Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:53:05 (3225)


[22:53]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki hafa langt mál um þessar breytingar í skattamálum, einungis drepa á tvö efnisatriði sem hér liggja fyrir í brtt. á þskj. 483.
    Það fyrra er breyting á 4. gr. frv. sem bætir við og gerir ótvírætt að gjafir og framlög til stjórnmálaflokka að ákveðnu hámarki séu frádráttarbær sem kostnaður á rekstri fyrirtækja.
    Ég vil segja um þessa breytingu að það er auðvitað rétt sem fram hefur komið hjá frsm. meiri hluta efh.- og viðskn., að menn hafa túlkað lög fram til þessa með þeim hætti að þetta væri heimilt og vissulega voru ákvarðanir skattstjóra frá því í fyrra, ef ég man rétt, umdeilanlegar út frá þeirri lagatúlkun og eðlilegt að menn veltu því fyrir sér hvort ekki væri nauðsynlegt, til að taka af allan vafa, að flytja um það sérstaka lagabreytingartillögu.
    Ég vil segja um það mál að ég tel að það eigi að vera í lögum um tekju- og eignarskatt skýr ákvæði um meðferð þessara mála gagnvart stjórnmálaflokkum þannig að ekki leiki neinn vafi á því hvernig eigi að fara með, hvorki hjá þeim sem af hendi lætur né hjá þeim sem við tekur. Ég get því stutt þessa tillögu, þó að því tilskildu að sú nefnd sem á að undirbúa lagafrv., eins og frá var greint af hæstv. forsrh., taki til athugunar með hvaða hætti stjórnmálaflokkar eigi að ganga frá og haga sínu bókhaldi og framtalsskilum. Ég tel að þegar viðurkennt er að menn afhendi verðmæti frá atvinnufyrirtækjum til stjórnmálaflokka þá verði skattayfirvöld að hafa ótvíræðan og greiðan aðgang að þeim sem við tekur til að geta gengið úr skugga um að ekki sé neitt óhreint mél í pokahorninu.
    Ég er á þeirri skoðun að stjórnmálaflokkar og félög, sem og önnur samtök sem þarna eru tilgreind, eigi að skila framtali til skattyfirvalda, eigi að vera framtalsskyld.
    Og ég vildi láta það koma fram af minni hálfu að ég tel að sú nefnd sem á að undirbúa löggjöf um þetta málefni eigi að leggja þetta til og í trausti þess að menn komist að þessari niðurstöðu ætla ég að styðja þessa tillögu.
    Hitt atriðið sem ég vil víkja örfáum orðum að eru þær breytingar sem lagðar eru til í annarri tillögu á þskj. 483, sem varða kaup á eignarhluta í íbúð samkvæmt 92. gr. laga nr. 86/1988. Ég vil almennt segja um þær breytingar sem þarna eru lagðar til að ég tel mjög varasamt að lögfesta breytingar sem eru komnar fram með svo skömmum fyrirvara sem þessar tillögur eru. Þær hafa ekki sést hér á borðum fyrr en í kvöld og eru það viðamiklar að ég tel fráleitt að nokkur þingmaður geti skoðað þær til sæmilegrar hlítar á þessari kvöldstund, þannig að sómasamlegt sé, til þess að greiða götu þessa máls á svo knöppum tíma. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir málinu á þessum skamma tíma sem liðinn er síðan tillagan var lögð fram, en að sjálfsögðu hef ég ekki getað náð yfir það allt og verð að hafa ákveðinn fyrirvara á því sem ég kann að segja um það mál núna. En almennt sýnast mér vera ákveðin atriði sem menn þurfa a.m.k. að skoða.
    Ég vil í fyrsta lagi nefna að þeir sem kaupa sér eignarhluta í íbúðum, hvort heldur það er í almennum kaupleiguíbúðum eða félagslegum kaupleiguíbúðum, eru skilgreindir sem leigjendur samkvæmt lögum. Þess vegna ná breytingar á vöxtum ekki yfir þá aðila, en eins og þingmönnum er kunnugt eru vextir t.d. í félagslega íbúðarlánakerfinu endurskoðaðir eftir sex ára eignarhald á íbúð og við það geta vextir hækkað úr 2,4% upp í 4,9%. Þetta á við þá sem eru skilgreindir sem kaupendur að íbúð, en séu þeir aftur innan Búseta þá eru þeir skilgreindir sem leigjendur og eru því varðir gagnvart hugsanlegri vaxtahækkun af þessu tagi.
    Ég tel líka að það fari ekki vel saman að sami aðili eða einstaklingur sé skilgreindur bæði sem eigandi og leigjandi í sömu húsnæðislöggjöf, sem óhjákvæmilega hlýtur að vera ef þetta nær fram að ganga. Hann er skilgreindur sem leigjandi af viðkomandi samtökum sem eiga íbúðina, greiðir af henni leigu, en verður svo skilgreindur sem eigandi hvað varðar eignarhlutinn sem getur verið 10% eða 30% eftir atvikum. Þar með er sami framteljandi orðinn bæði eigandi og leigjandi í skattalegum skilningi.
    Það vakna líka spurningar um það hvað beri að gera þegar eigandi að íbúð, eins og t.d. almennri eða félagslegri kaupleiguíbúð, leigir íbúðina. Löggjöfin er þannig að sá sem á kost á íbúðinni getur valið um þrennt. Hann getur valið um að kaupa íbúðina, hann getur valið um að leigja hana eða í þriðja lagi að leigja hana með því að kaupa sér eignarhlut. Við skulum gefa okkur sem dæmi að hann ákveði að leigja íbúðina. Þá er húsaleigan ákvörðuð þannig að þeim sem á íbúðina, framkvæmdaaðilanum, er heimilt að reikna vexti af sínu framlagi, sem annars hefði verið eignarhlutur leigjandans, inn í húsaleiguna og láta leigjandann greiða þann hlut. Þá er komin upp mismunandi staða eftir því hvort eigandinn er einstaklingur eða t.d. félag. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta lagaákvæði sé þannig fram sett að ætlast sé til þess að t.d. byggingarfélag fái endurgreidda þessa vexti. Ég tel því að það sé nauðsynlegt að skoða þessi mál miklu betur en gefist hefur kostur á á þessum skamma tíma og líka í ljósi þess að menn ætla að leggja hér fram löggjöf um húsaleigubætur, en það kallar enn frekar á að menn fari yfir löggjöfina, bæði yfir húsnæðislöggjöfina sjálfa og skattalöggjöfina hvað varðar eigendur íbúðarhúsnæðis annars vegar og leigjendur húsnæðis hins vegar. Samþykkt þessarar tillögu gerir ekkert annað en að flækja þessi mál enn meira en orðið er og er þó grauturinn æðimikill fyrir. Ég tel að ef þingið slysaðist til að samþykkja þessa tillögu þá væru menn einfaldlega að gera sér erfiðar fyrir í endurskoðun málsins á komandi ári. Ég vara við því og ráðlegg mönnum að fresta afgreiðslu málsins eða draga þessa tillögu til baka. Ég tel það skynsamlegra út frá framhaldi málsins og það þjónar betur hagsmunum þeirra sem tillagan er ætluð.