöðu. Auðvitað ætti að bíða með þessa lagasetningu þar til þeim athugun væri lokið. En hér eiga ekki að eiga sér stað sjálfstæð og fagleg vinnubrögð. Hér á að vaða áfram út í myrkrið og slökkva ljósin.
    Ég vona hins vegar að þetta verði tekið til athugunar milli umræðna. Öll rök hníga í þá átt og við sem flytjum breytingartillögur í 2. minni hluta efh.- og viðskn. munum draga þessar breytingartillögur til baka til 3. umr. þannig að ráðrúm gefist til þess að fara betur yfir málið. Ef ekki næst neitt samkomulag á því stigi, þá munum við að sjálfsögðu ganga til atkvæða um þær breytingartillögur. Það verður atkvæðagreiðsla sem þjóðin mun fylgjast með, það vitum við. Ég held að það muni koma í ljós að þær tillögur eru þær skynsamlegustu í stöðunni og það væru mikil mistök ef menn kæmust að raun um það eftir nokkra mánuði því þá er skaðinn skeður og þá verður erfitt að ganga til baka eins og nefnd löggiltra endurskoðenda kemst að niðurstöðu um.