Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:13:59 (3229)


[23:13]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið hv. þm. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið hvert hann var að fara. Hann byrjaði á því að tala um einhverjar sögulegar skýringar og vitnar þá væntanlega

til þess að þetta hafi ekki verið frádráttarbært frá skatti. Ég get líka sagt honum að það var nú einu sinni þannig að einstaklingar máttu draga frá skatti þegar þeir gáfu til líknarmála, menningarmála og vísindalegrar rannsóknastarfsemi og þess háttar. En ég vissi ekki að stjórnmálaflokkar féllu undir neitt af því sem stendur hér í lögunum. Ekki er þetta menningarmál og ekki vísindaleg rannsóknastarfsemi og ekki viðurkennd líknarstarfsemi og ekki kirkjufélög. Ekkert af þessu eru stjórnmálaflokkar. Ef hv. þm. er að leggja það til hér við Alþingi að þetta ákvæði í skattalögum falli undir það þegar birtar eru auglýsingar í tímaritum þá þótti mér það merkilegt. Ef sú breytingartillaga sem hann er að leggja til næði ekki fram að ganga gætu þá fyrirtækin ekki auglýst lengur í Morgunblaðinu eða DV eða hvað er hann að tala um? Af hverju tekur hann Veru sérstaklega út? Það er auðvitað af og frá. (Gripið fram í.) Þannig að ég held að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sé þarna algerlega á villigötum ef hann er að leggja þessa brtt. til vegna þess að fyrirtækjum sé bannað að auglýsa í dagblöðum og tímaritum. Það getur ekki verið að það sé það sem hann á við.