Lánsfjárlög 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 13:03:34 (3139)


[13:03]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Að því er varðar SR-mjöl þá er það ekkert sem þarf að taka tíma í að ganga frá sérstaklega, hæstv. fjmrh. Þetta er fyrst og fremst spurningin um reikningsskilaaðferðir og þó að hæstv. ríkisstjórn geti ákveðið ýmislegt með ýmsum hætti og haft undirbúning heldur lítinn þá er það ekki að mínu mati á færi hæstv. ríkisstjórnar að breyta reikningsskilaaðferðum í sambandi við fjárlagafrv. eftir því sem henta þykir hverju sinni. Hæstv. fjmrh. gefur það fyllilega í skyn að það kunni að vera nauðsynlegt að breyta reikningsskilaaðferðum til þess að hafa upp í þessa áætlun. Ég ætla að vona að ríkisstjórnin hyggist ekki breyta reikningsskilaaðferðum til að reyna að fá fjárlagafrv. til að passa þannig að hér er engu frá að ganga. Ríkisstjórnin verður að fylgja settum aðferðum í þessu skyni og getur ekkert verið að breyta þeim út og suður.